Langa:

Stefnir í framleiðslumet annað árið í röð

16.Október'19 | 06:59
langa

Langa.

Miklar sveiflur hafa alltaf einkennt útflutning á þurrkuðum fiskafurðum frá Íslandi til Nígeríu í gegnum tíðina en þó sérstaklega undanfarin ár. Við lá að útflutningur og framleiðsla legðist alfarið niður 2015-2016 í kjölfar efnahagskreppu í Nígeríu. 

Íslenskir fiskþurrkendur lögðu margir upp laupana en aðrir streittust við, eins og Langa í Vestmannaeyjum. Allt önnur mynd blasir nú við. Í hádegiserindi Þekkingarseturs Vestmannaeyja nýlega sagði Hallgrímur Steinsson framkvæmdastjóri að það stefni í metár í framleiðslu hjá Löngu á þessu ári. Verð hafi hækkað umtalsvert og eftirspurn er jöfn og góð.

Langa er í eigu Vinnslustöðvarinnar, Godthaab og Hugins og getur fyrirtækið því jafnan gengið að hráefninu vísu á vissum árstímum þótt fyrirtækið kaupi einnig hráefni uppi á landi til að halda uppi stöðugleika í vinnslunni. Í verksmiðjunni eru sjö klefar fyrir þurrkgrindur að mestu fyrir hausa og færibandaklefa sem tekur að mestu afskurð og bein. 25-30 manns vinna hjá fyrirtækinu. Færibandaklefinn er keyrður frá morgni til kvölds stærsta hluta ársins. Í honum vinna tveir menn og þurrka um 400 tonn á mánuði en um 10-12 manns eru í áröðun á grindur og annarri fiskvinnslu og þurrka 600-700 tonn á mánuði, segir í frétt Fiskifrétta.

Margt mælir með fiskþurrkun í Vestmannaeyjum

Í fréttinni er haft eftir Hallgrími að margt mæli með fiskþurrkun í Vestmannaeyjum, ekki síst mikið framboð hráefnis, en á móti kemur að Vestmannaeyjar eru kalt svæði og líklega hvergi kostnaðarsamara með tilliti til orkunotkunar að þurrka fisk þar. Samanburðurinn í þessum efnum er erfiður við samkeppnisaðila eins og Haustak og Háteig sem eru staðsett á Reykjanesi í miðju orkuvinnslusvæði HS Orku.

Hallgrímur segir mikla fylgni á verði á þurrkuðum fiskafurðum til Nígeríu og olíuverðs. Undirstöðugreinin í Nígeríu er olíuvinnsla og þegar heimsmarkaðsverðið er hátt er verð á þurrkuðum fiskafurðum hátt.

2014-2016 reið yfir kreppa í Nígeríu þegar olíuverð, sem hafði farið hæst í 160 dollara tunnan, hrapaði niður í 30 dollara tunnan þegar verðið var lægst. Kaupmáttur dróst gríðarlega saman þegar gengi nærunnar féll og tekin voru upp gjaldeyrishöft. Birgðir söfnuðust upp í landinu og innlendir framleiðendur neyddust til að semja um lækkanir. Upp frá þessu hættu margir framleiðendur eins og Laugafiskur á Akranesi, Flúðafiskur, Toppfiskur á Bakkafirði, Miðhraun og Haustak á Egilsstöðum. Langa dró verulega saman seglin en hélt þó framleiðslu áfram. Á tímabili hafi Langa verið farin að borga með vörunni.

Með allra stærstu fyrirtækjunum á þessu sviði undanfarin ár

Hallgrímur hóf störf hjá Löngu 2016 eða um það leyti sem aðeins fór að birta til á Nígeríumarkaði.

„Verð voru aðeins farin að hækka en við ákváðum að hámarka afköst verksmiðjunnar og sækja inn á hefðbundna vöruflokka þar sem alltaf hefur verið eftirspurn. Upp frá því höfum við haldið þessari stefnu og náð því að vera með allra stærstu fyrirtækjunum á þessu sviði undanfarin tvö til þrjú ár, hvort sem litið er til magns eða verðmætis framleiðslunnar. Við settum framleiðslumet í fyrra og það stefnir í nýtt framleiðslumet á þessu ári,“ segir Hallgrímur.

Langa framleiðir 40-50 vöruflokka af þurrkuðum fiskafurðum inn á Nígeríumarkað. Fyrir afurðirnar fæst gott verð, að sögn Hallgríms. 700 pokar, um 100 tonn upp úr sjó, komast fyrir í einum 40 feta gám og 80% af innihaldinu er prótein. Hallgrímur segir að Nígeríumarkaður fari sístækkandi og hafi margfaldast eftir að inniþurrkun hófst 1993. Í heildina eru fluttir út 120-130 gámar á mánuði til Nígeríu, þar af flytur Langa út 11-12 gáma mánaðarlega.

„Við erum mjög ánægðir með þessi viðskipti. Verðið sem Nígeríumenn greiða fyrir afurðirnar eru mjög samkeppnishæf miðað við verð sem fengjust eftir öðrum leiðum fyrir þessar aukaafurðir fiskvinnslunnar.“

 

Fiskifréttir.is greindu frá.

Tags

Langa

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%