Goslokahátíð:

Gíslína sýnir í Safnaðarheimilinu – Mitt á milli

Sýningin opnar í dag, fimmtudag kl. 18.30

4.Júlí'19 | 11:07
Gislina03[230141]

Gíslína Dögg Bjarkadóttir. Myndir/aðsendar

Gíslína Dögg Bjarkadóttir, myndlistarkona tók stóra ákvörðun í vetur þegar hún ákvað að helga sig listinni eingöngu. 

Um leið sýndi Gíslína að hún er ekki kona einhöm því áður hafði hún breytt úr hefðbundna málverkinu yfir í grafík en viðfangsefnið er það sama, konan sem hefur verið áberandi í verkum hennar og myndir þar sem hún leikur sér með mynstur. Gíslína verður með sýningu á verkum sínum í Safnaðarheimilinu um Goslokahelgina og verður hún opnuð kl. 18.30.

Valin Bæjarlistamaður Vestmannaeyja árið 2014

Sex ára var Gíslína byrjuð að teikna, fór á myndlistar- og handíðabraut í Verkmenntaskólanum á Akureyri þaðan sem leiðin lá í Listaháskólann í textíl og fatahönnun. Eftir það bætti hún við sig kennsluréttindum í verklegum greinum fyrir grunn- og framhaldsskóla.

Hún hefur víða komið við í list sinni og síðast sýndi hún hér sumarið 2015. „Ég var valin Bæjarlistamaður Vestmannaeyja árið 2014 og með sýningunni í Safnaðarheimilinu 2015 var ég að kvitta fyrir það,“ segir Gíslína en sýningin er eftirminnileg með öllum sínum fallegu en karftmiklu konum.

Finnst grafíklistin vera á uppleið

Sýninguna í Safnaðarheimilinu kallar hún Mitt á milli og vísar ef til vill til þess að núna er Gíslína komin yfir í grafík auk þess að ætla að helga sig listinni eingöngu. „Ég hef verið í grafíkinni frá 2017 og vinn talsvert í  Reykjvík. Ég gekk í Íslenska grafíkfélagið sem er með æðislegt verkstæði í Listasafni Reykjavíkur sem ég hef aðgang að. Það er því miður búið að segja þeim upp en vonandi finnst annað hentugt húsnæði.“

Gíslína tekur vinnutarnir í Reykjavík þar sem hún sækir líka námskeið auk þess að kynnast listafólki, bæði innlendu og erlendu sem skipti svo miklu máli. „Mér finnst grafíklistin vera á uppleið og er mjög spennandi að taka þátt í því. Á verkstæðinu upplifir maður mismunandi strauma í listinni og það eru allir tilbúnir að segja manni til og leiðbeina. Þar myndast líka tengsl sem ég ætla að nýta mér í framtíðinni, bæði hér heima og erlendis. Ég vinn verkin með mismunandi tækni og í Eyjum hef ég t.d. nýtt mér Fablabstofuna hjá Frosta til að gera tréristur.“

Á sér draum um að koma sér upp vinnustofu í Eyjum

Í janúar ákvað Gíslína að hætta hefðbundinni vinnu og helga sig listinni eingöngu og horfir hún björtum augum fram á við. „Þetta er draumurinn og ég er bjartsýn. Fyrsta stóra skrefið er sýningin í Safnaðarheimilinu sem er að hluta til sölusýning. Sýninguna kalla ég Mitt á milli og þar verða 30 til 40 verk en það gæti breyst,“ segir Gíslína og skrefið er kannski ekki svo stórt þó hún hafi stigið yfir í grafíkina.

  „Það er alltaf konan sem er bakvið flest sem ég geri. Ég hef líkað skoðað verk Sigurðar Guðmundssonar, málara sem hannaði íslenska kvenbúningin. Í honum er mynstur sem ég leik mér með og geri að mínum,“ segir Gíslína sem á sér þann draum að koma sér upp vinnustofu í Eyjum.

„Ég er með ágætis aðstöðu heima en mig langar í sérstaka vinnustofu sem gæti verið aðdráttarafl fyrir aðra listamenn að nýta sér og dvelja hér um tíma. Fyrsta skrefið er grafíkpressa sem ég ætla að kaupa í haust.“

Óður til allra þeirra nafnlausu kvenna sem í raun sköpuðu söguna, listina og lífið

„Mörg verkin á sýningunni vísa til þeirra fjölmörgu kvenna, sem í gegnum aldirnar hafa unnið sín mikilvægu störf í hljóði – þetta er óður til allra þeirra nafnlausu kvenna sem í raun sköpuðu söguna, listina og lífið. Þessar konur tengdu lífskeðju kynslóðanna saman, lifðu sem nafnlausar hversdagshetjur og eru gleymdar flestu fólki í dag.“ segir Gíslína sem vonast til að sjá sem flesta á sýningunni í Safnaðarheimilinu sem hún opnar kl. 18.30 á fimmtudaginn.

 

Dagskrá Goslokahátíðar

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.