Eftir Alfreð Alfreðsson

Tímamót

20.September'19 | 08:47
flugvollur

Vestmannaeyjar.

Í dag fögnum við tímamótum í samgöngum milli lands og eyja. Þennan dag fyrir 100 árum síðan var fyrst flogið milli lands og eyja. Frá þeim tíma til ársins 2010 voru stigin hvert framfaraskrefið af öðru í samgöngumálum eyjanna, bæði í lofti og á sjó.

Á tillidögum er talað af fagurgala um ferðaþjónustuna og þann þátt sem hún hefur átt í að rétta þjóðfélagið úr kútnum eftir efnahagsáfallið 2008. Staðreyndin er sú, að yfirvöld í Eyjum, fyrrverandi og núverandi hafa ekki sýnt neinn skilning á þeirri alvarlegu stöðu sem blasir við flestum ferðaþjónustufyrirtækjum í Eyjum. Helsti söludólgurinn eru lélegar samgöngur. Um þverbak keyrði fyrir skömmu þegar bæjarstjórn mælti með skosku leiðinni svokölluðu í flugi milli lands og eyja.

Ég mótmæli harðlega þeirri ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja að hvetja til upptöku hinnar svokölluðu skosku leiðar í flugi milli lands og eyja. Skoska leiðin gildir einvörðungu fyrir íbúa Vestmannaeyja en ekki aðra.

Frá árinu 2010 þegar Landeyjahöfn opnaði hefur ríkt ófremdarástand í samgöngumálum bæði í lofti og á sjó. Nú er hinn bitri sannleikur um ferjuna góðu sem öllu átti að breyta að koma í ljós. Ekki þarf að tíunda hina sorglegu sögu Landeyjahafnar, en minna hefur farið fyrir þeirri staðreynd að á sama tíma og Landeyjahöfn opnaði, var ríkisstyrkur sem Flugfélag Íslands fékk tekinn af með skelfilegum afleiðingum.

Fyrir ekki svo mörgum árum síðan var boðið upp á yfir 250 flugsæti til Vestmannaeyja á dag. Flestir voru farþegar 89.000 sem stigu út úr flugvélum í Eyjum. Síðustu árin fyrir 2010 komu hingað að meðaltali um 75.000 manns með flugi. Á síðasta ári voru þeir 19.200. Í dag er framboðið kringum 30 sæti að meðaltali á dag.

Ferðamenn, þessi nýjasta útflutningsvara okkar Íslendinga streyma til landsins en veigra sér við að koma til Eyja með flugi vegna þess okurverðs sem boðið er uppá og þeirrar ringulreiðar sem Landeyjahöfn hefur skapað lengstan hluta ársins.

Fjöldi einstaklinga hafa fjárfest í og stofnað fyrirtæki í Eyjum til að sinna ferðamönnum, allt byggt á fögrum loforðum ráðamanna þjóðarinnar. Algjört tómlæti hefur hins vegar einkennt athafnir þeirra og orð vegna þessarar válegu stöðu, einstaklingum og fyrirtækjum í Eyjum til mikils skaða.

Það er skýlaus krafa að flug milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur verði boðið út áður en þetta ár er liðið, að sett verði krafa um lágmarksstærð flugvéla, fjölda flugferða milli lands og eyja og að þak verði sett á flugverð, ferðaþjónustunni og eyjamönnum öllum til heilla. Ennfremur er það krafa okkar að ríkisvaldið felli niður alla skatta á flug milli lands og eyja í ljósi vanefnda þess við uppbyggingu samgangna við Vestmannaeyja. Þetta gæti verið hluti af sanngirnisbótum til samfélagsins.

Sérstaða okkar er mikil. Við búum á eyju og erum því háð samgöngum sem stjórnað er af öðrum. Aðrir íbúar þessa lands hvar sem þeir búa geta sest upp í sína bíla og ekið þangað sem þeir vilja.

Lokaorð

Í dag, 20 september eru 100 ár síðan fyrst var flogið frá landi til Vestmannaeyja. Flugmaður í þeirri ferð var kapteinn Faber. Hann kastaði dreifimiðum úr flugvélinni yfir bænum. Ég leyfi mér að gera síðustu orð dreifimiðans að mínum:

Með því að heimsækja yður nú, viljum vér sýna að vér höfum sérstaka trú á framtíð flugsambands við Vestmannaeyjar og vér reiðum oss á það, að þér bregðist við drengilega og styðjið oss eftir fremsta megni til að koma á slíku sambandi sem allra fyrst.

               Flugfélag Íslands

 

Vestmannaeyingar. Til hamingju með daginn!

 

Alfreð Alfreðsson

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).