Fjárhagsleg áhrif vegna loðnubrests

Áætla á annað hundrað milljóna króna tekjuskerðingu Vestmannaeyjabæjar

19.Mars'19 | 15:59
hofn_gig

Vestmannaeyjahöfn. Gert er ráð fyrir að Vestmannaeyjahöfn verði af tekjum uppá 33 til 41 milljón króna. Ljósmynd/Gunnar Ingi

Á fundi bæjarstjórnar þann 28.febrúar sl., fól bæjarstjórn fjármálastjóra Vestmannaeyjabæjar að fara yfir fjárhagsleg áhrif yfirvofandi loðnubrests og meta hvort að forsendubrestur sé fyrir tekjuáætlun fjárhagsáætlunar aðalsjóðs og hafnarsjóðs. 

Fyrir bæjarráði í dag lá fyrir minnisblað um áhrif loðnubrests á fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar.

Gera ráð fyrir að starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækjanna tveggja verði af 620-630 milljónum

Ljóst er að loðnubresturinn hefur töluverð efnahagsleg áhrif á samfélagið í Eyjum. Fyrir utan tekjuskerðingu fyrirtækja má gera ráð fyrir að starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækjanna tveggja verði af 620-630 m.kr. launatekjum og slíkt hefur að sjálfsögðu mjög mikil efnahagsleg áhrif. Áætla má að útsvarstekjur Vestmannaeyjabæjar skerðist um rúmar 90 m.kr. og þá á eftir að taka tillit til tapaðra útsvarstekna sem tilkomnar eru vegna launatekna í afleiddri starfsemi.

Ekki liggja fyrir forsendur til að áætla slíkt tap, en 5-10 ársverk iðnaðarmanna gæti þýtt tapaðar útsvarstekjur að fjárhæð 7-14 m.kr. Auk þess má gera ráð fyrir að Vestmannaeyjahöfn verði af tekjum um 33 til 41 m.kr. Þar sem tekjur eru varlega áætlaðar í fjárhagsáætlun ársins 2019 er niðurstaða matsins á þá leið að loðnubresturinn einn og sér hafi ekki í för með sér forsendubrest á tekjuhlið fjárhagsáætlunar Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2019.

Hins vegar er ekki er svigrúm til mikið fleiri áfalla í tekjuáætlun Vestmannaeyjabæjar. Verði tekjurnar í samræmi við áætlun, í stað línulegrar hækkunar undanfarinna ára, mun það hafa töluverð áhrif á rekstur bæjarins. 

Vestmannaeyjabær, Þekkingarsetur Vestmannaeyja og fyrirtæki í sjávarútvegi munu standa fyrir opnum fundi þann 26. mars nk., þar sem farið verður yfir áhrif loðnubrests og stöðuna. 

Ofangreind bókun var samþykkt með tveimur atkvæðum H og E lista, gegn einu atkvæði D lista.

Kallar eftir hagræðingaraðgerðum í rekstri

Í bókun frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði segir að nú liggi fyrir að loðnubrestur muni verða í sjávarútvegi með tilheyrandi óvissu, einnig ber að nefna að mikil skerðing er á kvóta í humri á þessu ári. Í þessu samhengi má nefna að um þriðjungur loðnukvótans er í Vestmannaeyjum. Fjöldi kjarasamninga eru lausir, ásamt því að yfirvofandi er skerðing framlaga úr Jöfnunarsjóði upp á tugi milljóna fyrir Vestmannaeyjabæ. 

Samkvæmt minnisblaðinu er áætlað að tekjur sveitarfélagsins kunni að skerðast um allt að 145 milljónir vegna loðnubrests. Í minnisblaðinu kemur einnig fram að ekki verði horft fram hjá því að ekki sé svigrúm til frekari áfalla í tekjuáætlun Vestmannaeyjabæjar og verði tekjurnar í samræmi við áætlun í stað línulegrar hækkunar muni það hafa mikil áhrif á rekstur bæjarins. 

Þessa samantekt fjármálastjóra ber að taka alvarlega og er full ástæða til að bregðast við sem fyrst af festu og yfirvegun með aðgerðum til hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins. 

Afgreiðsla fulltrúa E- og H- lista á minnisblaðinu á þann máta að ekki sé þörf á neinum aðgerðum varðandi fjárhagsáætlun sveitarfélagsins er óábyrg. Sérstaklega í ljósi þess að rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs er nú þegar neikvæð um rúmar 32 milljónir fyrir fjármunatekjur. Sú rekstrarniðurstaða verður því í mínus 177 milljónum fyrir fjármunatekjur gangi áætlun fjármálastjóra um tekjumissi eftir. Slíkt kallar eðli málsins samkvæmt á hagræðingaraðgerðir í rekstri, segir í bókun minnihlutans.

Ber að taka tekjutapi bæjarins alvarlega

Í bókun meirihlutans segir að fulltrúar E- og H- lista treysti mati fjármálastjóra bæjarins um að ekki sé ástæða til þess að taka upp fjárhagsáætlun þar sem tekjutap sem hlýst af loðnubresti felur ekki í för með sér forsendubrest fjárhagsáætlunar.  Að sjálfsögðu ber að taka tekjutapi bæjarins alvarlega og verður náið fylgst með gangi mála í sjávarútvegi á næstu misserum.

 

Hér má sjá minnisblaðið.
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Þjóðhátíðartjald til sölu

16.Október'20

Er með til sölu þjóðhátíðartjald með innbúi. Þrír bekkir, kommóða og borð fylgir með, auk skrauts. Verð 300.000,- Nánari upplýsingar veitir Viktor í síma 845-0533.