Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri:

Getum ekki búið við það ástand sem var í dýpkunarmálum síðasta vetur

28.Ágúst'19 | 12:20
IMG_0337

Dýpkunarskipið Dísa við dýpkun í Landeyjahöfn. Ljósmynd/TMS

Í febrúar sl. bókaði bæjarráð Vestmannaeyja um dýpkunarmál í Landeyjahöfn. Í bókuninni sagði að bæjarráð ítreki að fundin verði lausn á þessu í samráði við tiltæka aðila um að dýpkanir verði hafnar eins skjótt og auðið er. 

Jafnframt lagði bæjarráð áherslu á að Vegagerðin hefji undirbúning að dýpkun fyrir næsta vetur, á tímabilinu 15. nóvember til 1. mars, sem núverandi samningur um dýpkun nær ekki yfir. Verði það gert tímanlega þannig að óvissu um dýpkun næsta vetur verði eytt og þessi staða endurtaki sig ekki að ári liðnu.

Sjá einnig: Erfitt verði fyrir Vegagerðina að efna þau fyrirheit sem gefin voru

Á von á viðbrögðum og svörum innan skamms

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri segir að hún hafi átt fund í síðustu viku með Sigurði Inga Jóhannssyni, samgönguráðherra, Bergþóru Þorkelsdóttur, vegamálastjóra og Páli Magnússyni, 1. þingmanni Suðurkjördæmis, vegna dýpkunar hafnarinnar.

„Þar óskaði ég eftir því að Vegagerðin myndi leggja fram áætlun um dýpkun í haust og vetur til að viðhalda dýpi hafnarinnar fyrir nýjan Herjólf. Ég undirstrikaði það með skýrum hætti á fundinum að við Eyjamenn getum ekki búið við það ástand sem var í dýpkunarmálum síðasta vetur. Bæði ráðherra og vegamálstjóri sýndu þessu góðan skilning og þetta samtal er enn í gangi. Ég á von á viðbrögðum og svörum innan skamms, enda líður tíminn hratt. Það er mikilvægt að gera áætlun og vera viðbúin þeim aðstæðum sem kunna að koma upp. Bæjarstjórn hefur margbókað og rætt þessi mál og er samstíga í þessu helsta hagsmunamáli okkar“. 

Búið að gefa út viðmiðanir um við hvaða aðstæður skipið siglir - á ekki von á öðru en að þær standi

Nú er þegar farið að bera á frátöfum á siglingum til Landeyjahafnar, þrátt fyrir að nýtt skip sé komið í rekstur. Eru það vonbrigði?

Auðvitað varð mér um eins og öðrum þegar þetta mál kom upp, en það komu á þessu eðlilegar skýringar. Það er búið að gefa út viðmiðanir um við hvaða aðstæður skipið siglir og ég á ekki von á öðru en að þær standi. Það getur auðvitað alltaf eitthvað komið upp á, ekki síst á meðan verið er að reyna nýtt skip og búnað við hinar ýmsu aðstæður, og skipstjórarnir eiga alltaf síðasta orðið með tilliti til öryggis farþega og skips. Það er mikilvægt að það sé gott og stöðugt upplýsingaflæði til bæjarbúa, sérstaklega þegar eitthvað kemur upp á, og mér finnst forsvarsmenn Herjólfs ohf hafa brugðist fljótt og vel við þeim aðstæðum sem upp hafa komið. Það sannaðist líka í þessari og síðustu viku hversu mikilvægt það er að Herjólfur lll sé ekki bara til taks heldur líka að hafa fengið því framgengt að hann sé staðsettur í Eyjum og á forræði Herjólfs ohf, segir Íris Róbertsdóttir.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.