Safnahelgin:

Lista- og menningarfélagið í anda Júlíönu Sveinsdóttur

7.Nóvember'19 | 14:59
Listvinir

Ljósmynd/aðsend

Safnahelgi verður sett í dag klukkan kl. 18.00 við Stafkirkjuna en klukkutíma áður verður opnuð sýning Lista og menningarfélagsins, Í anda Júlíönu Sveinsdóttur í Einarsstofu. 

Síðan tekur við hver viðburðurinn af öðrum og má segja að dagskrá haldi áfram út mánuðinn. Lista- og menningarfélagið hefur fengið inni í Hvíta húsinu, Strandvegi 50 fyrir starfsemi sína. Afraksturinn fáum við að sjá í Einarsstofu og verður gaman að sjá nálgun þeirra á verkum Júlíönu sem er þekktasti myndlistarmaður Vestmannaeyja.

Ekki bara málari

„Við erum 14 sem sýnum,“ segir Jónína Björk Hjörleifsdóttir, talsmaður félagsins sem flestir þekkja sem Jóný. „Þau sem sýna eru auk mín eru Arnór og Helga, Sigga Inga, Steina Einars, Sif Sigtryggs, Lilja Þorsteins, Tara Sól, Laufey Konný, Gíslína Dögg, Sigrún Þorsteins, Jóhanna Hermansen, Binna á Hól og Jóna Heiða.  

Við opnum klukkan 17.00 í dag og er sýningin hluti af Safnahelginni. Hún verður opin alla helgina og stendur fram í desember. Sýningin er, eins og áður segir í anda Júlíönu og vinnum við út frá því sem okkur langar að komi fram. Júlíana var ekki bara málari, hún var í vefnaði og mósaíki  og kemur það allt fram á sýningunni.

Við vonumst til að sjá sem flesta. Okkar takmark er að halda nafni Júlíönu á lofti sem einum mesta listamanni sem við Íslendingar höfum átt. Hún ruddi leiðina fyrir konur sem einn af frumkvöðlunum í myndlist sem komu fram á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar,“ sagði Jóný að endingu.

Sjá einnig: Fjölbreytt dagskrá Safnahelgar

Ekki sjálfgefið að stúlkur færu til náms

Um Júlíönu segir á Heimaslóð: Júlíana Sveinsdóttir fæddist að Sveinsstöðum í Vestmannaeyjum 31. júlí árið 1889 og lést í Kaupmannahöfn 17. apríl 1966. Foreldrar hennar voru þau Guðrún Runólfsdóttir og Sveinn Jónsson trésmíðameistari og var Júlíana næstelst af fimm systkinum. Sextán ára gömul flutti Júlíana til Reykjavíkur þar sem hún stundaði nám í tvo vetur.

Í Kvennaskólanum í Reykjavík komu í ljós hæfileikar Júlíönu í teikningu og varð það til þess að hún fékk tilsögn hjá listmálaranum Þórarni B. Þorlákssyni. Hann var menntaður í Danmörku og hélt sína fyrstu málverkasýningu í Reykjavík árið 1900 en það var fyrsta einkasýning listmálara hér á landi.

Fyrir þann tíma hafði fáum Íslendingum dottið í hug að leggja myndlist fyrir sig að ævistarfi en um aldamótin 1900 var andrúmsloftið að breytast og hin vaxandi borgarastétt landsins farin að gera sér grein fyrir mikilvægi myndlistar fyrir menningu og sjálfsímynd þjóðarinnar. Í kjölfar Þórarins lagði Ásgrímur Jónsson út á myndlistarbrautina en áður hafði Einar Jónsson myndhöggvari hlýtt kalli listagyðjunnar. Júlíana tilheyrir hins vegar næstu kynslóð íslenskra myndlistarmanna en auk hennar má þar meðal annarra finna þau Jón Stefánsson, Jóhannes Kjarval og Kristínu Jónsdóttur.

Í upphafi tuttugustu aldar var ekki sjálfgefið að ungar stúlkur héldu til náms í Kaupmannahöfn, en Júlíana bjó yfir ótvíræðum hæfileikum og átti föður sem hafði áhuga og getu til að styrkja hana til náms. Sigldi Júlíana því til Kaupmannahafnar árið 1909 og eftir þriggja ára undirbúningsnám hlaut hún loks inngöngu í hinn virta Konunglega danska listaháskóla. Stundaði Júlíana nám í málaradeild skólans næstu fimm árin og útskrifaðist þaðan árið 1917.

Ári síðar sýndi hún í fyrsta skipti opinberlega í Kaupmannahöfn en upp frá því var hún virkur þátttakandi í sýningarlífi Danmerkur og tók yfirleitt þátt í einni eða tveimur samsýningum listamanna árlega það sem eftir var ævinnar. Þátttakendur á þessum sýningum voru valdir af dómnefnd og því fólst ákveðin viðurkenning í því að fá verk sín samþykkt til sýningar. Auk þess að taka þátt í samsýningum danskra listamanna sýndi Júlíana á Íslandi með Listvinafélaginu og Félagi íslenskra listamanna.

Kom til Eyja árið 1946 eftir langa fjarveru frá æskuslóðunum

Einnig var hún valin á fjölda samsýninga á íslenskri og norrænni list erlendis. Í lifanda lífi tók Júlíana þátt í rúmlega hundrað samsýningum og hélt 11 sérsýningar á Íslandi og í Danmörku. Auk þessa var hún virk í samtökum listamanna og vílaði ábyrgðarstörf ekki fyrir sér. Sat hún meðal annars sem fulltrúi listamanna í stjórn Hins konunglega danska listaháskóla sem hefur m.a. það hlutverk með höndum að vera opinberum aðilum ráðgefandi varðandi myndlist og arkitektúr og veita viðurkenningar á sama vettvangi.

Júlíana var jafnframt einn frægast listvefari Norðurlanda. Hún kenndi sér sjálf að vefa og notaði íslenska ull litaða úr jurtum sem hún safnaði á sumrin á Íslandi.

Júlíana kom til Vestmannaeyja árið 1946 eftir langa fjarveru frá æskuslóðunum. Hún málaði margar myndir af Eyjunum sem voru þó ekki nákvæmar eftirmyndir af klettum, fjöllum og hafi, heldur stór form og fletir. Hún sagði sjálf að hún hefði ekki bara verið að mála klettana og fjöllin heldur baráttuna milli landsins og hafsins.

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).