Vonar að mengunarmál í höfninni verði færð til betri vegar

10.September'19 | 06:55
IMG_5348

Búið var að hreinsa þessa pysju eftir að hún náðist úr höfninni. Mynd/TMS

Í gær var metið slegið í fjölda skráðra lundapysja í Pysjueftirlitinu. Þá var fjöldinn kominn í 5643 og enn er mikill fjöldi pysja að koma í bæinn. 

Eyjar.net ræddi við Erp Snæ Hansen, forstöðumann Náttúrustofu Suðurlands um lundaveiðina, styrkingu stofnsins sem og mengunarmálin í höfninni.

Aðspurður um hvað veiddist mikið af lunda á lundaveiðitímabilinu nú í sumar segir Erpur Snær að ekki hafi borist tölur frá félögum, en innan flestra þeirra hefur ekkert veið veitt. Erpur segist hafa heyrt af smávægilegri veiði, nokkra tugi fugla per mann, sérstaklega á heimalandinu. „Þetta eru líklega nokkur hundruð fugla samanlagt. Mér hafa borist 70 myndir af goggum til aldursgreiningar og fleiri á leiðinni. 64% af veiði er ungfuglar samanborið við 80% fyrrum, þannig að hlutfall varpfugla er hærra eða 36% í stað 20%.”

Býst við um 10.000 pysjum

Nú er pysjutímabilið í hámarki. Hvað heldur Erpur að þetta endi í mörgum pysjum þetta árið? „Það voru/eru helmingi fleiri pysjur í holunum í ár miðað við í fyrra, en þá drapst helmingurinn fyrstu vikuna eftir klak úr hungri. Það voru um 5600 bæjarpysjur þá, þannig að ég reikna með helmingi fleiri núna, eða í kringum 10.000 eins og ég greindi frá í júlí í sumar.”

Þetta ár er fremur óvenjulegt

Aðspurður um hvort hann telji að við eigum eftir að sjá enn meiri styrkingu stofnsins á komandi árum segir Erpur Snær að svona framleiðslupúlsar skipti gríðarlegu máli til að teygja þorran yfir svona löng fæðuleysistímabil og hægja mikið á rénun varpstofnsins.

„Þetta ár er fremur óvenjulegt miðað við síðustu tvo áratugi, það munar um mánuði á varptíma lundans í fyrra og í ár sem er gríðarlegur munur. Tíminn mun leiða þetta í ljós, en vísbendingar eru um að þetta ár sé líklega fremur sérstakt, og ekkert sérstakt sem bendir til að það verði endilega áframhald á næstu árum, þótt auðvitað voni maður það. Það hefur kólnað í sjónum að sumarlangi undanfarinn ár, en hlýnaði í ár. Það sem gerir þetta ár helst óvenjulegt er mikið sólskin sem hófst snemma og varði lengi í flestum landshlutum. Þörungablómi var gríðarlegur sem er svo grundvöllur sjávarvistkerfanna. Rauðátan étur blómann og sílið svo rauðátuna. Ég eygi enn von um að sílið komi aftur á Selvogsbanka eins og merki sjást um í Faxaflóa síðustu þrjú ár.”

Mjög heppin að fá að njóta þess að hafa náttúruna svona nálægt okkur

Spurður um virði þess að halda úti eftirliti á pysjufjölda frá ári til árs segir hann aðþað sé mikils virði. „Við fáum miklar upplýsingar með þessum mælingum og merkingum, og ekki er menningar-, uppeldislegt- og skemmtanagildi síðra. Við erum mjög heppin að fá að njóta þess að hafa náttúruna svona nálægt okkur.”

Væri gaman að sjá útgerðirnar sýna sína ábyrgð með þátttöku í úrbótum

Að endingu berst talið að menguninni í höfninni. Erpur segist vonast til að það verði farið yfir mengunarmál í höfninni og þau færð til betri vegar. „Ég hef t.d. heyrt af góðum búnaði sem er notaður höfnum í Færeyjum sem skimar yfirborðsmengun stöðugt. Sjálfsagt eru fleiri möguleikar í boði. Það væri gaman að sjá útgerðirnar sýna sína ábyrgð með þátttöku í slíkum úrbótum.”

Myndin hér að neðan er tekin í Vestmannaeyjahöfn í gær, en mikill fjöldi lundapysja er þar nú. Kunnugir skjóta á að um 200-300 pysjur séu í höfninni.

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.