Gagnrýnir harðlega nokkra ráðherra og embættismenn fyrir stöðuna í Eyjum

18.Júní'19 | 12:28
fridrik_og_eyjar

Samsett mynd.

Friðrik I. Óskarsson, eldri borgari og áður framkvæmdastjóri, telur að spilling á Íslandi hafi aukist um muna á Íslandi eftir að háskólamenntun fór að vera almenn meðal Íslendinga. Hann telur samgöngumál til Vestmannaeyja gott dæmi um það. 

Aðsend grein Friðriks birtist í Morgunblaðinu í dag. Gríðum niður í greinina:

„Með aukinni menntun virðist spilling hafa farið vaxandi á okkar svo góða Íslandi. Hér virðist það krafa að unglingar fari beint í menntaskóla og síðan í háskóla. Háskólarnir úða út háskólamenntuðu fólki, lögfræðingum í hópum, viðskiptafræðingum og ég veit ekki hvað. Nýútskrifaðir viðskiptafræðingar þykjast kunna allt um leið og þeir útskrifast og hinir útskrifuðu lögfræðingar vilja komast í einhver krassandi mál svo að þeir verði sem fyrst þekktir. Ekki ætla ég að dæma hvorki viðskiptafræðinga eða lögfræðinga eins, sem betur fer eru ekki allir eins, en þetta blessaða fólk heldur að það kunni allt bara af því að það er með háskólamenntun. Frá mínum bæjardyrum séð er þeim bara vorkunn,“

Hann telur að spillingu megi helst finna meðal menntaðs fólks. „Af hverju hefur spillingin aukist svo mikið hér á þessu landi? Í dag er ekkert sem heitir að vinna sig upp í starfi, að fólki sé treyst til að taka á sig ábyrgð, t.d. við rekstur fyrirtækja. Nei, ef þú hefur menntun, s.s. í viðskiptafræði eða lögfræði og jafnvel dýralækningum, getur þú fengið starf. Ekki ætla ég sem eldri maður að velta mér svo sem mikið upp úr þessum málum, en mér finnst það umhugsunarefni að svo virðist sem spilling hafi aukist með aukinni menntun,“ segir Friðrik.

Raunasaga að fara til Vestmannaeyja

„Hinn 29. apríl þurfti ég að skreppa heim til Vestmannaeyja. Ekki var siglt frá Landeyjahöfn svo ég pantaði mér far með flugi. Ég var mættur á flugvöllinn kl. 6.30 og bókaði mig inn. Klukkan 8.30 var tilkynnt að það væri svo misvinda í Eyjum að ekki væri hægt að fljúga, það ætti að athuga klukkan 9. Klukkan 9 var okkur tilkynnt að það ætti að reyna kl. 10.30, og aftur mætti fólkið klukkan 10.30. Klukkan 12 var tilkynnt að það ætti að sameina flugið sem hefði átt að vera um morguninn við seinna flug, eða kl. 15.45, sem og var gert. Ég hringdi í flugturninn í Vestmannaeyjum klukkan 12 og mér var tjáð að það væri bara ágætis flugveður,“ segir Friðrik.

Endalaus bið var svo að komast með Herjólfi. „Ástæðan sem ég held að hafi verið fyrir því að ekki var flogið að sú flugfélagið hafði ekki flugvél á lausu. Ég hringdi í Herjólf og var tjáð að ég væri á biðlista með bílinn og væri númer 19 frá Þorlákshöfn. Númer fimm 30. apríl og gæti hugsanlega komist með bílinn heim með kvöldferðinni 30. apríl frá Þorlákshöfn,“ segir Friðrik.

