Eyjamaður í miðju mótmæla í Katalóníu

24.Október'19 | 16:51
IMG_20191024_171903_446

Frá mótmælunum. Ljósmyndir/Magnús Karl Ásmundsson

Undanfarnar vikur hefur verið mótmælt kröftulega í Katalóníu í Barcelona. Í borginni er við nám Eyjamaðurinn Magnús Karl Ásmundsson. Hann hefur ekki farið varhluta af ástandinu. Ritstjóri Eyjar.net ræddi við Magnús um lífið á Spáni og um mótmælin sem geysað hafa í borginni. 

„Katalónar eru afskaplega afslappaðar verur. Hér er „síesta“ á hverjum degi þar sem mörgum búðum er lokað og fólk fær sér smá kríu, enda næg innistaða fyrir því. Drekka menn bjór í öll mál, það þykir ekkert tiltökumál, enda vel við hæfi að kæla sig niður í miðjarðarhafshitanum.” segir Magnús Karl og bætir við:

Undir hvaða kringumstæðum á samfélag réttmætt tilkall til sjálfstæðis?

„Kveikjan að þessum mótmælum var vissulega sú ákvörðun spænskra yfirvalda að fangelsa katalónska uppreisnarseggi en þann 10. október 2017 undirritaði katalónska þingið yfirlýsingu um sjálfstæði svæðisins frá Spáni. Í grunninn snúast þó mótmælin um afar djúpa og þýðingarmikla spurningu: Undir hvaða kringumstæðum á samfélag réttmætt tilkall til sjálfstæðis? Katalónía er sjálfstjórnarsvæði hér á Spáni. Hér er sérstakt þing, svæðið á sér sinn eigin fána og skjaldarmerki og það sem margir vita eflaust ekki er að hér er spænskan ekki móðurmál borgarbúa, heldur er töluð katalónska sem er vissulega rómanskt tungumál en ekki tunga sem getin er af spænsku. Þessi sérstaða svæðisins gerir það að verkum að katalónar upplifa sig margir hverjir menningarlega aðskilda Spáni.”

Fylgist aðeins með úr fjarska

Að sögn Magnúsar hefur ástandið verið nokkuð stöðugt svona þegar á heildarmyndina er litið. „Mótmælin eru tiltölulega friðsamleg þrátt fyrir að þeim fylgir auðvitað ávallt einhverjar skemmdir, hávaði og þvíumlíkt. Víðsvegar má sjá gula borðann spreyjaðann á götur og húsveggi, en borðinn er einkennismerki sjálfstæðissinna hér í Katalóníu. Mótmælin eru að hluta til skipulögð á einhverskonar samráðshópum, samskiptaforritið Telegram er þar notað og er undirritaður meðlimur í þeim ágæta vinskap en fylgist þó aðeins með úr fjarska en ekki með beinum íhlutunum.

Sjálfstæðissinnar hérna fyrir sunnan eru flestir harðlínu vinstrimenn. Samband Spánar og Katalóníu hefur ekki alltaf verið friðsælt. Þegar harðstjórinn Frankó var við völd var m.a. lagt bann á kennslu katalónska tungumálsins í ríkisskólum svæðisins. Voru ríkisstarfsmenn í Katalóníu hvattir til að tilkynna grun sinn um tengsl starfsmanna og annara við vinstrimennsku og skilti og opinbert útgáfuefni mátti alls ekki vera á katalónsku. Þessari stefnu hefur auðvitað verið snúið algjörlega við, nú má aðeins sjá merkingar á katalónsku, hér er börnum kennd katalónska og það mál mælt fyrst og fremst, þótt svo flestir séu nokkuð sleipir í spænskunni.”

Er í meistaranámi í hagfræði

Aðspurður um líf námsmannsins segir hann að það líf sé að mörgu leiti mikið fríðindalíf. „Við nemendurnir höfðum einmitt orð af því að fyrir rúmri viku hefði maður ekki orðið var við mótmælin ef maður einbeitti sér að bókunum einum. Þó læddist yfir skólasvæðið fnykurinn af brenndu gúmmíi, en ruslatunnur, bílar og aðrir tiltækir munir hafa orðið eldinum að mat í mótmælunum og víðsvegar má sjá götótt malbik á helstu gatnamótum borgarinnar þar sem fólk hefur kveikt í brennum.

Örfáir blettir gera þó ekki mikið til en borgin er afskaplega falleg. Hér er mjög gott að búa, þótt svo heilbrigðiseftirlitið sé ekki með jafn háa staðla og heimafyrir. Verðlagið hér er ekki sambærilegt við það sem venjast má heima á Íslandi, aftur á móti eru laun Spánverjans heldur ekki af sama kaliberi, hér er allt hræ ódýrt! Hér stunda ég nám við hagfræðiháskólann í Barselóna, Barcelona Graduate School of Economics, þar sem ég er að takast á við 10 mánaða meistaranám í hagfræði. Mun ég því búa í borginni að minnsta kosti þar til í júlí á næsta ári.”

Kann að vera aðeins byrjunin að enn frekari mótmælum

Magnús Karl segir að yfir allri borginni hafi sveimað þyrlur. „Oft mátti heyra fólk standa á svölunum sínum berjandi í búsáhöld og lenti ég eitt sinn í því á leiðinni upp Römbluna, sem er ein þekktasta gata borgarinnar, þar sem á svipstundu gjörsamlega fylltist gatan af svartklæddum ungmennum sem drógu með sér ruslatunnur og annan eldmat sem þau og svo kveiktu í. Upplifun mín af þessu var sem flóð sem skyndilega helltist yfir mig. Eina stundina var ég í mínum eigin heimi, hjólandi heim að kvöldi til, að virða fyrir mér glæsilegan arkitektúr borgarinnar og mannlífið sem á örskotsstundu breyttist í þvílíkt flæði af mótmælendum þar sem ég skyndilega kom að sjálfum mér í miðjum hafsjó af fólki og engin undankomuleið auðséð. Blessunarlega komst undirritaður heill heim en þó nokkuð skelkaður.

Að öllum líkindum hefur hápunkti mótmælanna verið náð. Þetta kann þó að vera aðeins byrjunin að enn frekari mótmælum ef spænsk yfirvöld grípa til frekari  aðgerða gegn katalónum. Það eru þó aðeins getgátur á þessum tímapunkti, en frekari takmörk á sjálfstjórn Katalóníu hefur verið til tals.“

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%