Hátíðarræða Þjóðhátíðar: Þórlindur Kjartansson

11.Ágúst'19 | 10:09
IMG_1168.jpg112

Mikill fjöldi fólks var samankomin á setningu Þjóðhátíðar. Ljósmyndir/Addi í London

Síðastliðna helgi var Þjóðhátíð haldin í Herjólfsdal. Hátíðin fagnaði þá 145 ára afmæli og að venju var mikið um dýrðir. Mikill fjöldi fólks var samankomin á setningunni en þar hélt Þórlindur Kjartansson hátíðarræðu Þjóðhátíðar.

Hér að neðan má lesa ræðu Þórlinds:

Kæru þjóðhátíðargestir.

Dömur mínar og herrar. Eyjapeyjar og Eyjapæjur. Yndislega fólk í Dalnum.

Í nótt dreymdi mig draum. Og það var ekki góður draumur.

Mig dreymdi að ég kæmi hér í dag. Og þá kæmi í ljós að það hefðu orðið mistök. Mig dreymdi að það hefðu orðið mistök við prentun á dagskrá þjóðhátíðar. Og í staðinn fyrir að það stæði: Hátíðarræða: Þórlindur Kjartansson, þá stóð: Bjargsig: Þórlindur Kjartansson.

Og mig dreymdi að ég benti Dóru Björk á þessi mistök í dagskránni. En hún hafi bara sagt: „Ef það stendur í dagskránni. Þá verðurðu að gera það“ En ég veit ekki hvort er í raun meira stressandi að standa hér og tala eða láta mig gossa niður af Fiskhellanefi. En það stendur í dagskránni. Og þá verður að gera það.

Kæru vinir.

Ég veit að hér er mikil tilhlökkun í loftinu. Ég veit það vel af því að ég þekki hana svo vel sjálfur. Hér á þessari Eyju fæddist ég, og ólst upp og ég ólst upp við það að hlakka til þjóðhátíðarinnar og alls þess sem hún hefur upp á að bjóða.

Ég hlakkaði mikið til þess sem barn að sjá Sigga Reim koma akandi eins og ofurhetja á vagninum sínum kringum tjörnina að kveikja í brennunni. Ég hlakkaði sitja í taldinu hjá Helgu frænku, Stjána frænda og Guðnýju í Veltusundi og vera með glöðu fólki og borða góðar pönnukökur, sandkökur og marmarakökur.

Og ég hlakkaði til að sjá himnana yfir dalnum lýsast upp af litskrúðugum bjarma flugeldanna og drunurnar enduróma í fjöllunum þegar þeir sprungu á laugardagskvöldinu.
Og ég hlakkaði til að hjúfra mig í teppi með fjölskyldunni, Guðrúnu Birnu systur, mömmu og pabba – og vinum okkar öllum í Brekkunni og syngja með Vestmannaeyjakórnum, undir stjórn Árna Johnsen. Og „Létt lög í Dalnum. Ég elska Létt Lög í Dalnum.

Ég hlakkaði meira að segja til þess að sjá prestinn standa hér við þennan stein á föstudeginum. En það var vegna þess að presturinn var pabbi minn og mér fannst það dáldið töff að hann hafi verið með skemmtiatriði á sömu hátíð og vinsælustu Laddi og Stuðmenn.

En ég skal játa að í allri þessari miklu tilhlökkun bernskunnar komst nákvæmlega þessi stund sem nú er -einhver kall að halda ræðu- sú stund komst ekki á blað. Ef eitthvað er - þá gæti verið ég hafi einna helst hlakkað til þess að þessi ræða kláraðist. Og það gerist bráðum.

En fyrst þá langar mig að segja smá sögu. Einu sinni kom maður til vinar síns. Það var þungt yfir honum. Hann var niðurlútur og beygður. Lífið hafði reynst honum erfitt - hann hafði misst ástvini, hann var peningalítill, og á þeirri stundu fannst honum flest vera sér mót-drægt og and-snúið. Í örvæntingu snéri hann sér að vini sínum og andvarpaði: „Hvað hef ég gert til þess að verðskulda þetta?“

Eftir að vinurinn hafði hlustað um stund sagði hann: En elskulegi vinur, líttu í kringum þig. Þú átt góða vini, þú átt marga ástvini sem þykir vænt um þig. Þegar sólin skín á góðviðrisdögum þá skín hún líka á þig. Þú átt ómetanlegar minningar um þá sem þú hefur elskað, þú hefur upplifað svo margt og gert svo margt. Hvað hefurðu gert til þess að verðskulda það?

Mér er mjög oft hugsað til þess hversu mikil gæfa það var að fá að fæðast og alast upp í Vestmannaeyjum. Hvað hafði ég gert til þess að verðskulda þá gæfu? Svosem ekki neitt.