„Helltist yfir mig reiði”

Friðrik segir að á þessum tímapunkti hafi einfaldlega fokið í hann. „Ég varð hreinlega brjálaður, það var búið að eyðileggja heilan vinnudag fyrir mér, ekki nóg með það að ég væri reiður yfir þessu heldur helltist yfir mig reiði yfir því hvernig heilbrigðis-, samgöngu- og dómsmálaráðuneyti og Vegagerðin geta hagað sér gagnvart okkur Eyjamönnum. Enginn sýslumaður. Við getum bara sótt okkar þjónustu hjá sýslumanninum á Selfossi. Sjúkrahúsið svo til lamað, enginn svæfingarlæknir né skurðlæknir. Þú getur bara farið til Reykjavíkur og fætt þitt barn þar og eytt morð fjár í þann kostnað. Dýralæknirinn hjá Vegagerðinni vísar á sína starfsmenn og virðist ekki þurfta að bera neina ábyrgð frekar en ráðherrarnir. Það er engum treystandi og ég er hræddur um að ef Eyjamenn hættu að selja afurðir sínar þá kæmi það við þá í 101, eða þetta lið í Reykjavíkinni,“ segir Friðrik.

Eyjamenn séu annars flokks fólk

Greinarhöfundur segir að farið sé með Eyjamenn líkt og annars flokks fólk. „Við Eyjamenn greiðum okkar framlag í ríkiskassann eins og aðrir og þurfum að greiða fyrir það að geta notað þjóðvegi landsins. Við greiðum fargjald til að komast upp á land og þungaskatt af okkar bílum og höfum aldrei kvartað. Hvernig væri að dómsmálaráðherra, samgönguráðherra og heilbrigðisráðherra færu nú að vakna til lífsins og gera eitthvað í málunum. Við greiðum milljarða í ríkiskassann og margar Landeyjahafnir á hverju ári. Maður fær það stundum á tilfinninguna að við Eyjamenn séum annars flokks fólk,“ segir Friðrik.

Hann telur að vandamálið sé meðal annars að það séu of margar stofnanir á Íslandi. „Páll Magnússon þingmaður hefur talað um það að mokað væri upp úr Landeyjahöfn með teskeið og það er satt. Það er bara staðreynd að það eru of margar stofnanir í þessu litla landi og of margir fræðingar sem halda að þeir kunni allt, en kunna svo ekki neitt. Ef litið er á Samgöngustofu skilst mér að þar séu eintómir lögfræðingar. Ætla þessir lögfræðingar að meta það hvort skip sé haffært? Sigurður Ás hefur ekkert hlustað á reynda sjómenn um að til þess að Landeyjarhöfn verði í lagi þá þurfi að lengja báða garðana, bæði austurgarðinn og vesturgarðinn. Nei, hann er alltaf að reikna á skrifstofunni sinni og fær alltaf það sama að 2+2 eru 4,“ segir Friðrik.

Nóg komið

„Hvar er nú VG heilbrigðisráðherrann? Fyrir mörgum árum lenti maður með höndina í spili á fiskibát við Vestmannaeyjar. Einar Guttormsson, sjúkrahúslæknir í Vestmannaeyjum, tók höndina af manninum á sjúkrahúsinu í Eyjum og tókst það vel. Einn góður vinur minn missti framan af putta í vinnuslysi hér. Hann var sendur til Reykjavíkur og þurfti svo að bíða og bíða á bráðamóttökunni í Fossvogi til að fá gert að sárum sínum,“ segir hann og bætir við að nú sé komið nóg.

„Í dag 2019 geta konur ekki fætt börnin sín í Eyjum, ef eitthvert stórslys verður þá er bara að senda þann slasaða til Reykjavíkur eða hann getur bara dáið. Ætlar heilbrigðisráðherra, sem alltaf hefur haft munninn opinn frá því að hún komst á þing, að láta þetta viðgangast? Er einhver sparnaður í því að hafa ekki sýslumann í Vestmannaeyjum. Nei þetta er hneyksli. Dómsmálaráðherra, gerðu nú eitthvað í málinu. Sigurðir Ingi, ætlar þú virkilega að láta Vegagerðina haga sér svona gagnvart okkur Eyjamönnum? Það er komið nóg.“

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla.