Glefsur úr bók Bjarna Jónassonar

18.Ágúst'19 | 09:02

Líkt og greint var frá hér á Eyjar.net í liðinni viku er komin út bókin "Að duga eða drepast". Þar er lífshlaupi Bjarna Jónassonar, flugmanns og útvarpsstjóra í Vestmannaeyjum gerð góð skil. Eyjar.net birtir nú valda kafla úr bókinni. 

Synt í land við Ingólfshöfða

   Þegar við lágum í vari uppundir Skálum á Langanesi þá reyndi einhver strandstöð að ná sambandi við okkur á Freyju vegna áríðandi símtals. Það var óskað eftir því að ég kæmi í símann (talstöðina). Það var konan mín, Jórunn, sem var í símanum, stödd með drengina hjá ættingjum sínum á Hofi í Öræfum og sagði að yngsti sonur okkar væri dáinn. Hann hefði veikst skyndilega og látist. Drengurinn hét Bergur og var rúmlega ársgamall og farinn að ganga. Jórunn var mjög yfirveguð þegar hún talaði við mig. Og hvað getur maður sagt þegar maður fær slíkar fréttir? Ég taldi að það væri erfitt fyrir mig að losna undan skyldum mínum sem I. vélstjóri á bátnum. Auðvitað var þetta fyrirsláttur. Mannskapurinn vildi allt fyrir mig gera. Ég var bara rola sem var að koma mér hjá því að vera viðstaddur greftrun sonar míns.

   Ég hef ekki enn talað mikið um skipverjana á bátnum sem voru: Sigurður Sigurjónsson skipstjóri, Adólf Magnússon (Dolli í Sjónarhóli) stýrimaður, Bjarni Jónasson vélstjóri, Jens Joensen kokkur, Einar Sigurfinnsson (Einar klínk) en ég man ekki fleiri nöfn.

   Ég var búinn að orða það nokkrum sinnum við Sigga að ég fengi að stíga af bátnum við Ingólfshöfða á heimleiðinni en Siggi svaraði ævinlega, „Það er ég sem er með Freyjuna. Ég segi alltaf nei.“ Þá sagði Dolli „Þú ert gamall og hræddur.“ En þegar ég lét Sigga vita að við værum við Höfðann á heimleiðinni þá sagði hann „Nú farðu þá.“ Mér dauðbrá.

   Siggi ákvað að fara eins nærri fjörunni og hann taldi ráðlegt. En þar var mjög aðgrunnt langt út. Síðan ætlaði Dolli með þrjá til fjóra kalla á nótarbátnum eins nærri landi og hann þyrði. En Siggi var ekki langt á eftir nótarbátnum, þá var hann ekkert hræddur.

   Það var til ein rúlla af sjö millimetra sísallínu, hún var bundin í mig. Ennfremur dró ég á eftir mér sjópoka með fötunum mínum. Sísallínan fór öll út í flækju, án þess að ég vissi, og nú voru góð ráð dýr. Brugðið var til þess ráðs að binda 10-15 sentimetra fangalínu við flækjuna en nótarbáturinn var fastur við Freyjuna. Nú loksins fannst Sigga að hann væri kominn of nærri og kippti aðeins frá. Þá dró hann með sér nótarbátinn, fangalínuna, flækjuna og mig sjálfan aftur á bak frá landi. Ég var nú enginn Superman en hvað sem öðru líður þá komst ég í land á endanum. Loksins þegar ég reyndi að botna þá var dýpið ekki nema í mitt læri. Ég var bara í hermannagalla einum fata á sundinu. Þar sem þeir í nótarbátnum höfðu sleppt fangalínunni þá var ekki annað að gera fyrir mig en að bjarga henni á land.

   Ég hafði farið í sel með körlunum í sveitinni og vissi um viðurkennda leið sem merkt var með stikum. Það var eins gott að halda sig við slóðina svo maður lenti ekki í sandbleytu. Fyrir vestan Höfðann var foksandalda, ákaflega laus í sér, sem ég þurfti að komast yfir til að finna stikurnar.

„Manni, af hverju ertu með kjúklingapoka hérna?“

    Þegar ég byrjaði á P.H. Viking voru ekki sérstakir ælupokar eða bakkar til taks. Bráðabirgðalausn var að taka það sem hendi var næst eins og til dæmis glæra plastpoka. Þetta kunni ég ekki að meta. Að vera með volga æluna í glærum poka var ekki minn tebolli. Ég fór á stúfana og hjá heildverslun Karls Kristmannssonar gat ég fengið kjúklingapoka sem voru upplagðir.

               Seint í apríl og framan af maí komu skólakrakkar í siglingu. Þar voru oft ofurhressir strákar sem líkaði lífið því betur því meira sem báturinn valt. Orðhvatur strákur vatt sér að mér og sagði „Manni, af hverju ertu með kjúklingapoka hérna?“ Ég svaraði: ,,Þeir sem æla eru kjúklingar.“ Aftur er spurt: „Manni, af hverju er álpappír í pokunum?“ ,,Til að halda kjúklingunum heitum.“ Og enn var spurt: „Manni, af hverju þarf að halda ælunni heitri?“

 

Sjá einnig: Að duga eða drepast

 

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.