Samkeppnisstaða bæjarfélagsins til langs tíma er að veði

og verður ekki unað við óbreytt ástand í raforkumálum og varðandi framboð varaafls, segir m.a í bréfi bæjarstjóra til iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

29.Mars'20 | 10:55
eyjar_kvold_gig

Samfélagið, fyrirtæki og heimili þurfa að geta treyst því að lausnir séu til staðar til að bjarga því að stórtjón verði ekki vegna skorts á raforku. Ljósmynd/Gunnar Ingi

Á fundi bæjarráðs á fimmtudaginn var gerði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri grein fyrir bréfi til iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um nauðsyn á úrbótum á varaafli í Vestmannaeyjum. 

Ljóst er að úrbóta er þörf ef ekki eigi að skapast hætta á verulegu efnahagslegu tjóni komi til óveðurs eða annarra aðstæðna þar sem þörf er á varaafli.

Í afgreiðslu bæjarráðs tekur ráðið undir álit um nauðsyn þess að hvetja til úrbóta á varaafli í Vestmannaeyjum og bréf bæjarstjóra til iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Varaafl í Vestmannaeyjum er innan við 5 MW, en meðalnotkun í bænum er um 7 MW

Í bréfi bæjarstjóra er vitnað til fundar sem haldinn var í Eyjum þann 3. mars síðastliðinn með forsvarsmönnum Landsnets, HS Veitna og hagsmunaaðilum, varðandi varaaflsmál í Vestmannaeyjum. 

Á fundinum lýstu Vestmannaeyingar áhyggjum af stöðu mála þar sem ljóst er að uppsett varaafl í Vestmannaeyjum er innan við 5 MW, en meðalnotkun í bænum er um 7 MW. Hámarksnotkun þegar frysting og bræðsla á uppsjávarfiski á sér stað getur farið upp í um 16 MW, en notkun eykst árlega að jafnaði.  Það var óumdeilt á fundinum að úrbóta væri þörf. Landsnet kynnti lausn sem fól í sér færanlegar rafstöðvar sem, í neyðartilvikum, gætu verið fluttar til Vestmannaeyja. Heildarframleiðslugeta þeirra véla sem Landsnet hefur fengið leyfi til að kaupa er um 12 MW og telja Vestmannaeyingar ljóst að þær muni ekki allar vera staðsettar í Vestmannaeyjum þar sem þær eiga að þjóna öllu landinu.

Margar ólíkar bilanir geta átt sér stað sem geta valdið því að varaafl í Vestmannaeyjum verði eina leiðin til að halda bæjarfélaginu gangandi

Á fundinum var farið yfir stöðu mála í kerfi Landsnets og úrbætur sem þörf er á til þess að Vestmannaeyingar geti notið þess afhendingaröryggis sem Landsnet hefur skyldur til að veita, þ.e. svokallað N-1, sem felur í sér að ef einhver ein lína eða stöð bilar mun afhending ekki skerðast til neytenda. Til þess að rafmagnsleysi eigi sér stað þurfi tvennt að bila.  Kom fram að til þess að Vestmannaeyjar uppfylli N-1, þurfi að gríða til nokkurra aðgerða sem ekki eru á dagskrá Landsnets á komandi árum, auk lagningu sæstrengs sem er fyrirhugaður.

Staða Vestmannaeyja með tilliti til orkuöflunar er nokkuð sérstæð í raforkukerfinu, þar sem raforkan er flutt um sæstrengi til bæjarins, eftir að hafa verið tekin gegnum Rimakot (sem uppfyllir ekki N-1), en kerfið sem veitir orku að Rimakoti er að hluta til orðið mjög gamalt.  Það eru því margar ólíkar bilanir sem geta átt sér stað sem geta valdið því að varaafl í Vestmannaeyjum verði eina leiðin til að halda bæjarfélaginu gangandi. Ekki þarf að fjölyrða um þau geysimiklu verðmæti sem geta tapast þegar vertíðir standa yfir.

Nokkrar leiðir færar

Í ljósi undangenginna áfalla og þeirrar stöðu sem er uppi í málinu, óskar Vestmannaeyjabær og hagsmunaaðilar eftir því að Landsnet komi að lausn málsins. Nokkrar leiðir eru færar í þeim efnum:

  • Landsnet flýti áformum sínum, þ.a. Vestmannaeyjar komist í N-1 afhendingu á raforku. Það verði gert með því að leggja nýjan sæstreng til að leysa af hólmi þann gamla sem telst komin á tíma og setja nýja Rimakotslínu á framkvæmdaáætlun fyrir næstu ár.
  • Landsnet setji upp 12MW varaaflsstöð í Vestmannaeyjum þar sem afhendingaröryggi er langt undir viðmiðum og kröfum nú til dags.
  • Landsnet geri langtímasamning varðandi rekstur varaaflstöðvar í Vestmannaeyjum í samstarfi við Vestmannaeyjabæ eða helstu fyrirtæki bæjarins.  Hluti af slíkum samningi yrði kostnaðarþátttaka í tengingu stöðvarinnar og árlegar greiðslur fyrir uppsett MW af orku til að standa undir rekstri stöðvarinnar.

Óska eftir skýringum frá Landsneti hvað fyrirtækið hyggst gera til að standa við skyldur sínar gagnvart atvinnulífi og bæjarbúum

Samkeppnisstaða bæjarfélagsins til langs tíma er að veði og verður ekki unað við óbreytt ástand í raforkumálum og varðandi framboð varaafls. Mesta verðmætasköpunin á sér oft stað á þeim tíma sem veður og sjólag er hvað verst við Vestmannaeyjar og þarf samfélagið, fyrirtæki og heimili að geta treyst því að lausnir séu til staðar til að bjarga því að stórtjón verði ekki vegna skorts á raforku. Þær langtímalausnir sem hafa verið ræddar eru ekki í sjónmáli næstu ár og óskum við eftir skýringum frá Landsneti hvað fyrirtækið hyggst gera til að standa við skyldur sínar gagnvart atvinnulífi og bæjarbúum í Vestmannaeyjum, segir að endingu í bréfi bæjarstjóra til ráðherra.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).