Teista flytur þjóðhátíðargesti til Eyja

24.Júlí'19 | 14:03
teista

Farþegaskipið Teista. Ljósmynd/TMS

Tæpar sex vikur eru liðnar frá því að nýr Herjólfur kom til Vestmannaeyja. Í síðustu viku var hætt við að taka nýju ferjuna í gagnið þar sem ekki var lokið nauðsynlegum breytingum á viðlegukanti Herjólfs á Básaskersbryggju í Vestmannaeyjahöfn.

Í frétt Vísis segir að þjóðhátíðarnefnd ÍBV hafi ekki fengið skýr svör um siglingar nýja Herjólfs og hefur samið við ferðaþjónustufyrirtæki í Eyjum um að sigla með fólk ásamt Herjólfi milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja í tengslum við Þjóðhátíð.

Níu dagar eru til Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum. Hugmyndir hafa verið uppi um að nýta báða Herjólfa í siglingum milli lands og Eyja á föstudegi og mánudegi verslunarmannahelgarinnar. Þannig mætti flytja ríflega þúsund farþega til viðbótar til og frá Eyjum.

Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri ÍBV, segir að leitað verði annarra leiða.

„Við vonuðumst lengi eftir að báðir Herjólfarnir myndu geta siglt en við höfum ekki fengið nógu jákvæð viðbrögð með það. Þannig að við fórum á stúfana og þetta er niðurstaðan, Boat Tours hér í Vestmannaeyjum ætlar að sigla frá Landeyjahöfn á föstudegi og frá Eyjum á mánudegi.“

46 farþegar í hverri ferð

Laila Sæunn Pétursdóttir hjá fyrirtækinu Boat Tours í Vestmannaeyjum segir að Samgöngustofa hafi veitt leyfi fyrir siglingum bátsins milli Landeyjahafnar og Eyja. Fyrirtækið sjái um siglingarnar fyrir ÍBV vegna Þjóðhátíðar. Báturinn heitir Teista og var nýlega keyptur til landsins vegna útsýnissiglinga í Eyjum.

Hörður Orri hjá ÍBV segir að Teistan geti flutt 46 farþega.

En það er töluvert minna en ef báðir Herjólfar myndu sigla?

„Já, en það hafa aldrei verið tveir Herjólfar í áætlun hér á Þjóðhátíð í Eyjum hingað til. Auðvitað hefði það verið skemmtileg viðbót að fá eina til tvær ferðir á þessum tímum. Þetta er staða sem hefur komið upp áður, við höfum áður fengið skip til að sigla hérna á milli lands og Eyja. Þetta er það sem við erum að reyna að gera til að bregðast við þessari eftirspurn sem virðist vera á miðum hingað til Eyja,“ segir Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri ÍBV.

 

Vísir.is

Tungumálafólk óskast til vinnu sem túlkar

10.Maí'21

Alþjóðasetur leitar að fólki í Vestmannaeyjum til starfa sem túlkar.  Góð kunnátta á móðurmáli og íslensku er skilyrði, auk góðrar færni í mannlegum samskiptum, stundvísi, háttvísi og trúnaður.  Starfið er unnið í verktöku og ráðast laun af fjölda verkefna. Vinnutími er frjáls og sniðinn að óskum hvers og eins.  Boðið er upp á gjaldfrjálst starfsþjálfunarnámskeið áður en störf hefjast. Umsókn ásamt ferilskrá sendist á asetur@asetur.is  

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.