Hér stöndum við á fögrum degi, í hlýlegu faðmlagi þessara mjúklegu en samt tignarlegu fjalla. Við stöndum þétt saman og allt í kringum okkur eru kunnugleg andlit og vinaleg. Við getum varla snúið okkur í hálfhring án þess að lenda í hlýlegu faðmlagi við brosandi vini, kunningja og ættingja.

Eyjan mín kæra - ég óska hjá þér að eigi ég faðmlögin vís.

Og hér eru þau í búnkum. Faðmlögin. Manngæskan. Vináttan, vonin og æskan. Og hvað höfum við gert til þess að verðskulda það?
Þjóðhátíð býr yfir töframætti. Þótt við öll séum dauðleg þá er hún ódrepandi. Hún er haldin þrátt fyrir stríðsátök og elgos. Hún er einstök.

Hún er einstök af því að þetta umhverfi er einstakt. Þessi menning er einstök. Þessar Eyjar eru einstakar.
Vestmannaeyjar eru svo einstakar að Kristján fjórði Danakonungur vísaði í bréfum í upphafi 17. aldar til eyjanna sinna í norðri — Íslands, Færeyja og Vestmannaeyja.

En umfram allt þá er þetta fólk sem er einstakt. Fólkið í Dalnum. Eyjafólkið.

Í desember árið 1924 þurfti að senda lækni um borð í Gullfoss sem kom frá útlöndum og lá fyrir utan Eiðið. Það var aftakaveður, kuldinn nísti bein, vindurinn þyrmdi engu, aldan gekk yfir með ofbeldi, þegar níu manns fóru út á árabáti. Læknirinn og sjö ræðarar fórust. Aðeins einn lifði.
Þá var annar læknir sóttur og óskað eftir sjálfboðaliðum til að róa aftur út, í sama veðrinu, til að sinna þeim slösuðu. Frá því segir að þegar óskað var eftir sjálfboðaliðum þá hafi fleiri gefið sig fram heldur en þörf var á. Fleiri en þörf var á. Í Eyjum er það fólkið sem er einstakt.

Þið öll sem hér standið.

Alla mína bernsku fylgdist ég með því þegar þjóðhátíð Vestmannaeyja var undirbúin. Hún var undirbúin hér inni í dalnum. Þar sem fólk kom saman kvöld eftir kvöld, viku eftir viku. Ár eftir ár. Til að setja upp mannvirki. Mála. Gera fallegt. Passa upp á að allt sé í lagi. Svo allir aðrir gæti notið hátíðarinnar.

Útum allar bæ voru tjöldin viðruð. Í eldhúsum voru kökur bakaðar. Flatbrauðið smurt. Lundinn reyktur. Kjötsúpur soðnar. Svo allir aðrir gætu fengið nóg að borða.
Og hér í Dalnum unnu hundruð manna alls konar sjálfboðaliðastörf. Rukkuðu aðgangseyrinn, sinntu gæslu, unnu í sjoppunni. Að passa upp á að allt fari vel fram. Allt til þess að allir aðrir gætu notið þess að eiga góða þjóðhátíð.

Ég man svo vel eftir Lárusi heitnum Jakobssyni. Þegar vel gekk á þjóðhátíð þá arkaði hann um dalinn. Peningarnir streymdu inn.Hann græddi og græddi og græddi á tá og fingri. En það þar af var ekki króna fyrir hann sjálfan. Það var allt fyrir alla aðra.

Svona er þjóðhátíðin. Og svona eru Eyjarnar þegar þær sýna sitt rétta andlit. Hér leggjast allir á eitt þegar á þarf að halda.

Hvað getum við gert til þess að verðskulda þetta? Að verðskulda þessa þjóðhátíð. Verðum við ekki að vera þakklát? Og verðum við ekki að halda áfram?

Halda hefðunum áfram. Halda áfram að gleðjast, syngja, dansa og heilsa vinum. Halda áfram að minnast og halda áfram að faðmast. Og umfram allt að halda áfram að eiga saman þetta undurfagra ævintýr. Þjóðhátíð í Eyjum.

Ég þakka fyrir þann mikla heiður að fá að standa hér. Og mig langar að biðja ykkur, kæru þjóðhátíðargestir, að hugsa með þakklæti til alls þess fólks sem hefur í gegnum tíðina, allt frá 2. ágúst 1874 og fram á þennan dag — unnið við að undirbúa þjóðhátíð og gera hana mögulega fyrir okkur öll. Takk fyrir það. Gefum öllu þessu fólki — og ykkur sjálfum — gott klapp.

 

Gleðilega þjóðhátið.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.