Fékk sex ára dóm fyrir hrottafengna árás

26.Ágúst'19 | 16:54
vestm_kona_logr

Mynd/samsett

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt Hafstein Oddsson í sex ára fangelsi fyrir grófa líkamsárás á konu í Vestmannaeyjum. Árásin vakti mikla athygli á sínum tíma, í september 2016. 

Hafsteinn réðist á konuna af slíkum ofsa að hún var óþekkjanleg á eftir. Hann reif fötin utan af konunni og skildi hana eftir nakta á götunni þar sem hann hafði barið hana. Frá þessu er greint á vef Ríkisútvarpsins.

Hafsteinn réðst á konuna aðfaranótt laugardagsins 16. september 2016. Hann barði konuna ítrekað svo andlit hennar varð afmyndað af bólgum og augun sokkin. Konan var með fjölda áverka á skrokki og andliti eftir árás Hafsteins. Auk þess að berja konuna afklæddi Hafsteinn hana og skildi hana eftir nakta úti á götu.

Vitni sem sá Hafstein ganga í burtu, fór út til aðstoðar konunni og kallaði á aðstoð sjúkraliðs. Vitnið sagðist ekki hafa þekkt konuna, svo svakalegir hefðu áverkar hennar verið. Það var ekki fyrr en konan sagði til nafns sem vitnið áttaði sig á því hver hún væri. Læknir sem sinnti konunni sagði fyrir dómi að hún hefði vart lifað nóttina af ef enginn hefði komið henni til bjargar.

Réttarmeinafræðingur sem rannsakaði sár konunnar sagði að hún hefði mátt þola mörg hnefahögg sem veitt voru af mikilli ákefð. 

Hafsteinn neitaði sök en sekt hans var talin sönnuð. Hafsteinn neitaði í fyrstu að hafa átt í neinum útistöðum við konuna um kvöldið. Þegar bent var á að vitni væru að því að hann hefði beitt konuna ofbeldi við Lundann, skemmtistað í Eyjum, rétt fyrir hina alvarlegu árás játaði Hafsteinn að hafa tekið konuna niður eins og hann orðaði það vegna þess að hún væri að valda skemmdum. Þegar hann var spurður út í árásina hrottafengnu spurði hann á móti hvort einhver vitni væru að henni, að sögn lögreglumanns. Þegar honum var sagt að svo væri ekki neitaði Hafsteinn því að hafa ráðist á konuna. Dómarinn taldi svör Hafsteins hjá lögreglu ótrúverðug. Hvorki hann né konan gáfu skýrslu fyrir dómi.

Dómurinn var kveðinn upp í síðasta mánuði, hátt í þremur árum eftir árásina, en ekki birtur fyrr en í dag. Rannsókn málsins tók langan tíma og erfiðlega gekk að ná tali af vitnum.

Auk sex ára fangelsisvistar var Hafsteinn dæmdur til að greiða konunni þrjár og hálfa milljón króna í bætur. Að auki verður hann að greiða allan sakarkostnað, upp á 8,2 milljónir króna.

 

Dóminn má lesa hér.

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla.