Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Helga Kristín Kolbeins og Trausti Hjaltason skrifa:

Kaldar kveðjur

31.Maí'19 | 22:19
baejarf_d_2019

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Helga Kristín Kolbeins og Trausti Hjaltason

Eitt af stærstu verkefnum Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili sem komst til framkvæmda með góðri samvinnu við Eyjalistann var án efa yfirtaka Vestmannaeyjabæjar á rekstri Herjólfs. 

Það mikla framfaraskref fyrir samfélagið tryggði mun tíðari ferðir eða 7 ferðir á dag til Landeyjahafnar alla daga ársins og að siglt yrði á stórhátíðardögum. Auk þess fá bæjarbúar nú tafarlaust 50% afslátt af fargjöldum án þess að þurfa að leggja inn tugþúsundir og allur hagnaður rekstursins mun fara í að auka þjónustu eða lækka fargjöld til farþega.

Kaldar kveðjur til fyrrverandi formanna

Á árlegum aðalfundi Herjólfs ohf. sem fram fór í dag var reynslumestu stjórnarmeðlimunum þeim Lúðvíki Bergvinssyni og Grími Gíslasyni, vikið úr stjórninni af meirihluta H- og E- lista, tveimur fyrrverandi formönnum stjórnar Herjólfs ohf. sem leitt hafa verkefnið áfram og þekkja, án þess að á aðra sé hallað, eðli og umfang verkefnisins einna best enda sátu þeir ásamt Páli Guðmundssyni í stýrihóp fyrir Vestmannaeyjabæ sem sá um samningagerð við Vegagerðina og undirbúning yfirtöku rekstursins. Undirrituð telja það ekki bera hagsmuni verkefnisins fyrir brjósti þegar slík þekking og reynsla er virt að vettugi í verkefni sem er áætlað til tveggja ára.

Sjálfstæðisflokkurinn kýs stöðugleika

Það kom verulega á óvart að bæjarstjóri, sem heldur á eina hlutabréfi félagsins, hafi ekki staðið upp á fundinum, rætt mikilvægi verkefnisins og framtíðarsýn þess, né þakkað formlega á fundinum fráfarandi stjórnarmönnum sem hafa lagt ómælda ósérhlífna vinnu í verkefnið bæði við undirbúning yfirtökunnar og að koma verkefninu í framkvæmd. Slíkt er óásættanlegt gagnvart þeim einstaklingum sem hafa lagt mikið af mörkum við að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar, eitt stærsta hagsmunamál okkar. Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum hefur ávallt borið fullt traust til stjórnarmeðlima og kosið að gera engar breytingar á kjöri á sínum stjórnarmönnum, enda er stöðugleiki einmitt það sem verkefnið þarf. Að því sögðu væntum við mikils af störfum stjórnarmeðlima í því umfangsmikla verkefni sem þeir hafa fyrir höndum og megi þeir allir bera gæfu til að vinna ötullega að hagsmunum samfélagsins, Vestmannaeyingum öllum til heilla. Grími Gíslasyni og Lúðvíki Bergvinssyni færum við ómældar þakkir fyrir þeirra ómetanlega framlag til samgöngumála í Vestmannaeyjum um leið og við óskum þeim velfarnaðar í sínum framtíðarstörfum.

 

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

 

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Helga Kristín Kolbeins

Trausti Hjaltason

 
 

Tags

Herjólfur

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla.