Eftir Ásmund Friðriksson

Erum á góðri leið, en viljum gera betur

Arður auðlinda í þjóðarþágu

31.Desember'19 | 11:50
IMG_6433-001

Ásmundur Friðriksson

Stjórnmál, starfsumhverfið og að vera stjórnmálamaður er afar sérstakur raunveruleiki. Verkefni stjórnmálamannsins klárast aldrei, en þú nærð áföngum. En hvar í flokki sem stjórnmálamaðurinn stendur er stóra verkefnið að létta byrgðar fólks til betra lífs. 

Það verkefni mun aldrei hverfa frá stjórnmálamönnum dagsins í dag eða þeirra sem framtíðina erfa. Við munum alltaf deila um leiðina að því marki að bæta kjörin, en að því stefna allir. Ríkisvaldið og atvinnulífið verða að tryggja að rétt verði gefið og þjóðin standi saman stétt með stétt eins og grunnstefna Sjálfstæðisflokksins míns, hefur alltaf verið. Virðisauka auðlindanna á að skapa innanlands.

Framtíðin mun byggja á fullnýtingu orkunnar til nýsköpunar og bláa hagkerfið með sterkum fiskistofnum, fiskeldi og markaðssetningu á fullunnu íslensku sjávarfangi eru enn ónýtt. Gullið tækifæri fyrir sjávarútveg fjórðu iðnbyltingarinnar að skapa ný verðmæt störf í stað þeirra sem hverfa. Að nýta arðinn til uppbyggingar í byggðunum þar sem verðmætin verða til.

Aukin kaupmáttur, lægri skattar

Það eru mörg merki um að við sem þjóð stöndum betur en nokkru sinni, þó bjálkinn í augum stjórnarandstæðinga byrgi þeim sýn. Fyrstu árin sem ég var á þingi frá 2013 var fátt meira við mig rætt en skuldir heimilanna og staða fólks eftir hrunið. Á fundum í kjördæmavikum með sveitarstjórnum var nær eingöngu rætt um skuldir heimilanna og stöðu þeirra. Síðust fjögur árin hefur staða heimilanna ekki verið nefnd á fundum með sveitarstjórnum í kjördæminu. Það er mikill þróttur í hagkerfinu, vextir lægri en nokkru sinni, hagvöxtur lækkar lítillega eftir að hafa verið með því mesta sem gerist undanfarin ár og skuldir ríkissjóðs lækkað úr 90% af landsframleiðslu í 20% frá hruni.

Þetta er gjörbreytt staða, lægri skuldir heimilanna og kaupmáttur sem áður hefur ekki þekkst er árangur sem við öll eigum að gleðjast yfir þegar við lítum yfir farinn veg um áramót. En við viljum gera betur og það á að gera betur. Skattalækkanir sem fyrst og fremst miðast við einstaklinga með lægstu tekjur taka gildi um áramót og koma að fullu til framkvæmda að ári og skila 21 milljarði í launaumslag vinnandi fólks, öryrkja og eldri borgara. Það eru raunverulegar kjarabætur og það verður haldið áfram. En tillögur við lokaafgreiðslu fjárlaga um hækkun bóta almannatrygginga frá þeim sem settu á skerðingarnar, lögleiddu framsal aflaheimilda eru sýndarmennska af verstu gerð.

Ríkisstyrkir og samkeppni

Jöfnuður er meiri á Íslandi heldur en gerist og gengur í flestum löndum, það sýna allar mælingar. En vissulega hafa fyrirtæki á Íslandi stækkað og þeim hefur líka fækkað. Fiskveiðiheimildir færast á færri hendur og fiskverkunin sömuleiðis. Það er raunveruleikinn til að geta tekist á við samkeppni á erlendum mörkuðum. Í Evrópusambandslöndunum er sjávarútvegur ríkisstyrktur, sem skapar mismun á samkeppnismarkaði. Þess vegna óskaði ég eftir því við Atvinnuveganefnd Alþingis að tekin yrði umræða um stöðu innlendrar fiskvinnslu í samkeppni um ferskan fisk á fiskmörkuðum við ríkisstyrktan sjávarútveg í Evrópu. Það er óþolandi mismunun.

Vegna þessa mismunar hafa hundruð starfa í fiskvinnslu á Íslandi tapast. Það er tímanna tákn, við horfum fram á fjórðu iðnbyltinguna í sjávarútvegi og hún verður ekki stöðvuð. Störfum fækkar í veiðum og vinnslu á sama tíma og fyrirtækin verða stærri og sterkari með framleiðni á við það sem best gerist í heiminum og trúlega stenst engin sjávarútvegur þeim íslenska snúning. En við verðum að gæta að stöðu vinnslunnar í landinu sem keppir við ríkisstyrkt fyrirtæki í Evrópu þar sem launin eru ¼ af launum í fiskvinnslu á Íslandi og stærstur hluti fjárfestinga endurgreiddur. Það er óþolandi ójafn leikur.

