Mikilvægt að úttektin verði ítarleg

26.September'19 | 10:53
IMG_5690

Nýr Herjólfur siglir hér inn Landeyjahöfn. Ljósmynd/TMS

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Suðurkjördæmis ræddi samgöngumálin á milli lands og eyja á þingfundi í gær. Hann ræddi þar tillögu til þingsályktunar um óháða úttekt á Landeyjahöfn.

Karl Gauti sagði að hann væri einn meðflutningsmanna á þessari tillögu ásamt öllum þingmönnum Suðurkjördæmis og styður hann hana að sjálfsögðu heilshugar. Tillagan gengur út á að samgöngu og sveitarstjórnarráðherra verði falið að hefja þegar óháða úttekt á Landeyjahöfn, allt í samræmi við samgönguáætlun og er ráðherra gert að ljúka þessari úttekt fyrir lok marsmánaðar næst komandi. Málið gengur sem sagt út á að þessari úttekt sem áætluð er í samgönguáætlun verði flýtt, enda ekki vanþörf á miðað við það ástand sem hefur verið við og innan hafnarinnar á undanförnum árum eða allt frá því hún var tekin í notkun fyrir rúmum 9 árum síðan.

Hvað er ég þarna að tala um?

Hvað er ég þarna að tala um? Jú, höfnin hefur lokast snemma flest haust og oft hefur opnun hennar dregist langt fram eftir hverju vori og eftir því sem ég man best hefur höfnin verið ónothæf fram yfir fermingar vor eftir vor. Vetraropnun hafnarinnar hefur verið næsta fátíður viðburður. Ef veðrinu hefur ekki verið um að kenna hefur oftast verið um sandburð að ræða sem fyllt hefur minni hafnarinnar og næsta nágrenni en einnig hefur sandburður verið til mikils ama innan hennar.

Tilkoma Landeyjahafnar á sínum tíma árið 2010 breytti miklu fyrir byggðina í Vestmannaeyjum, þegar fólk gat ferðast milli lands og Eyja á 30 mínútum í stað nær þriggja klukkustunda siglingar.

Og ekki síður vegna þess að fjöldi ferða jókst að sama skapi og fólk var ekki eins bundið við brottfarir ferjunnar og áður var.

Það var því létt brúnin á Vestmannaeyingum, sumarið 2010, þegar ferðir í Landeyjahöfn hófust og mikil bjartsýni ríkjandi meðal íbúa, fyrirtækja og þeirra sem voru títt á flækingi upp á land, - eins og það var í gríni kallað í Eyjum, en auðvitað líka fyrir þá sem Eyjarnar vildu sækja heim, sem voru þó nokkrir, enda kom í ljós að ferðamannastraumur stórjókst og margfaldaðist á meðan höfnin var og er í fullri notkun. Þeir aðilar sem stunda þjónustu við ferðamenn, hótel og veitingastaðir og aðrir aðilar sáu rekstrargrundvöll fyrirtækja sinna styrkjast mjög við tilkomu hafnarinnar.

Að unnt væri að sigla í höfnina, allt að 97% áætlaðra ferða á ársgrundvelli

Í þessu sambandi má ekki gleyma því að þegar höfnin var hönnuð og byggð þá var gert ráð fyrir því að unnt væri að sigla í höfnina, allt að 97% áætlaðra ferða á ársgrundvelli, ef ég man töluna rétt, en raunin varð allt önnur.

Ekki þarf ég hér að fjalla mikið um þau vonbrigði sem tíðar og á stundum vetrarlangar lokanir hafnarinnar hafa valdið íbúunum, sem margir hverjir byggja lífsafkomu sína á að samgöngur til og frá Eyjunum séu í lagi. Það gefur slíka augaleið.

Að mínu mati tel ég að gerð Landeyjahafnar sé hreint ekki lokið og höfnina eigi að klára og þessi úttekt sem hér yrði ráðist í, þarf að ganga út á það finna út og rannsaka, með ábyrgum hætti, hvaða lagfæringar þarf að gera til þess að höfnin geti nýst eins og hún var byggð til í upphafi.

Þannig er mikilvægt að þessi úttekt verði ítarleg. Og eins það er orðað í tillögunni, óháð í þeim skilningi að þar verði á vandaðan og hlutlausan hátt gengið til þess verks að teikna upp þær aðgerðir sem nauðsynlegt sé að fara í til lagfæringa á Landeyjahöfn.

Stórbrotið að sigla með Herjólfi inn fyrir Ystaklett

Fátt er fegurra en að sigla í nágrenni við Vestmannaeyjar og virða eyjarnar fyrir sér af sjó. Það er stórbrotið að sigla með Herjólfi inn fyrir Ystaklett og sú sýn lætur fáa þá ósnortna sem það gera í fyrsta sinn. Það er því vert að ljúka þessari ræðu á upphafslínum í hinu þekkra þjóðhátíðarlagi þeirra Oddgeirs Kristjánssonar og Ása í bæ; Heima

Hún rís úr sumarsænum

í silkimjúkum blænum

með fjöll í feldi grænum,

mín fagra Heimaey.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla.