Samþykkt að færa fjárheimild vegna búningsaðstöðu

4.Apríl'19 | 06:49
girding_stuka

Til stendur að útbúa búningaaðstöðu ÍBV í stúkunni við Hásteinsvöll. Mynd/TMS

Beiðni ÍBV um að bæjarráð flytji fjárheimild vegna bættrar búningsaðstöðu, úr Týsheimili í stúkuna við Hásteinsvöll lá fyrir til umræðu og staðfestingar á síðasta fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja.

Þar var bókað á víxl um málið af meiri- og minnihluta.

Ekki verið að óska eftir viðbótarfjárheimild

Í bókun frá bæjarfulltrúm H- og E-lista segir:

Bæjarstjórn hitti fulltrúa frá ÍBV Íþróttafélagi þann. 26. febrúar sl. þar sem óskir félagsins um flutning fjármagns vegna bættrar aðstöðu voru ræddar og kynnti félagið ástæður breytinganna fyrir bæjarfulltrúum. Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 19. mars sl., erindi frá ÍBV um að flytja fjárveitingu sem áætluð var til framkvæmda í Týsheimilinu, til framkvæmda í stúkunni í staðinn. Ekki er verið að óska eftir viðbótarfjárheimild í fjárhagsáætlun 2019. Samþykkt bæjarráðs er með fyrirvara um að ÍBV íþróttafélag og Vestmannaeyjabær geri með sér eignaskiptasamning sem felur í sér eignarhald bæjarins á stúkunni í framtíðinni.

Bæjarráð lagði í niðurstöðu sinni áherslu á að fjölskyldu- og tómstundaráð taki í framhaldi upp framtíðarskipulag og uppbyggingu íþróttamannvirkja í Vestmannaeyjum. Ákvarðanatöku um tilflutning fjárveitingarinnar var beint í sama farveg og ákvörðunartöku um upphaflegu fjárveitinguna, þ.e. til bæjarráðs og til staðfestingar í bæjarstjórn. Ákvörðun um fjárveitingu til bættrar búningsaðstöðu í Týsheimilinu var upphaflega tekin í bæjarráði í tengslum við fjárhagsáætlun 2019 og síðar staðfest af bæjarstjórn sem hluti af fjárhagsáætlun bæjarins.

Beiðni ÍBV um tilflutning fjárveitingarinnar fylgdi sama ákvörðunartökuferli. Markmið og tilgangur framkvæmdanna er óbreyttur, þ.e. að bæta aðstöðu leikmanna, dómara og starfsliðs í tengslum við knattspyrnuleiki á Hásteinsvelli. Einu breytingarnar varða tilfærslu fjármagns vegna staðsetningar umræddrar framkvæmdar, en að engu leyti faglegan tilgang eða markmið með aðstöðunni. Því kemur ekki til kasta fjölskyldu- og tómstundaráðs að fjalla um málið. Eins og fram kemur í ákvörðun bæjarráðs er samþykktin háð því að ÍBV Íþróttafélag og Vestmannaeyjabær geri með sér eignaskiptasamning sem felur í sér að bærinn eignist stúkuna.

Vestmannaeyjabær mun því veita fjármagni til framkvæmda á eigin eign líkt og til stóð með búningsaðstöðu í Týsheimilinu. Hvað varðar skipulag íþróttamála til framtíðar lagði fjölskyldu- og tómstundaráð til á fundi sínum þann 25. mars sl., að stofnaður verði starfshópur, með aðkomu ÍBV héraðssambands, sem kemur að framtíðarsýn er varðar rekstur, uppbyggingu og aðstöðu íþróttamála í Vestmannaeyjum. Sú vinna á við um íþróttamála almennt, rekstur og framtíðarskipan þeirra til lengri tíma litið. Búast má við að sú vinna taki a.m.k. sex mánuði. Umrædd framkvæmd í stúkunni rúmast innan ríkjandi deiliskipulags um svæðið, segir í bókun meirihluta bæjarstjórnar.

Lögðu til að málinu yrði frestað þar til að málið hefur fengið eðlilega málsmeðferð í fagráðum

Tillaga frá bæjarfulltrúum D-lista. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að ákvörðun bæjarráðs um samþykki fyrir flutning fjárheimilda vegna búningsklefa í Týsheimili yfir í knattspyrnustúkuna við Hásteinsvöll verði frestað þar til að málið hefur fengið eðlilega málsmeðferð í fagráðum sveitarfélagsins, fyrir liggi kostnaðargreining m.a. á framtíðarrekstrarkostnaði stúkunnar, framkvæmdakostnaði við búningsklefa og aðrar upplýsingar sem skipta máli til að hægt sé að taka ábyrga og upplýsta ákvörðun í málinu.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum H- og E-lista gegn þremur atkvæðum D-lista.

Harma ólýðræðisleg vinnubrögð

Í bókun frá bæjarfulltrúm D-lista segir að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harmi þau ólýðræðislegu vinnubrögð sem höfð eru uppi við afgreiðslu þessa máls. Hér er tekin ákvörðun um stefnubreytingu í mannvirkjamálum sveitarfélagsins án þess að fyrir liggi stefnumótandi umræða og afstaða fagráða sveitarfélagsins í málinu. Vestmannaeyjabær á og rekur í dag Týsheimilið og er kostnaður við rekstur þess umtalsverður. Yfirtaka á stúkunni, bygging og rekstur á búningsaðstöðu þar mun auka rekstrarkostnað sveitarfélagsins.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir áhyggjum og vonbrigðum með að meirihluti H- og E- lista taki jafn rekstraríþyngjandi og stefnumótandi ákvörðun án eðlilegrar umfjöllunar í stjórnsýslu sveitarfélagsins. Hér er enn eitt dæmið um óvandaða og ólýðræðislega stjórnsýsluhætti sem virðast vera orðnir einkennandi fyrir núverandi meirihluta, segir í b+okun minnihlutans. 

Málið samþykkt

Beiðni ÍBV um að bæjarráð flytji fjárheimild vegna bættrar búningsaðstöðu, úr Týsheimili í stúkuna við Hásteinsvöll var samþykkt með fjórum atkvæðum H- og E-lista gegn tveimur atkvæðum D-lista.

Trausti Hjaltason (D-lista) sat hjá og gerði grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun: 

Ánægjulegt er að nú sé verið að fara í endurbætur á búningsklefum við Hásteinsvöll, ég er samþykkur því að fjármagn sé sett í þær endurbætur og styð þá fjárfestingu. Vonbrigði eru að fulltrúar H- og E-lista skuli ekki fara eftir hefðbundnum leiðum við afgreiðslu málsins og að málið fari í eðlilegan farveg í fagráðum bæjarins. Þess vegna sit ég hjá við afgreiðslu málsins, segir í bókun Trausta.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.