Mál Hraunbúða á dagskrá bæjarráðs

13.Febrúar'20 | 06:55
iris_roberts

Íris Róbertsdóttir

Eyjar.net hefur síðustu daga fjallað ítarlega um stöðu hjúkrunar- og dvalarheimilisins Hraunbúða, en Vestmannaeyjabær hefur þurft að hlaupa undir bagga þar sem framlög ríkisins standa ekki undir rekstri heimilisins.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri segir að Hraunbúðir hafi verið starfandi frá því í október 1974, fyrst sem dvalarheimili en frá 1987 sem hjúkrunar- og dvalarheimili auk dagdvalarrýma við stofnunina. 

„Í dag eru 31 hjúkrunarrými á Hraunbúðum og 4 dvalarrými auk 10 dagdvalarrýma. Rekstur Hraunbúða byggir á framlagi ríkisins vegna dvalar- og hjúkrunarrýma og vegna dagdvalargjalda. Þessi framlög ásamt framlagi dagdvalargesta eiga að standa undir öllum kostnaði heimilisins.

Rekstur Hraunbúða hefur í gegnum árin verið mis erfiður og halli á rekstri verið í fyrstu sitt hvoru megin við núllið. Fjárframlög ríkisins hafa sveiflast til sem og launa og annar rekstrarkostnaður. Annar kostnaður vegna húsnæðis hefur einnig haft þar áhrif. Rekstur Hraunbúða er B-hluta rekstur sem gera þarf upp á núlli sem þýðir að bæjarsjóður hefur þurft að taka á sig hallareksturinn með meðgreiðslum frá  A-hluta rekstrarins. Með endurteknum hallarekstri hefur skuld Hraunbúða við A-hlutasjóð sveitarfélagsins aukist ár frá ári.” segir Íris.

Hún segir að framlag til dvalar- og hjúkrunarheimila hafi í gegnum árin verið einhliða ákveðin af ríkinu í gegnum fjárlög. „Árið 2016 var undirritaður þjónustusamningur  milli ríkisins og allra rekstraraðila dvalar- og hjúkrunarheimila á landinu. Á sama tíma setti ríkið fram nýja kröfulýsing um þjónustuna á þessum stofnunum. Nýji samningurinn gilti til ársloka 2018 og voru vonir bundnar við að áfram yrði unnið í anda þess samnings og kröfulýsingum samningsins. Ekki náðist það markmið og allt árið 2019 var enginn samningur í gangi. Ekki var samið um um nýjan samning fyrr en í árslok 2019 og ríkið hálf neyddi rekstraraðila hjúkrunarheimila að skrifa undir tímabundinn samning. Samningsstaða rekstraraðila dvalar- og hjúkrunarheimila er lítil gagnvart ríkinu.”

Einhliða ákvörðun ríkisins á framlagi til dvalar- og hjúkrunarheimila

Íris segir að kröfur ríkisins til þjónustunnar hafi aukist en framlagið staðið í stað eða lækkað eins og svokallað smæðarálag sem greitt er til hjúkrunarheimila sem eru með 60 rými eða færri, þó ekki til hjúkrunarheimila sem eingöngu eru með dvalarrými. „Áður hækkaði framlag til hjúkrunarheimila í takt við svokallað RAI mat (mat á hjúkrunarþyngd). Nú er búið að takmarka þá tengingu og tekur framlag ríkisins minna mið af hjúkrunarþyngd heimila en áður. Mikill meirihluti dvalar- og hjúkrunarheimila á landinu eru rekin með tapi, hjúkrunarstuðull heimila er að hækka, kröfur á þjónustu er að aukast en ríkið boðar lækkun framlaga.

Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV)  fá reglulega afkomu tölur frá hjúkrunarheimilum. Árið 2019 skiluðu 30 heimili tölum til þeirra og áætla 26 af 30 (87%) hjúkrunarheimila að afkoma ársins verði neikvæð. Áætluð samantekin afkoma heimilanna árið 2019 er neikvæð um 850 milljónir króna. Lítill skilningur er á rekstri hjúkrunarheimilana og svar frá ríkinu um hvað má draga úr í þjónustu (kröfulýsingu) svo hægt sé að mæta skertu framlagi fæst ekki.”

Rekstur Hraunbúða

„Vestmannaeyjabær hefur í fjölda ára þurft að greiða með rekstri Hraunbúða því framlag ríkisins dugar ekki til rekstursins. Þessi staða er þekkt staðreynd hjá öðrum rekstraraðilum dvalar- og hjúkrunarheimila á landinu. Athugun sem gerð var á vegum Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) á rekstri hjúkrunarheimila á árinu 2016 sýndi að daggjald frá ríkinu þurfti að hækka um ca. 30% til að reksturinn næði jafnvægi. 

Gerðar hafa verið nokkrar athuganir á rekstri Hraunbúða og kannað hvað í honum mætti lagfæra eða hagræða. Hallinn hefur verið mis mikill á milli ára. Frá árinu 2010 hefur verið hallarekstur öll árin allt frá 17,5 milljón árið 2010 og upp í 85 milljón árið 2019. Athyglisvert er að mesti hallareksturinn var árið 2019 en það ár lækkaði tekjuþátturinn (-1,4% milli áranna 2018 og 2019) og gjöldin hækkuðu mest (9,9% hækkun á milli áranna 2018 og 2019).

Sjá einnig: Bærinn hefur greitt á sjötta hundrað milljónir með rekstri Hraunbúða

Laun hafa hækkað frá því að vera um 196 miljónir árið 2010 upp í tæpar 419 milljónir árið 2019 eða um 113,4%. Hækkunin á  launum milli áranna 2018 og 2019 var um 14,8% en um 12,2% á milli áranna 2017 og 2018. Annar rekstur hefur hækkað um 26,7% frá árinu 2010. Aukin launakostnaður skýrist bæði af launahækkunum og fjölgun stöðugilda. Fjölgun stöðugilda kemur til út af kröfulýsingu ríkisins, opnun á nýrri deild fyrir heimilismenn með sérhæfðar þarfir og auknu álagi vegna aukinnar hjúkrunarþarfa og umönnunar. Almennt er launakostnaður um 70 – 80% af rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila og er Hraunbúðir þar engin undantekning.” segir bæjarstjóri.

Vestmannaeyjabær er aðili að Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV)

Íris bætir við að Vestmannaeyjabær sé aðili að Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu sem eru hagsmunasamtök m.a. hjúkrunarheimila. „SFV hefur umboð sveitarfélagsins til að tala máli okkar varðandi rekstur Hraunbúða gagnvart ríkinu og gætir hagsmuna okkar. Mikilvægasta baraáttumál samtakanna er að knýja á um að hjúkrunarheimili fái réttmætar greiðslur fyrir þá þjónustu sem þeim er ætlað að sinna.”

Algerlega óviðunandi staða

Hún segir að af þessari samantekt megi sjá að staðan í dag er óviðunandi og getur ekki gengið svona áfram, ríkið þarf að uppfylla sýnar skyldur. „Ekki að skýla sér á bak við Sjúkratryggingar Íslands. Sveitarfélögin eru vel til þess fallin að reka dvalar- og hjúkrunnarheimili en ríkið þarf að greiða framlög sem standa undir þeim rekstir sem ríkið sjálft gerir kröfulýsingu um. Þannig er það ekki í dag. Formaður bæjarráðs hefur ákveðið að taka þetta mál á dagskrá bæjarráðs í næstu viku. Þar verður tekin ákvörðun um næstu skref.” segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri.

Þessu tengt: 

Rekstur Hraunbúða þungur

Alvarleg og óviðunandi staða

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.