Ragnheiður Helga Sæmundsdóttir skrifar:

Nokkur orð um kvíða

16.Febrúar'20 | 11:53
kvi_ads

Mynd/úr safni

Það er svo ofboðslega skemmtilegt og lærdómsríkt að fylgjast með ungu og upprennandi fólki njóta sín og eflast og mótast í allskonar aðstæðum. Sem skólasálfræðingur fæ ég að upplifa þetta í starfi á hverjum degi. 

Það er í senn gefandi og krefjandi. Það er krefjandi, vegna þess að allskonar erfiðleikar geta knúið dyra hjá okkur, á öllum aldri, stórum og smáum. Alvöru áskoranir. Sálarlífið getur beðið allskyns hnekki og orsök þess og ráð við því er sífellt lifandi umræða. Gott dæmi um þetta er kvíði. Hann tekur á sig ótal birtingarmyndir og er einmitt mjög algeng glíma. En af hverju stafar hann?

Er það óhagstætt orkuflæði? Kærleiksleysi? Flækjur í einhverri undirmeðvitund eða stíflur í líkamsjafnvægi? Og það virðist vinsæl pæling, eða í það minnsta eru það skilaboð sem berast almenningi úr ýmsum áttum, að við þessu séu til skjótfengnar lausnir sem fela gjarnan í sér loforð um hamingju og streitufrítt valhopp restina af lífsleiðinni. Þetta sé spurning um að endurtaka réttu möntruna nógu oft, spyrja undirmeðvitundina réttu spurninganna og búmm!

En mig langar að leggja til annan vínkil.

Heimur vísindanna, sem sálfræðin heyrir einmitt undir, á svo sem ekki endilega svörin við öllu og við vitum ekki allt. En við vitum þetta: kvíði er langt frá því að vera eitthvað yfirskilvitlegt eða dularfullt fyrirbæri. Hann á sér miklu hversdagslegri skýringar, mun nærtækari en þessar sem ég nefni hér að ofan, sem eru einungis brot af þeim kenningum sem ég hef hnotið um að undanförnu í opinberri umræðu. Þær fara fyrir brjóstið á mér ekki bara vegna þess að þær eru langsóttar og óljósar, heldur fela þær í sér þá hugmynd að ef fólk er kvíðið, þá sé það óeðlilegt ástand og fólkið sjálft jafnvel afbrigðilegt með einhverjum hætti.

En sem betur fer er reyndin önnur. Það kemur á daginn að kvíði stafar ekki af því að við séum neitt afbrigðileg, nema síður sé. Fólk er ekkert öðruvísi innréttað lífeðlislega ef það glímir við kvíða. Kvíði er í grunninn bara tilfinning sem við upplifum öll í einhverju samhengi, ekki sjúkdómur, heldur gagnlegt og bráðnauðsynlegt viðbragð sem við vildum ekki vera án. Kvíði er varnarkerfi, innbyggt í okkur, og gerir okkur kleyft að bregðast við þegar á þarf að halda. Þegar við þurfum að verja okkur, víkja okkur undan hættu, þegar við viljum standa okkur, og stundum, bara þrífast í verkefnum hversdagsins og líða vel í samskiptum við aðra. Við þetta má bæta að ein besta vörnin sem við höfum gegn honum, hvert og eitt, er hið öfluga og merkilega fyrirbæri: skynsemin. Gagnrýnin hugsun og dass af hugrekki. Meiri dulúð ríkir ekki yfir því. En bíddu við, kæri lesandi. Nú fer ég betur yfir hvað ég meina og segi eins og einn af mínum fyrirmyndum á sálfræðisviðinu, breskur prófessor, sem segir gjarnan: don’t trust me, work with me!

Hvenær er þá kvíði orðinn of mikill? Hvenær er hann vandamál?

Séð frá bæjardyrum sálfræðingsins er kvíði, þegar hann á annað borð er hamlandi og stoppar okkur í því sem við viljum geta gert, ákveðin stærð. Hann er stærð sem ræðst af, annars vegar, ofmati á því hversu líklegt er að eitthvað slæmt muni gerast, hversu hræðilegt það yrði og svo hins vegar, vanmati á eigin bjargráðum, því sem við teljum okkur geta gert til að hafa áhrif á aðstæður.

Þegar kvíðavekjndi aðstæður eru framundan þá eru svörin við þessum spurningum athuguð. Svör kvíðans eru jafnan hlaðin bölsýn og hiki og forspá um hvað er framundan lituð af því. En þegar ætlunin er að vinna bug á kvíðanum eru svörin við þessum spurningum endurmetin. Ný svör eru fengin gegnum það sem er raunsætt og það sem er gagnlegt. Að taka hina skekktu kvíðaforspá og tækla hana á skynseminni. Og svo, með viðeigandi undirbúningi og stuðningi, er forspáin athuguð í hinum kvíðavekjandi aðstæðum. Hvað gerist raunverulega?

