Óttast að stjórnvöld séu að gefast upp á að gera Landeyjahöfn að heilsárshöfn

- Sigurður Áss Grétarsson gangrýnir yfirvöld fyrir að slá framkvæmdum á frest við hafnargarðana og telur það geta haft afdrifaríkar afleiðingar

23.Júlí'19 | 15:20
nyr_herj_lan_vegag_ads

Nýi Herjólfur siglir hér inn Landeyjahöfn. Ljósmynd/Vegagerðin

Á dögunum tilkynnti Vegagerðin að ákveðið hafi verið að fresta breytingum á hafnarmynni Landeyjahafnar til næsta sumars. Til stóð að útbúa plön fyrir dælukrana á endum hafnargarðanna á grjótfylltum stáltunnum. 

Hefja átti dælingu síðla árs 2020 með nýjum dælubúnaði, sem keyptur hefur verið til landsins, og er áfram miðað við að svo geti orðið. Dælubúnaðurinn verður prófaður í haust og vetur á öðrum stað en í hafnarmynninu samkvæmt tilkynningu Vegagerðarinnar. 

Frátafir svipaðar næsta vetur og þær hafa verið hingað til

Ritstjóri Eyjar.net hafði samband við Sigurð Áss Grétarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra siglingasviðs Vegagerðarinnar sem hafði lengi yfirumsjón með framkvæmdum Landeyjahafnar. Sigurður segir aðspurður að þó hann sé hættur störfum hjá Vegagerðinni fylgist hann áfram með og hafi áhyggjur af því að samgönguyfirvöld hafi nú ákveðið að slá umræddri framkvæmd á frest. Sú ákvörðun muni koma niður á siglingum nýrrar ferju til Landeyjahafnar. 

„Það er alltaf spurning hvort rétt sé að tjá sig eftir að maður hefur stigið til hliðar. Þessi ákvörðun, að fresta breytingunum í Landeyjahöfn, er afar óheppileg að mínu mati. Kostnaður mun verða íþyngjandi þar sem verktakinn, sem fenginn var til breytinga við höfnina hlýtur að fara fram á bætur og sú vinna sem nú þegar hefur farið fram fer forgörðum. Ég tel að úr því að ekki verður farið í breytingar á höfninni, verði frátafir svipaðar næsta vetur og þær hafa verið hingað til. Munar kannski nokkrum dögum eða vikum.“ segir Sigurður Áss

Þröskuldurinn fyrir nýju ferjuna að mestu í hafnamynninu

Hann segir jafnframt að hann óttist að þessi ákvörðun þýði í raun að stjórnvöld séu að gefast upp á að gera Landeyjahöfn að heilsárshöfn.

Sigurður Áss segir að mikið myndi vinnast ef hægt verði að dæla á milli hafnargarðana með dælum úr landi yfir háveturinn, líkt og þessi framkvæmd miðaði að. Þröskuldurinn fyrir nýju ferjuna sé að mestu í hafnamynninu en fyrir gömlu ferjuna er það líka innan hafnar og á rifinu. Að auki þarf að dýpka margfalt meira magn fyrir gömlu ferjuna. 

Getur haft afdrifaríkar afleiðingar

Hann er því ekki sammála að málið hafi ekki verið rannsakað nægjanlega. „Auðvitað er auðvelt að fresta ákvörðun með því að segja að það þurfi að rannskaka meira en það eru orðin átta ár síðan vísir af þessari hugmynd kom fram og ýmsar athuganir hafa verið gerðar síðan til að finna lausn á því að tryggja nægjanlegt dýpi í Landeyjahöfn yfir háveturinn. Þetta varð niðurstaðan. Það má svo ekki gleyma að það var samþykkt fjárveiting í verkefnið af forstjóra Vegagerðarinnar, tveimur ráðuneytum og Alþingi. Við megum ekki heldur gleyma að fyrir um 11 árum síðan var smíði nýrrar ferju frestað samhliða byggingu hafnar. Það tók átta ár að hefja smíðina. Nú er breytingum á höfninni frestað og það getur haft afdrifaríkar afleiðingar.“ 

Sigurður segist að lokum einlæglega vona að samgönguyfirvöld sjái að sér svo að Landeyjahöfn geti orðið heilsárshöfn fyrir nýju ferjuna. 

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.