Í gegnum ljósopið mitt – Guðmundur Gíslason:

Þarf stundum að hafa fyrir hlutunum í ljósmyndun

- sjöunda sýning í sýningarröðinni, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt í Einarsstofu á laugardaginn kl. 13.00

17.Október'19 | 06:30
Gummi03

Ljósmyndir/Guðmundur Gíslason

Hann lét ekki mikið fara fyrir sér á Hásteinsvelli þegar hann byrjaði að taka myndir af meistaraflokki kvenna ÍBV í leik. En engan skal vanmeta. Okkar maður var vel tækjum búinn og einbeittur í því sem hann var að gera. 

Seinna þegar myndir hans komu fyrir augu almennings á fésbókinni sást að þar var enginn aukvisi á ferð. Flottar myndir teknar af natni en um leið ástríðu fyrir verkefninu. Þarna var Guðmundur Gíslason sem sýnir myndir sínar í sýningaröðinni, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt. Er þetta sjöundi laugardagurinn í röð og hefur aðsókn verið vonum framar.

„Guðmundur byrjaði að mynda á árunum 1983 til 1984 en eins og fleiri var það ekki fyrr en með stafrænu byltingunni að hann tók við sér. „Maður var ekkert að spreða þegar maður tók myndir á filmu. Þetta varð ekkert af viti fyrr en ég fékk fyrstu stafrænu vélina í kringum 2000. Það breytti öllu og ekki bara með kostnað því nú getur maður séð um leið hvort myndin hefur heppnast eða ekki. Þarft ekki að bíða eftir því að filman komi úr framköllun,“ segir Guðmundur sem nú skartar flottri myndavél og öflugum linsum.

„Við Guðný keyptum okkur sína myndvélina hvort okkar og eigum því tvær. Við tökum mikið af myndum á ferðalögum og þá hentar þetta ágætlega því stundum sér hún eitthvað sem ég sé ekki og öfugt. Ég á Canon EOS 7D Mark sem er mjög góð og ég er með þrjár linsur.“

Byrjaði með dótturinni

Guðmundur fór á fullt að mynda þegar, Sóley, yngsta dóttirin var í fótboltanum. „Ég á fullt af myndum af henni en svo þróaðist þetta upp í að ég fór að taka myndir af ÍBV liðinu í leik. Ég setti þær inn á facebókina þar sem stelpurnar gátu valið myndir eins og þær vildu. Er það safn orðið mjög stórt. Núna er ég líka að taka myndir af körlunum, landslagi og fólki auk allra myndanna sem við hjónin tökum á ferðalögum.“

Og Guðmundur verður með fjölbreytt úrval af myndum úr safni sínu. „Þetta er svona allskonar. Til dæmis myndir frá Eyjafjallagosinu 2010 þegar askan kom yfir okkur. Myndir úr leikjum ÍBV, ekki bara úr fótboltanum heldur líka úr handboltanum þar sem ég hef myndað bæði karla- og kvennaleiki. Myndir af fólki, fjölskyldu og svo myndir úr níræðisafmælinu hans tengdapabba. Þar var flottur hópur samankominn. Þá eru nokkrar myndir frá höfninni og af skipum.“

Stelpurnar í fótboltanum fá eðlilega talsvert pláss á sýningunni en Guðmundur segir ekki auðvelt að ná góðri mynd í eins mikilli átakaíþrótt og fótboltinn er. „Mig langaði að ná nokkrum alveg sérstaklega góðum en árangurinn kom ekki sjálfkrafa. Á tveimur mánuðum náði ég tveimur myndum sem ég var fyllilega ánægður með. Það þarf stundum að hafa fyrir hlutunum í ljósmyndun eins og öðru, uppskeran getur verið góð en það kostar þolinmæði,“ sagði Guðmundur.

„Annars má segja að sýningin á laugardaginn sé þverskurður af því sem ég hef verið að mynda í gegnum árin,“ sagði Guðmundur og lofar fjölbreyttri sýningu.

Sýning Guðmundar er sem áður segir á laugardaginn í Einarsstofu. Hefst hún klukkan 13.00.

 

Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt er hluti af afmælisdagskrá Vestmannaeyjabæjar, sem er 100 ára í ár.

Hér má skoða alla umfjöllun Eyjar.net um afmælisárið.

 

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%