Ef við ímyndum okkur að kvíði sé eins og pollur á veginum. Við komumst ekki áfram nema finna leið yfir hann. Nokkuð sannfærð um að við séum í slæmum málum, náum við samt upp hugrekki til þess að reyna að stökkva yfir. Ef það tekst, nú þá höfum við reynt á eigin skinni hvers megnug við erum. Ef ekki, og við höfnum út í miðjum pollinum, blaut upp að hnjám...hvað þá? Ég myndi spyrja, var eitthvað sem hægt væri að læra á þessu? Rigndi nokkuð í pollinn meðan við biðum? Hversu hættulegt var það að blotna eftir allt saman? Var það jafn hræðilegt og við héldum? Og við getum haldið áfram; er einhver sem hefur aldrei blotnað? Væri það eftirsóknarvert að eiga enga slíka reynslu með sjálfum sér? Er til sú bleita sem aldrei þornar?

Tökum smá dæmi

Eitt sem gæti verið gagnlegt að hafa bak við eyrað, sérstaklega þegar áhyggjur verða miklar, almennar, þrálátar og íþyngjandi hjá barni. Hann eða hún hefur ríka tilhneigingu til þess að jórtra sífellt á ,,hvað ef –spurningunni” og botnar flestir lausnir með orðunum ,,já, en?“ og sækir stíft í svör og fullvissu frá mömmu og pabba. Framundan er ferð upp á land og barnið spyr kannski ítrekað í öngum sínum ,,mamma, mamma! Við missum af bátnum! Hvað ef við missum af bátnum, hvað þá? Og mamman svarar ,,nei, nei, vertu róleg/ur, ég sé til þess. Hugsa þú ekki um það”.

Það er ekkert bogið við það í sjálfu sér að mamman skynji stressið og vilji dempa það hjá barninu sínu.

En hver er gallinn við þetta svar? Það sefar e.t.v. óttann eitt andartak. En hvað ef mamma prufar að spyrja á móti, af mildi og forvitni; ,,já, bíddu við, hvað gerum við þá?” Og sjá hvaða svar barnið hefur sjálft. Oft geymist ýmislegt lausnamiðað og flott í barnsins eigin ranni. Ýmist auðsótt eða vel falið, en er þar oftast! Og með endurtekningu og vel nýttum tækifærum, eflast eigin bjargráð hjá barninu og það er líklegra til að eiga ása uppi í erminni þegar óvissa, óvæmtar eða krefjandi aðstæður vekja kvíða.

Við viljum auðvitað, og reynum að vera, örugga höfnin í lífi barnanna okkar. Það þýðir þó ekki að við höfum alltaf svörin og lausnirnar. En, það sem við, mömmur og pabbar, getum lagt okkur fram um að gera, ef við viljum skaffa leiðarljósið, að leitast líka við að kalla fram þeirra eigið leiðarljós. Þeirra eigin bjargráð. Svo þeirra eigin lausn fái brautargengi þegar á reynir. Það eflir meira en hvaða redding eða hvatningarræða sem við útvegum.

Það að gera kvíða að viðráðanlegri stærð í hversdeginum, felur í sér að ganga gegn því sem kvíðinn segir okkur um hvað við getum eða ættum að gera. Að vinna bug á kvíða kallar á að við samþykkjum að bjóða heim áhættunni og óttanum. Við það eykst kvíðinn oft tímabundið, áður en hann lagast. En hvernig sigrumst við annars á einhverju sem við ætlum ekki að mæta? Gallinn við að hlíða kvíðaröddinni er sá að við förum á mis við tækifærið til að endurmeta, og oftast gengisfella, það sem kvíðinn heldur fram. Ef hann fær að setja okkur takmarkanirnar, og við göngum ekki gegn því sem hann segir, þá gerir það það að verkum að við komumst ekki að raun um annað. Við höfnum í vítahring þar sem kvíðinn hefur yfirhöndina.

Sem sagt:

Að sá þessu fræi snemma er gott og verndandi veganesti, að planta þessu bæði í huga og reynslubanka barna: viðmótinu að það sé eðlilegt að upplifa kvíða, samþykkja og hann sé partur af prógraminu og sé meira að segja gagnlegur í ákveðnu magni. Og síðan því að þetta endurmat, þegar kvíðinn talar, komi að sjálfstáðum. Þannig að þegar kvíði dúkkar upp að þá komi samferða honum viðleytnin til að ná tökum á honum í stað þess að láta hann hafa tökin í aðstæðum. Reyndin er nefnilega sú hjá okkur öllum að það sem kvíðinn hvíslar að okkur (eða jafnvel öskrar á okkur) að við getum ekki er engan veginn það sama og það sem við getum ekki í raun og veru. Svo að jafnvel þegar kvíði verður of mikill og byrjar að vera hamlandi þá er hann eftir sem áður yfirleitt tilfinning sem ,,meikar sens” þegar að er gáð og samhengið er skoðað nánar. Og þá, þegar það gerist, er gott að snúa dæminu við og læra að stjórna kvíðanum í stað þess að láta kvíðann stjórna sér.

 

Ragnheiður Helga Sæmundsdóttir 

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla.