Eftir Helgu Kristínu Kolbeins

Árið gert upp

31.Desember'19 | 13:20
IMG_5875

Helga Kristín Kolbeins

Enn einu árinu er að ljúka og það er eins og aðeins örfáar vikur séu síðan við fjölskyldan fögnuðum þessu ári. Tíminn er afstæður og flýgur áfram í erli dagsins.

Umhverfismál og virðing fyrir náttúrinni eru mál sem voru mikið í umræðunni á árinu sem er að líða og eiga eftir að fá mun meiri umfjöllun á næsta ári. Við eigum ekki að láta það nægja að einhverjir aðrir finni lausnir á þeim verkefnum sem við stöndum frammi fyrir en sitja svo og gagnrýna þær lausnir sem bornar eru fyrir okkur. Við skulum frekar finna lausnirnar sjálf og finna tækifæri í þeim. Tók ég þátt með fjölskyldu minni í verkefni á vegum Viðskiptaráðs og HR sem fól í sér að finna lausnir á hvernig við getum staðið við Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum. Þetta er gífurlega áhugavert verkefni þar sem við fengum frjálsar hendur og leiðsögn sérfræðinga til að útfæra okkar lausnir á vandanum. Sú lausn sem er á borðinu hjá okkur reyndist vera mun stærri en lagt var upp með og því bíða okkur ærin verkefni við að útfæra það og vonandi getur það flutt atvinnu og verðmæti inn í samfélag okkar. Í okkar lausn þá lítum við til hafsins en hafið hefur hingað til fært okkur björg í bú og erum við þess fullviss að hluti að lausn loftlagsvandanum megi leysa með því að nýta okkur hafið.

Samfélagsbreytingar eiga sér stað á ógnarhraða og sá ég það hvað best þegar ég heimsótti Shanghai í haust. Ég lagði stund á nám þar fyrir 11 árum og hef ekki komið þangað aftur fyrr en í haust. Breytingarnar eru ótrúlegar og samfélagið þarna hefur tekið risastökk inn í framtíðina. Það þarf svo sem ekki langan tíma til að byggja upp hús og ný hverfi en ég upplifði miklar breytingar á menningunni. Þeir hafa þó gætt þess að halda í sínar hefðir og sérkenni og eru stoltir af samfélagi sínu. Sérstaklega er athyglisvert hve mengun frá umferð hefur minnkað og svifryk frá götum er minna en á logndegi í Reykjavík þrátt fyrir að þarna búi um 25 milljónir manna.

Ferðalög eru hluti af vinnu okkar hjóna. Fórum við um austurland í framhaldi af fundi þar. Bar þar einna hæst að fara í óbyggðasetrið sem staðsett er efst í Norðurdal. Þarna hefur fjölskylda gert ótrúlega hluti og gerir lífi og baráttu fyrri alda við náttúruöflin góð skil ásamt því að varpa nýju ljósi á sveitamenningu alþýðunnar. Þetta er hugsjón þessa fólks og er fjármagnað með gistiheimili sem er staðsett í tæplega hundrað ára gömlum sveitabæ óbreyttum að innan. Veitingasölu þar sem allt sem er á boðstólum er frá landsvæðinu ásamt skipulögðum skoðunarferðum um svæðið.

Stjórnmálin höfðu sinn gang og er lærdómsríkt að taka þar beinan þátt í staðinn fyrir að standa fyrir utan. Mér finnst almennt að stjórnmálaumræður í dag séu yfirborðskenndar og það fer of mikið fyrir “gaspri” í stað málefnalegrar umræðu. Þó að gerð sé krafa um að mál vinnist hratt má það ekki vera á kostnað þess að málin séu skoðuð út frá ólíkum sjónarmiðum og vandað sé til allrar ákvarðanatöku.

Gagnrýni þar sem ekki er rýnt til gagns er engum til góðs, ólíkar skoðanir og nálganir eiga fullan rétt á sér og yfirleitt næst ásættanleg lending á endanum. Ánægjulegt er einnig að nú er verið að fara í viðbyggingu við Hamarsskólann sem við lögðum mikla áherslu á í aðdraganda kosninga. Þetta á eftir að bæta skólastarf ótrúlega mikið.

Það sem stendur hæst að mér finnst, er að loksins kom ný ferja og ferðatíðnin ásamt þjónustu eftir að heimamenn tóku við rekstri ferjunnar er til mikillar fyrirmyndar. En nú þegar ferjan er komin þá þarf strax að huga að næstu skrefum í átt til bættra samgangna við Eyjuna, hvað á að gera næst? Ég tel að það sé kominn tími til að klára þær rannsóknir sem eftir eru til að fá vitneskju um hvort að jarðgöng séu möguleg, í framhaldi af þeim að taka ákvarðanir um næstu skref. Einnig er það ánægjulegt að búið sé að auglýsa eftir sýslumanni og að ekki standi til að fækka forstöðumönnum ríkisstofnanna á Eyjunni.

Ég er svo lánsöm að vera í forsvari fyrir Framhaldsskólann og vinna þar með afburðafólki. Að vinna í skóla þegar samfélagið sem við búum í þróast á ógnarhraða er krefjandi og jafnframt mjög ánægjulegt. Í starfinu erum við að vinna að menntun ungmenna og byggja upp nám til að nálgast nemendur enn betur.  Miklar og vandaðar rannsóknir hafa verið gerðar á hvernig nám á sér stað og erum við að nýta okkur þær. Það þarf að treysta og það sem meira er, að styðja þá er fara með ferðina í framþróun skólasamfélagsins og styðja þá sem eru að innleiða breytingar. Við erum að breyta kennsluaðferðum og nú er lögð mun meiri áhersla á samvinnu við lausn verkefna. Verkefnin eru skoðuð frá mörgum sjónarhornum til að finna nýjar og betri lausnir en við höfðum í gær. Einnig eru nemendur hvattir til að líta innávið, lifa í núvitund og rækta sjálfa sig til að vera betur undirbúin undir áskoranir lífsins. Þetta hefur gert það að verkum að brottfall nemenda úr skólanum hefur aldrei verið lægra og hlutfall fjarvista hefur aldrei verið lægra.

Skólinn varð fertugur á árinu og get ég ekki sett mig í þau spor að hugsa til þess hvað ef skólinn hefði ekki orðið að veruleika. Ég er með áhyggjur af slökum árangri íslenskra nemenda í Písa og það dugir ekki að fara í enn eitt átaksverkefni til að bæta þar úr. Nám barnanna verður að vera í forgangi alltaf og við verðum í alvörunni að hlú betur að fagmennsku kennara, ekki bara tala um það. Og ekki bara tala um það að börn fái gæðamenntun og tíma til að stunda nám sitt, þetta verður að gerast. Heimilin þurfa sum stuðning og við þurfum að gera þeim fært að fá þann stuðning sem þarf til að þau séu fær um að setja menntun barnanna í forgang. Það þarf að breyta hugsunarhætti og menningu, sem er meira en að segja það, en er alveg gerlegt. Við vitum alveg öll að framtíð okkar og velsæld byggir á menntun einstaklinganna.

Að lokum vil ég senda mínar bestu nýársóskir til Vestmanneyinga nær og fjær.

 

Helga Kristín Kolbeins

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).