Goslokahátíð:

Kynnir áður óþekktar hugmyndir um ástæður Tyrkjaránsins

- Sunnudagur í Sagnheimum kl. 13:00-14:00. Dagskrá í boði Söguseturs 1627.

7.Júlí'19 | 09:24
tyrkjaran_jakob_smari_erlings

Teikning Jakobs Erlings af Tyrkjaráninu árið 1627.

Adam Nichols, prófessor við Marylandháskóla kynnir í dag áður óþekktar hugmyndir um ástæður Tyrkjaránsins. Auk þess fjallar Karl Smári Hreinsson um nýjar þýðingar á Reisubók sr. Ólafs Egilssonar. 

Dagksráin er í Sagnheimum frá kl. 13:00-14:00 og er hún í boði Söguseturs 1627. Spjall Adam Nichols verður á ensku en afhendur verður úrdráttur við upphaf fyrirlestrar úr því sem hann segir. Úrdráttinn má lesa hér að neðan en þar sést að Adam fjallar á merkilegan hátt um einn allramesta harmleik í sögu Vestmannaeyja er 242 Eyjabúar voru teknir sem þrælar til Alsír og komust aðeins örfáir þeirra heim aftur. 

 

Uppruni Tyrkjaránsins

Útdráttur úr fyrirlestrinum THE ORIGINS OF THE TYRKJARÁNIÐ eftir Adam Nichols

Matthías Magnússon

 

Árásir sjóræningja á Ísland í Tyrkjaráninu eru að mörgu leyti ráðgáta og vekja margar spurningar, þeirra á meðal:

  1. Af hverju komu þeir alla leið til Íslands? Hvernig í ósköpunum datt þeim það í hug?
  2. Af hverju voru tveir flokkar, annar frá Salé og hinn frá Algeirsborg, og réðust á sitt hvorn landshlutann, með viku millibili?
  3. Af hverju ætli þetta hafi gerst sumarið 1627 en ekki eitthvert annað ár?
  4. Og af hverju ekki fyrr og af hverju aldrei framar?

Því miður eru ekki til nein afdráttarlaus svör við þessum spurningum. En með smá leynilögregluvinnu má þó geta sér til um svörin með sæmilegri nákvæmni. Þá er best að leita fyrir sér í íslenskum heimildum, þar sem finna má forvitnilegar frásagnir af uppruna þessara árása.

Samkvæmt frásögn Kláusar Eyjólfssonar, lögréttumanns, er skrifaði fyrstur manna lýsingu á því hvernig umhorfs var eftir árásina, að nokkrir þeirra er sloppið hafa, telji að um veðmál tveggja yfirherra í Tyrkjaveldi hafi verið að ræða, að annar hafi sagt að ekki væri hægt að fjarlægja svo mikið sem einn lítinn stein frá Íslandi, hvað þá fólk, en hinn hafi verið annarrar skoðunar, og þess vegna hafi verið gerðir út leiðangrar til að fá úr þessu skorið. Gerð voru út 12 skip til að sækja eins margt fólk og unnt væri, en það skyldi óskaddað, því hægt væri að fá stórfé fyrir það í Austurlöndum.

Frá ráninu segir einnig í Tyrkjaráns-Sögu, sem rituð var 1642, og kemur þar fram að þegar herrarnir hafi verið að bollaleggja hvert halda skyldi í leiðangur, hafi verið viðstaddur hertekinn danskur maður, Páll að nafni, sem sá þarna tækifæri til frelsunar og stakk því upp á Íslandi og bauðst til að veita þeim leiðsögn þangað, gegn því að fá lausn úr ánauð.

Þeir sem Kláus Eyjólfsson vísar til sem „yfirherra“ í veldi Tyrkja, er líklegast að hafi verið sjóræningjaskipstjórarnir Jan Janszoon van Haarlem og Murate Flamenco. Sá fyrrnefndi var reyndar einnig aðmíráll og því valdamikill í Salé. Hinn síðari var umsvifamikill sjóræningi frá Algeirsborg. Báðir voru þeir af hollenskum uppruna. Leiða má líkur að því að þeir hafi stundum leitt saman hesta sína, er Murate Flamenco kom siglandi með ránsfeng til Salé, en það ríki var sjálfstætt og ekki bundið af samningum um vernd vissra skipa á hafinu, eins og átti við um Alsír. Veðmál þeirra gæti því hafa átt sér stað í Salé, og nærvera Páls styður það, þar sem hann var þræll í Salé.

En jafnvel þó að ofangreint kunni að vera rétt í meginatriðum, þá svarar það ekki spurningunni hvað gæti hafa freistað sjóræningjanna til að leggja upp í svo langan og áhættusaman leiðangur. Eitthvað meira hefur þurft til en veðmálið eitt.

Og sú var einmitt raunin. Alsír hafði samið við Englendinga um að láta skip þeirra óáreitt og marokkóski soldáninn hafði gert svipaðan samning við Hollendinga. Salé, sem í dag er borg í Marokkó, var á þessum tíma sjálfstætt ríki en kaus að fylgja Marokkó í mörgum málum. Nutu þeir því þess að geta farið í höfn í Hollandi á milli þess sem þeir rændu ensk skip í Ermarsundi. En vorið 1627 gerðu Englendingar samning við Salé, sem gerði að verkum að Jan Janszoon sá fram á mögur ár í sjóræningjabransanum. Jan og Murate vissu að Ísland var varnarlaust og að þangað mætti auðveldlega sækja fólk til að selja á þrælamörkuðum. En Jan var efins. Leiðin var löng og þeir þekktu ekkert til á Íslandi. En danski þrællinn Páll leysti það vandamál.

En enn er nokkrum spurningum ósvarað. Af hverju voru skipaflotarnir tveir og af hverju réðust þeir á Ísland með viku millibili og það á mismunandi stöðum, þar sem Murate leitaði fanga á Austurlandi og í Vestmannaeyjum en Jan á Suðvesturlandi?

Af hverju var ekki ráðist aftur á Ísland síðar? Jan Janszoon hafði fengið nóg af Íslandi og hugði ekki á frekari ferðir þangað. Murate Flamenco gerði tilraun til þess en hætti við þegar á vegi hans varð enskt skip drekkhlaðið verðmætum. Jan bauðst svo staða í Marokkó og Murate var seinna fangaður af Mölturiddurum.

 

Dagskráin er eins og áður segir í boði Söguseturs 1627 og hefst hún í Sagnheimum kl. 13.00 í dag, sunnudag.

Dagskrá dagsins á Goslokahátíð.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).