Ferðamálasamtökin óska eftir samtali

við Vestmannaeyjabæ og stjórn Herjólfs ohf.

27.Október'19 | 15:31
IMG_6355

Vel var mætt á fundinn enda eiga margir mikið undir. Ljósmyndir/TMS

Í dag boðuðu Ferðamálasamtök Vestmannaeyja til fundar með bæjarstjórn Vestmannaeyja og stjórn Herjólfs ohf. Þar kynntu samtökin nýja skýrslu um umfang ferðaþjónustunnar í Eyjum. Óhætt er að segja að margt athyglisvert komi þar fram.

Yfirskrift fundarins var „Ferðaþjónusta. Iðnaður í Vestmanneyjum”.

Nú er tíðin önnur

Í inngangi skýrslunnar segir að Vestmannaeyjar hafi byggst upp vegna sjávarútvegs. Hann hefur borið uppi atvinnu í Vestmannaeyjum og kallaði lengi vel á mikinn mannafla, svo mikinn um tíma að nauðsynlegt var að kalla til 1000 – 1500 starfsmenn af fastalandinu á vertíð, þrátt fyrir að íbúar hafi þá verið um 5.300. Hundrað bátar í höfninni og mannshöndin sá um flest verk.

Nú er tíðin önnur. Sjávarútvegurinn hefur tæknivæðst hratt á undanförnum misserum og þörfin fyrir mannafla minnkað verulega og nú eru bátarnir innan við tuttugu og íbúar um 4.300. Íbúafjöldi fylgir eðlilega atvinnustigi. Það er ekki ósennilegt að störfum í sjávarútvegi fækki enn frekar.

Hvað er til ráða fyrir Vestmannaeyinga?

Í skýrslunni er spurt hvað sé til ráða fyrir Vestmannaeyinga?  Hvar sækjum við fram? Erfitt er að byggja upp orkufrekan iðnað hér og landrými er einnig af skornum skammti við flutningsleiðir. Tækifæri gætu því frekar legið í hugviti eða annarri þjónustu sem kallar ekki á mikla orku eða landrými og vert að sækja þar fram. Vestmannaeyingar eiga reyndar eitt mjög öflugt tækifæri. Ferðaþjónustu!

Ferðamenn sem heimsækja Ísland eru að stórum hluta að sækja í fegurð og sérstöðu íslenskrar náttúru. Vestmannaeyjar eru sannarlega náttúruperla. Það þarf ekki að tíunda það. Ofan á það eiga Vestmannaeyjar áhugaverða og merkilega sögu. Þetta er söluvara fyrir ferðamenn! Og því tækifæri til að byggja upp öflugan iðnað í Vestmannaeyjum.

Þessi staðreynd hefur ekki legið í þoku. Þegar von var á samgöngubótum með tilkomu Landeyjahafnar sáu margir tækifæri í ferðaþjónustu. Lögðu vinnu og fé í fyrirtæki sem áttu að sækja í þennan nýja markað. Því miður var niðurstaðan undir væntingum. Mörg fyrirtækjana hafa hætt störfum. Þó vissulega hafi orðið mikil bót með tilkomu Landeyjahafnar og nú vonandi enn frekar með nýju skipi. En það er ekki nóg að hafa bara höfn og skip ætli menn sér að byggja upp ferðaiðnað. Það þarf meira til!  

 

Fjárfesting og störf í ferðaþjónustu

Þá segir í skýrslunni að til að átta sig á umfangi ferðaþjónustunar í Vestmannaeyjum, hafi stjórn Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja ráðist í greiningu á fjórum þáttum þjónustunar. Gistingu, söfnum, afþreyingu og veitingum. Leitað var svara við fjárfestingu, stöðugilda á sumartíma og stöðugilda á vetrartíma.

Gisting

Alls reka 32 aðilar gistingu í Vestmannaeyjum. Flóran er mikil í þessum geira, allt frá tjaldgistingu að 4 stjörnu hóteli. Töluverður hluti af þessum rekstri er RBB sem er leiga á íbúðum og herbergjum utan hins hefðbundna rekstur hótela og gistiheimila. Þessi hluti reksturs á gistingu í Vestmannaeyjum skýrir að hluta til þenslu á byggingarmarkaði í samfélaginu.

Fjárfesting - 2.270 m – Stöðugildi sumar 71 – Stöðugildi vetur 39.

Söfn

Þrjú athyglisverð söfn eru rekin í Vestmannaeyjum, Sagnheimar, Eldheimar og Sea Life. Öll hafa þau sérstöðu og draga að sér ferðamenn.

 Fjárfesting - 2.340 m – Stöðugildi sumar 16,5 – Stöðugildi vetur 12.

Afþreying

Afþreying er nauðsynlegur þáttur í ferðaþjónustu. Hér eru rekin 9 fyrirtæki sem sinna afþreyingu fyrir ferðamenn. Hægt er að leigja reiðhjól, fjórhjól, hesta. Fara  í skipulagðar gönguferðir, skoðunarferðir á rútum, lúxusbílum, hraðbátum og kæjökum.     

Fjárfesting - 444 m – Stöðugildi sumar 25 – Stöðugildi vetur 2,5.

Veitingarekstur

Mjög fjölbreytt flóra veitingastaða er í Vestmannaeyjum. Veitingarekstur er sá þáttur í þjónustunni við ferðamenn sem kallar á flesta starfsmenn, en hefur átt hvað erfiðast. Mörg fyrirtæki hafa hætt rekstri. Þó eru í þessari samantekt 13 fyrirtæki sem sinna veitingaþjónustu.

Fjárfesting – 1.091 m – Stöðugildi sumar 168 – Stöðugildi vetur 58.

 

Niðurstaða

Greining á þessum fjórum þáttum ferðaþjónustunnar gefur eftirfarandi niðurstöðu.

Fjárfesting – 6.145 m – Stöðugildi sumar 280,5 – Stöðugildi vetur 111,5.

Það er rétt að taka það fram að aðrir þættir, eins og verslun, samgöngurekstur og fleiri þættir þurfa að fjölga stöðugildum á sumartíma. Til dæmis hækkar launakostnaður hafnarinnar um allt að 30% á sumartíma sem hægt er að skrifa að hluta á ferðaþjónustu, rúmlega 13.000 farþegar heimsóttu Vestmannaeyjar á 66 skemmtiferðaskipum síðasta sumar. Þannig að stöðugildi eru mun fleiri og afleidd störf í þjónstu við greinina örugglega mörg, enda kallar þessi fjárfesting eðlilega á viðhald og eftirlit.  

Þriggja mánaða vertíð

Þá segir í skýrslunni að staða fyrirtækja í ferðaþjónustunni sé almennt erfið. Þessi greining segir okkur að fjárfestingin er umtalsverð, en erfitt að standa undir henni. Hvers vegna? Vestmannaeyjar hafa staðið svolítið fyrir utan þann mikla straum ferðamanna sem farið hafa  um landið á undanförnum árum. Í raun hefur vertíð fyrirtækja í ferðaþjónustu ekki staðið nema í þrjá mánuði á ári. Sem er því miður ekki nóg. Veturinn er langur og kaldur. Niðurstaðan er að við eigum mörg efnileg en veikburða fyrirtæki.

Mikilvægasta skrefið fram á við væri að skilgreina ferðaþjónustuna sem iðnað

Skiptir ferðaþjónustan samfélagið máli? Hvernig sækjum við fram? Mikilvægasta skrefið fram á við væri að skilgreina ferðaþjónustuna sem iðnað, átta sig á því að þessi iðnaður skapar talsvert af störfum þegar hann er virkur. Horfa til framtíðar og fjárfesta í þessum iðnaði! Vinna stefnumótun, setja alvöru fjármagn í innviði og markaðssetningu. Markmiðið að auka gæði innviða og skapa ný störf með því lengja tímabil ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum. Hér eru tækifæri! 

Setjum okkur markmið og vinnum saman. Þannig eflum við atvinnulíf og treystum stoðir samfélagsins, segir í niðurlagi skýrslunnar frá Ferðamálasamtökum Vestmannaeyja.

 

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).