Heimildarmyndin Fólkið í Dalnum

- leggðu verkefninu lið í gegnum Karolina Fund

4.Júní'19 | 09:57
folkid_i_dalnum_logo

Eyjamaðurinn Gunnar Júlísson hannaði merki myndarinnar. Ljósmyndir/aðsendar

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er magnað fyrirbæri en í ár eru 145 ár liðin frá því fyrst var haldin hátíð í Herjólfsdal. Í sögulegu samhengi er hátíðin einstök meðal íslenskra útihátíða. Þrátt fyrir að Þjóðhátíð í Eyjum hafi þróast í gegnum tíðina eru mörg atriði hennar byggð á áratuga hefðum. 

Í júlí verður heimildarmyndin Fólkið í Dalnum frumsýnd, en það eru Eyjapeyjarnir Sighvatur Jónsson og Skapti Örn Ólafsson sem standa að myndinni.

Þjóðhátíð gerð skil í heimildarmynd

Í kringum Þjóðhátíðina árið 2013 kviknaði hugmynd að gerð heimildarmyndarinnar hjá þeim Sighvati og Skapta Erni. Að þeirra mati var og er löngu kominn tími til að skrásetja þessa mögnuðu sögu í formi heimildarmyndar. Árið 2014 hófumst þeir félagar handa þegar liðin voru 140 ár frá því fyrst var haldin Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Upphaflega var ætlunin að gera einni hátíð skil í stuttri heimildarmynd. Fljótlega kom í ljós að það væri ekki raunhæft fyrir eitt tökulið að fanga viðburðinn með upptökum á einni hátíð. Undanfarin fimm ár hafa þeir Sighvatur og Skapti Örn þannig unnið að gerð heimildarmyndar um Þjóðhátíð.

Afraksturinn er mjög mikið af efni frá síðustu fimm hátíðum. Tekin hafa verið á annað hundrað viðtöl við fólk sem tengist hátíðinni með einum eða öðrum hætti og ætla má að annað myndefni telji nokkra tugi klukkutíma.

Saga Þjóðhátíðar í nútíð og fortíð

Hugmyndin er að segja sögu Þjóðhátíðar í gegnum upptökur síðustu ára. Fylgst hefur verið með tveimur fjölskyldum við hátíðahaldið, allt frá undirbúningi að frágangi. Fjallað verður um hefðirnar, tónlistina, lífið í hústjöldunum, sjálfboðaliðana og öryggismálin. Eyjamenn gera sér grein fyrir hversu mikið verk er að halda Þjóðhátíð sem er stærsta fjáröflun ÍBV íþróttafélags.

Tilgangurinn með útgáfu myndarinnar er að miðla sögu Þjóðhátíðar í nútíð og fortíð til stærri hóps en áður, innan lands sem utan. Hátíðin er elsta útihátíð landsins en sú fyrsta fór fram í Herjólfsdal 1874. Á alheimsvísu er fjölskyldu- og tónlistarhátíðin í Eyjum byggð á sterkari grunni en margar aðrar viðlíka skemmtanir.

Undanfarin ár hefur mikil umræða verið hér á landi um öryggisþátt Þjóðhátíðar og annarra útihátíða. Í myndinni verður fjallað sérstaklega um hversu mikil áhersla er lögð á gæslu og öryggi hátíðargesta. Þjóðhátíðarnefnd ÍBV vinnur að hátíðinni árið um kring og er mikill metnaður lagður í dagskrá og alla umgjörð.

„Þjóðhátíð í Eyjum hefur vaxið undanfarin ár og hefur skapast umræða meðal Eyjamanna um þolmörk hátíðarinnar. Með tilkomu Landeyjahafnar hefur flutningsgeta stóraukist. Í myndinni er fjallað um þróun hátíðarinnar og ljósi varpað á hversu miklu máli hún skiptir fyrir verslun og þjónustu í Eyjum,“ segir Sighvatur.

Söfnun hjá Karolina Fund

Öllum upptökum er lokið og eftirvinnsla myndarinnar stendur yfir. Það er krefjandi að gera svo stóru og viðamiklu viðfangsefni skil sem Þjóðhátíð er. Það hefur útheimt mikla vinnu og ekki síður fjármuni.

Stærstu stuðningsaðilar myndarinnar á framleiðslutímabilinu hafa verið Menningarráð Suðurlands, Eimskipafélag Íslands, Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum, Ísfélag Vestmannaeyja og ÍBV - íþróttafélag.

„Á endasprettinum við framleiðslu heimildarmyndarinnar leitum við nú eftir stuðningi í gegnum hópfjármögnunarsíðuna Karolina Fund. Þar geta Eyjamenn sem og aðrir stutt við bakið á okkur gegn því að fá meðal annars miða á forsýningu myndarinnar ásamt því að fá nafnið sitt í kreditlista hennar. Við stefnum á að forsýna Fólkið í Dalnum í Eyjum og í Reykjavík núna í júlí, en nánari upplýsingar liggja fljótlega fyrir. Við hvetjum alla unnendur Þjóðhátíðar til að leggja okkur lið,“ segir Skapti Örn.

Nánari upplýsingar um söfnina hjá Karolina Fund má finna hér:

https://www.karolinafund.com/project/view/2488

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.

Tungumálafólk óskast til vinnu sem túlkar

10.Maí'21

Alþjóðasetur leitar að fólki í Vestmannaeyjum til starfa sem túlkar.  Góð kunnátta á móðurmáli og íslensku er skilyrði, auk góðrar færni í mannlegum samskiptum, stundvísi, háttvísi og trúnaður.  Starfið er unnið í verktöku og ráðast laun af fjölda verkefna. Vinnutími er frjáls og sniðinn að óskum hvers og eins.  Boðið er upp á gjaldfrjálst starfsþjálfunarnámskeið áður en störf hefjast. Umsókn ásamt ferilskrá sendist á asetur@asetur.is