Það er mikilvægt að launafólkið í landinu finni að það beri úr bítum sanngjarnan hluta þeirra verðmæta sem atvinnulífið skapar með framlagi þess. Ef sú tilfinning hverfur og efi er á um að verðmætasköpunin skili sér réttlátlega til heimilinna, bæjarfélaga og velferðarinnar í landinu myndast gjá í samfélögin. Gjá sem við viljum ekki sjá og höfum ekki þekkt. Opinber og hreinskiptin umræða er mikilvæg til að færa okkur á rétta braut, Við þurfum á því að halda að standa saman til hugrakkrar sóknar fyrir nýja framtíð okkar allra í þessu landi.

Innviðauppbygging í almannaþágu

Það er ekki hægt að rifja upp árið 2019 og minnast ekki á stöðu innviða í landinu. Ég ætla ekki að fara í umkenningarleik í þeim málum sem er sérstök þjóðaríþrótt á Alþingi Íslendinga heldur að höfða til okkar allra í þeim efnum. Ég tel að uppbygging þjóðavegakerfisins í, til og frá  höfuðborginni, Reykjanesbraut,  Sundagöng, útrýming einbreiðra brúa, jarðgangnagerð, Teigskógur og Vestfirðir muni kafna í ósætti um fjármögnunarleiðir. Ef við verðum svo lánsöm að leysa fjármögnunina þá mun umhverfismat- og kæruferli koma í veg fyrir eða seinka framkvæmdum svo fæstir Íslendingar komnir yfir fimmtugt muni upplifa vegabætur sem þeim hefur þó dreymt um alla ævi. Trúlega mun formið koma í veg fyrir að verkin tali.

Að sama skapi mun uppbygging raforkuflutnings stranda á, umhverfismati- og kærum. Það er búið að koma upp þvílíkum frumskógi af kæruleiðum til að seinka eða koma i veg fyrir nauðsynlegar innviðauppbyggingar að annað eins þekkist ekki á byggðu bóli. Teigskógarvitleysan reið ekki við einteyming og ætti að vera víti til varnaðar. Á Suðurnesjum er slík endaleysa í uppsiglingu með nýja flutningslínu raforku til að standa undir raforkuöryggi, aukinni rafmagnsnotkun alþjóðaflugvallarins á Miðnesheiði, heimila og atvinnulífs á Suðurnesjum. Jafnvel þeir sem vilja ekki af umhverfisáhrifum leyfa nýja rafmagnslínu um Reykjanes eru áhugasamastir um að fá nýjan flugvöll yfir hraunið sem ekki má leggja um raflínur.

Ég velti fyrir mér, hver eru prinsippin í þeirri umræðu. Og ég er ekki enn kominn að Vestur,-Norður eða Austurlandi þar sem dögum saman varð rafmagnslaust í óveðri rétt fyrir jól og skort hefur flutning á rafmagni árum saman og málin leyst með díselvélum! Þar hafa sveitarfélög og einstaklingar eins og annarstaðar á landinu komið í veg fyrir úrbætur á flutningskerfinu árum saman. Er ekki kominn tími á að innviðauppbyggingar í almannaþágu verði undanþegnir þeim mats- og kæruleiðum sem í gildi eru svo ekki sé talað um sérhagsmunagæslu einstaka sveitarfélaga og einkahagsmuni fárra.

Þessu til viðbótar eru við að skoða stofnun Miðhálendisþjóðgarðs sem þekur yfir 40% af landinu þar sem engar raflínur í lofti verða leyfðar og nær  tekið fyrir tækifæri framtíðarkynslóða til orkuöflunar sjálfbærra orkukosta. Málið þarfnast mikillar skoðunar við, endurskoða Rammaáætlun, meta orku og flutningsþörf og sveitarfélögin veða að vera um borð í því máli eigi að nást sátt.

Verðmætaskapandi störf til sveita

Bændur fóru ekki varhluta af óveðrinu fyrir jól frekar en aðrir. En ef það væru bara náttúruöflin sem bændur ættu í útistöðum við þá stæðu þeir trúlega betur en þeir gera margir. Stór hluti þingheims með Viðreisn og Samfylkinguna í broddi fylkingar gera bændum allt til bölvunar. Matvælaöryggi þjóðarinnar skiptir þá flokka engu máli, en öðru máli gegnir um innflutning á niðurgreiddri offramleiðslu landbúnaðarafurða Evrópubandalangsins sem hefur lítið annað í för með sér en að veikja stöðu íslenskra bænda. Það eru mikil tækifæri í landbúnaði, garðyrkjan gæti fullnægt innlandsþörf í flestum tegundum. Heimavinnsla á kjöti og ferðaþjónusta á landsbyggðinni getur skapað ný störf og tækifæri sem tilfinnanlega vantar til sveita. Til þess þarfnast landbúnaðurinn stuðnings í orði og verki og ég skal sannarlega leggja mitt af mörkum til þess að það verði.

Baráttan gegn eiturlyfjum

Árangur íslenskra tollayfirvalda í upptöku á smygluðum eiturlyfjum er ánægjulegur. En skuggahliðin er að það virðist ekki hafa áhrif á framboð eða verð sterkra eiturlyfja á götumarkaði. Það staðfestir mikið magn i umferð og aukna neyslu. Mér er sagt að hreinleiki efna heltaki nýja fíkla eftir nokkur skipti og þá er erfitt að snúa til baka og fíklum fjölgar. Ég óskaði eftir því við þrjá ráðherra til að taka við mig sérstaka umræðu í þinginu um nýjar leiðir í barátunni við eiturlyf.

Í stuttu máli átti að fjalla ráðningasamninga sem vaxandi fjöldi fyrirtækja hafa tekið upp, sérstaklega í áhættusæknum rekstri. Í þeim samningum er kveðið á um að allir starfsmenn sem skrifi undir samning fari í eiturlyfjapróf og sé jafnframt tilbúnir að slík próf hvenær sem er á starfstímanum.

Mælist eiturefni eða vín í blóði starfsmann gildir það sem uppsögn. Fyrirtækin hjálpa fólki í meðferð og ráða aftur þá starfsmenn sem ná tökum á lífi sínu á nýjan leik. Margir hafa öðlast nýtt líf með þessum samningum, slysum á vinnustöðum hefur fækkað og heilbrigði og heilsa starfsmanna mikið lagast sem sést á færri veikinda- og slysadögum frá vinnu. Ég vildi vita hvort við ættum sem samfélag að beita okkur fyrir slíkum samningum t.d hjá ríkinu og jafnvel í skólum landsins. Ég bíð eftir umræðunni, um nýjar leiðir í baráttunni við eiturlyf.

Píratar vilja markaðsvæða eiturlyf

Í þinginu eru þingmenn uppteknari af því að bæta aðgengi að víni og eiturlyfjum en koma í veg fyrir neysluna. Píratar hafa mælt fyrir frumvarpi sem gerir ráð fyrir afglæpavæðingu eiturlyfjaskammta sem einstaklingar bera á sér. Í stuttu máli gerir frumvarpið ráð fyrir því að engar hömlur eða aldurstakmörk verði á því að börn, unglingar eða fullorðnir beri á sér eiturlyfjaskammta til eigin neyslu.

Í dag eru í gildi lög um lágmarksaldur þeirra sem mega versla áfengi og tóbak en þau lög munu ekki eiga við um eiturlyfjaskammta nái frumvarpið fram að ganga óbreytt. Í mínum huga er er þetta frumvarp Pírata fyrsta opinbera markaðsvæðing eiturlyfja á Íslandi, en pírötum er mjög tíðrætt um eiturlyf, neyslu þeirra og frjálsari aðgang að eiturlyfjum. Þetta er stórhættuleg þróun að mínu mati og ég hræðist mjög þá frjálsræðisþróun sem margir í þingmenn aðhyllast er kemur að neyslu eiturlyfja og áfengis. Ég bendi í þessu sambandi á umsögn Landlæknis um frumvarpið sem er sláandi.

Afstaða mín til frjálslyndis í auknu aðgengi og meðferð eiturlyfja, víns og tóbaks er óbreytt og tekur mið af reynslu minni og upplifun í gegnum starf mitt sem alþingismanns. Hún er oft ljót, mjög ljót. Aukin aðgangur að víni og eiturlyfjum mun auka þyngd og lengja biðlista hjá heilbrigðis- og meðferðarstofnunum. Ég hefði kosið að þeir þingmenn sem vilja brennivín og lyf í flestar búðir, afglæpavæðingu eiturlyfja fyrir börn og unglinga kæmu fram með tillögur að fleiri meðferðarúrræðum, fleiri sálfræðitímum og hvernig við fækkum dauðsföllunum ungra neytenda. Það er jú regla í þinginu að öll frumvörp verði kostnaðarmetin.

 

Ég hlakka til ársins 2020 og ég ber þá von í brjósti að árið verði okkur Íslendingum gott. Ég mun sjálfur halda áfram að eiga í góðum tengslum við fólkið í mínu kjördæmi. Standa með sjálfum mér og samvisku minni þegar kemur að því að verja hagsmuni fólksins í landinu. Íhaldssemi er mér í brjóst borin og ég er stoltur af því að Sjálfstæðisflokkurinn minn er síungur á 90 ára afmælinu eins og gildi hans stétt með stétt.

Ég óska landsmönnum gleðilegs árs og friðar.

 

Ásmundur Friðriksson, alþingismaður.

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%