Aðgengi almennt að bráðu sjúkraflugi í Eyjum alls ekki fullnægjandi

- segir Hjörtur Kristjánsson framkvæmdastjóri lækninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands

10.Janúar'20 | 07:15

Hjörtur Kristjánsson er framkvæmdastjóri lækninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Eyjar.net ræddi við Hjört um stöðuna í sjúkraflugi í dag og hvaða úrbætur hann sjái til að bæta þessa mikilvægu þjónustu.

Eyjar.net birti í gær viðtal við Leif Hallgrímsson, framkvæmdastjóra Mýflugs vegna atviks þegar viðbragðstími fór yfir þrjár klukkustundir í forgangsútkalli til Eyja. Hjörtur segir að hann þekki ekki til þessa tilfellis og kom ekki að því persónulega. Auk þess segir hann erfitt að tjá sig um einstök mál af persónuverndarsjónarmiðum.

Sjá einnig: Biðu eftir sjúkravél Mýflugs í rúma þrjá klukkutíma í bráðatilviki

Sérstakar aðstæður fyrir hendi í Eyjum

„Að því sögðu þá er aðgengi almennt að bráðu sjúkraflugi í Vestmannaeyjum er alls ekki fullnægjandi eins og núverandi fyrirkomulag er. Á þetta hefur endurtekið verið bent. Vestmannaeyjar eru fjölmennasti þéttbýlisstaður á Íslandi þar sem ekki er aðgengi að sérhæfðri bráðalæknishjálp (s.s. sérhæfðri öndunaraðstoð)  innan 45-60 mínútna og þar fyrir utan eru aðrar sérstakar aðstæður fyrir hendi í Eyjum, þ.e.a.s. ekki er hægt að sinna bráðaflutningum landleiðina eins og gefur að skilja.

Þetta er einn af aðalþáttunum í rökstuðningi fyrir því að koma á þjónustu sérhæfðrar sjúkraþyrlu á SV-horninu/Suðurlandi. SASS og þingmenn Suðurkjördæmis hafa m.a. beitt sér fyrir því auk fagaðila. Vilhjálmur Árnason þingmaður hefur að öðrum ólöstuðum verið mjög ötull baráttumaður fyrir sjúkraþyrlu og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur komið málinu á verkefnaborð ríkistjórnarinnar eins og kom fram í fréttum nýverið – og Vestmannaeyjar voru nefndar sérstaklega í þeirri tilkynningu.” segir Hjörtur.

Staðsetning sjúkraþyrlu á Hvolsvelli væri skynsamlegasti kosturinn

Hann segir því líklegt að slík þjónusta, þ.e.a.s. sjúkraþyrla með staðarvakt sérhæfðs læknis og bráðatæknis, verði að veruleika á þessu eða næsta ári.

„Suðurland er augljóslega að mörgu leyti ákjósanlegasta svæðið á Íslandi fyrir þjónustu sérhæfðrar sjúkraþyrlu. Ef horft er á stærð svæðis sem er innan kjör-viðbragðstímaradíus sjúkraþyrlu, sem og úrbætur á öryggisstigi í Vestmannaeyjum þá tel ég persónulega að staðsetning á Hvolsvelli væri skynsamlegasti kosturinn. Með staðarvakt á mannskap þá ætti svona þyrla að geta verið komin í loftið innan 5-7 mínútna og flugtími til Eyja frá Hvolsvelli kannski 10 mínútur. Með þessu yrði aðgengi að sjúkraflutningi frá Eyjum hvað varðar tímafaktor sambærilegt við það sem var þegar sjúkraflugvél var staðsett í Eyjum og auk þess fylgir með sérhæfður læknir í bráðalæknishjálp.

Þjónustan myndi auk þess nýtast á stærstum hluta Suðurlands og brugðist við t.d. bílslysum með alvarlegum áverkum, en þar er mjög mikilvægt að hægt sé að veita sérhæfða bráðameðferð sem fyrst. Auðvitað eru alltaf sérstakar aðstæður, s.s. brjálað veður, þar sem eini möguleikinn er að fá aðstoð þyrlu af stærstu gerð, þ.e.a.s. Superpúmur Landhelgisgæslunar og það mun vera svo áfram.”

Skynsamlegast að koma á miðlægri vaktþjónustu

Hjörtur segir að það sé líka eitt atriði sem er m.a. brýnt að gera bragarbót á, en það er það hvernig ákvarðanatakan um flug versus þyrlu fer fram, sem og forgangsröðun.

„Eins og þetta er í dag þá er það oftast í raun þannig að flugrekstaraðili tekur ákvörðun um hvort hann geti sent flugvél í verkið m.t.t. veðurs, eða hvort kallað er á þyrlu Landhelgisgæslunnar. Ef það eru t.d. 50-70% líkur á því að flugvél geti lent í Vestmannaeyjum eru það þá ásættanlegar líkur til þess að kalla ekki til þyrlu strax ef sjúklingur er bráðveikur?  Annað atriði er forgangsröðun þegar tvö (eða fleiri) útköll koma á sama tíma. Læknir á staðnum hefur þá samráð við lækni í sjúkraflugvél ef hægt er, en viðkomandi er þá stundum í miðjum klíðum að sinna bráðveikum einstaklingi og auk þess oft sambandslaus þegar á flugi stendur. Starfsmenn Neyðarlínu hafa ekki menntun/þjálfun til þess að meta forgang.

Það er því, eins og ég og fleiri hafa bent á, skynsamlegast að koma á miðlægri vaktþjónustu til þess bærs læknis (með menntun og reynslu á sviði bráðalækninga). Slíkur læknir væri alltaf aðgengilegur án þess að vera sjálfur að sinna sjúklingum. Hann hefði bestar forsendur til að aðstoða við forgangsröðun og kallað til þyrlu ef þarf, auk þess að vera ráðgefandi fyrir bráðatilfelli fyrir vakthafandi lækna víðs vegar um land hvort svo sem sjúkraflutninga með flugvél/þyrlu er þörf eða ekki. Hann gæti líka sinnt erindum frá skipum ef veikindi eða slys ber á sjó og ráðlagt um viðbrögð. Slík vaktþjónusta gæti verið hluti af miðlægri „miðstöð utanspítalaþjónustu“ (sjúkraflutninga) sem margir telja skynsamlegt að koma á fót, þ.m.t. undirritaður.” segir Hjörtur Kristjánsson.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).