Eftir Halldór Bjarnason

Gríman fellur

28.Júní'19 | 19:48
IMG_1795

Nýr Herjólfur við Bjarnarey. Ljósmynd/TMS

Það vantar ekki Grímur að þú ert góður penni og gaman að lesa greinar eftir þig en þó finn ég mig knúinn til að leiðrétta ýmsar rangfærslur sem fram komu í grein þinni á eyjar.net undir yfirskriftinni „Aðeins um vinnubrögð meirihluta bæjarstjórnar gagnvart stjórn Herjólfs ohf.”.

Byrjum á upphafinu. Eins og flestir vita var hlutafélagið Herjólfur ohf. stofnað í maí 2018. Það lá mikið á að skipa félaginu stjórn rétt fyrir bæjarstjórnarkosningar, enda höfðu skoðanakannanir sýnt að töluverðar breytingar yrðu á stjórn bæjarins. Stjórn félagsins var skipuð af þáverandi bæjarstjóra, og var sú klásúla sett í stofnsamning félagsins að bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum færi með umboð eigandans en ekki bæjarstjórnin.

Gerðu sjálfir bæjarstjórann einráðann í stofnsamþykktunum

Kosningarnar fóru kannski ekki alveg eins og sumir vildu. Ný bæjarstjórn tók við völdum í byrjun júní 2018. Venjan er sú eins og þú veist, pólitíkusinn fyrrverandi og hokinn af reynslu, að eftir kosningar er skipað á ný í ráð og nefndir sem endurspegla niðurstöður kosninga og það meirihlutasamstarf sem stofnað hefur verið til hverju sinni.

Það sama átti að gera í stjórn Herjólfs ohf., en þá bregður svo við að stjórnarmenn í félaginu og bæjarfulltrúar minnihlutans fara hamförum og segja að þetta sé ekki pólitískt skipuð stjórn. Engu að síður gerðu þeir bæjarstjórann einráðann í stofnsamþykktunum. Nú brá svo við að ekki var réttur bæjarstjóri í stólnum, og því er allt ómögulegt að dómi minnihlutans og því átti ekki að fara lengur eftir þeirra stofnsamþykktum.

Kosinn í stjórn af H listanum

Grímur, þú talar um óheilindi meirihlutans. Þau voru nú ekki meiri en svo að þú varst skipaður í stjórn félagsins af H listanum eftir að minnihlutinn ákvað að hafa þig ekki lengur í stjórn. Þessir góðu félagar þínir mátu óeigingjarna vinnu þína minna, en þeirra sem valdir voru til áframhaldandi stjórnarsetu af þeirra hálfu. Já, ef þetta eru vinir þínir væri gaman að kynnast óvinum þínum.

En H listinn var nú ekki verri en það að hann kaus þig til að setjast í stjórnina og vildi með því láta reyna á hvort þú myndir standa undir væntingum. En því miður Grímur stóðst þú þær ekki og eru mörg dæmi þar sem þú og fráfarandi stjórn voruð ekki að standa ykkur.

Tökum nokkur atriði:

  1. Þegar ég tók sæti sem varamaður í stjórn Herjólfs hitti ég þig Grímur og minnti þig á að  búið væri að leggja upp með að varmenn yrðu boðaðir á fundi og fengju gögn og sætu alla stjórnarfundi og eins og tíðkast í mörgum stjórnum. Þú tókst vel í þetta að sjálfsögðu en aldrei alla þína stjórnarsetu var ég boðaður til fundar.
  2. Það tók stjórnina 10 vikur að fá kennitölu á fyrirtækið sem að öllu jöfnu tekur um 2 vikur.
  3. Í grein þinni kemur þú inn á mannaráðningar. Þar held ég að þú ættir að stinga hausnum aftur í sandinn, taka úr sandinum aftur, hrista hann vel og athuga hvort þú lagist ekki. Þið réðuð framkvæmdastjóra til bráðabyrgða, en af því að hann réði skipstjóra sem ykkur þóknaðist ekki þá var hann látinn fara eftir nokkra daga í starfi. Ráðning skipstjórans var dregin til baka og auglýst aftur. Þetta kallast ekki góð mannleg samskipti. Því næst var auglýst eftir öðrum í áhöfn, vélstjórum, stýrimönnum, hásetum og þernum. Á þessum tímapunkti var ekki farið að hafa samband við neinn áhafnarmeðlim á núverandi Herjólfi, en það máttu rekstraraðilar á undan Herjólfi ohf eiga að þegar þeir fengu reksturinn eftir útboð var það þeirra fyrsta verk að bjóða allri áhöfninni vinnu ólíkt Herjólfi ohf, sem auglýsti eftir fólki í byrjun ágúst 2018 og umsóknarfrestur var út ágúst sama ár. Ekki var haft samband við umsækjendur að fyrra bragði. Það var ekki fyrr en fólk fór að lengja eftir svörum 2-3 mánuðum síðar að einhver svör fengust, og þá voru svörin loðin. Auðvitað hafði umboðsaðili eigandans áhyggjur af þessu og tjáði þér það. Ef þú telur þetta vera afskipti af mannaráðningum þá verður bara svo að vera. Athugaðu að einu rökin fyrir því að þú varst ráðinn sem stjórnarformaður Herjólfs ohf var að þú varst talinn hokinn af reynslu, fyrrum stjórnarformaður Herjólfs. Sama er að segja um starfsfólk Herjólfs sem starfaði undir Eimskip, það er hokið af reynslu eftir margra ára starf. Þú hefðir gjarnan mátt hafa það í huga eins hokinn og þú ert.
  4. Farið var fram á að fundargerðir yrðu settar á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar. Það tók 2-3 mánaði að fá það í gegn. Síðast en ekki síst verð ég að koma inn á orð þín um sérhagsmunagæslu og einkavinavæðingu. Er það ekki svolítið sérstakt að þetta komi frá þér? Fráfarandi stjórnarformaður félagsins á og rekur lögfræðiskrifstofu. Herjólfur ohf hefur verið að versla við þá lögfræðiskrifstofu allt frá stofnun félagsins. Af hverju er ekki verið að versla við lögmenn Vestmannaeyjabæjar?
  5. Ég hef velt því fyrir mér hvað ef nýi Herjólfur hefði verið tilbúinn í júni í fyrra eins og vonir stóðu til? Miðað við ganginn hjá þáverandi stjórn Herjólfs ohf. í undirbúningnum þá má þakka fyrir þann drátt sem varð á að skipið kom ekki til landsins í fyrra.
  6. Að það sé skilningur stjórnarmanna að ábyrgð á rekstinum sé ekki hjá Vestmannaeyjabæ er skrýtin nálgun. Herjólfur ohf er hluti af samstæðu bæjarins og tapið á félaginu á síðasta ári lækkaði hagnað Vestmanneyjabæjar um 25 milljónir rúmlega. Vestmannaeyjabær á félagið og bæjarstjóri heldur á eina hlutabréfinu.

Plott minnihlutans opinberað í gær

Í gær opinberaðist svo plott sjálfstæðismanna, þegar Eyþór Harðarson opinberaði á fundi bæjarstjórnar að plott minnihlutans hafi gengið upp að tilnefna þig ekki á sínum tíma í stjórnina og treysta á að meirihlutinn gerði það. Það gekk upp þá, en ekki í síðasta mánuði.

Það að halda því fram að ekki eigi að vera pólitík í slíkri stjórn og opinbera svo slíkt plott er með miklum eindæmum og er mér til efs að þetta hafi verið skipulega ákveðið af flokkunum fyrir fund. Eyþóri til hróss verð ég að segja að hann sagði þarna hlutina nákvæmlega eins og þeir voru, þrátt fyrir að það komi vandræðalega út fyrir flokk hans.

Komið út fyrir öll velsæmismörk

Grímur, ég læt þetta nægja að sinni (en kannski kemur meira um þetta allt saman síðar). Af nógu er að taka. Ég bið þig að fara ekki í vælukjóagírinn eins og ónefndur tapsár flokkur hér í bæ. Þú veist sjálfur að traust H listans á þér rofnaði og þér var tjáð það. Það er því tilgangslaust að reyna að segja fólki að það hafi komið flatt upp á þig skipun annars í þinn stað í stjórn Herjólfs ohf.

Dylgjunum og ósannindunum varð að svara því þessi gengdalausi rógburður í garð H listans er komin út fyrir öll velsæmismörk, vonandi þroskast menn, hætta þessum vinnubrögðum og fara að vinna að heilindum fyrir bæjarfélagið.

 

Halldór Bjarnason

Höfundur er fyrrverandi varamaður í stjórn Herjólfs ohf.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).