Kvikmyndahátíðin heldur áfram í dag:

Pysjuævintýrið og Verstöðin Ísland sýndar í dag

- Laugardaginn 11. maí 2019, kl. 16:00 til 17:00

11.Maí'19 | 07:02
IMG_8914

Vestmannaeyjahöfn. Ljósmynd/TMS

Í dag verða sýndar tvær myndir á Kvikmyndahátíðinni af tilefni af 100 ára kaupstaðarafmæli Vestmannaeyjabæjar. Pysjuævintýrið er stuttmynd sem tekin var í Eyjum árið 2000. Hin myndin er Verstöðin Ísland, heimildamynd um íslenskan sjávarútveg.

Fjórði og síðasti hlutinn sem tekinn var í Vestmannaeyjum.

Pysjuævintýrið (10 mín.)

Í fjölskyldumyndinni Pysjuævintýrið er dregin upp skemmtileg mynd af því þegar börn í Vestmannaeyjum flykkjast út á haustkvöldum til að bjarga pysjum sem fljúga á ljósin í bænum þegar þær yfirgefa holur sínar í fjöllunum í kring. Þeim er safnað í kassa og sleppt í sjóinn daginn eftir.

Í þessari pysjusögu stendur bærinn fyrir keppni um hver getur bjargað flestum pysjum á þremur dögum og hefur bæjarstjórnin lofað veglegum verðlaunum. Systkinin Anna og Bragi taka þátt í keppninni en einnig fylgjast áhorfendur með Axel sem beitir nokkuð óviðeigandi aðferðum við að ná sem flestum pysjum eftir að hann kemst að því hver hinn veglegi vinningur í keppninni er.

Aðalleikendur eru Hjálmar ViðarssonÍrena Dís Jóhannesdóttir og Ingvar Örn Bergsson.

Leikstjóri og aðalframleiðandi er Sveinn M. Sveinsson. Pysjuævintýrið er stutt mynd og var frumsýnd í janúar 2001 í  Bíóinu í Vestmannaeyjum að viðstöddum krökkum sem komu fram í myndinni. Verður gaman fyrir þau og kannski börn þeirra að kíkja á Pysjuævintýrið á átján ára afmæli myndarinnar.

 

Verstöðin Ísland – Vestmannaeyjar (55 mín.)

Heimildamyndabálkurinn Verstöðin Ísland, kom upphaflega út í fjórum hlutum 1992, hefur verið endurunninn og er kominn í stafrænt form. Myndaflokkur sem gerður var af Erlendi Sveinssyni, Sigurði Sverri Pálssyni og Þórarni Guðnasyni.

Verstöðin Ísland var á sínum tíma langviðamesta og dýrasta heimildarmynd sem ráðist hafði verið í á Íslandi og hefur haldið þeirri stöðu allt til dagsins í dag.

Fjórði hlutinn, sem sýndur verður, er um útgerðarhætti á framleiðslutíma myndarinnar og nefnist: Ár í útgerð. Þessi myndhluti var að nær öllu leyti tekinn upp í Vestmannaeyjum árið 1988 þar sem áhafnir togarans Breka VE og vertíðarbátsins Suðureyjar eru í aðalhlutverkum ásamt útgerðarmönnum þessara skipa sem voru þeir Sigurður heitinn Einarsson, forstjóri Ísfélagsins frá 1992 en þáverandi forstjóri Hraðfrystistöðvarinnar og Hjörtur Hermannsson, framkvæmdastjóri Samtogs.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.