Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs:

Finnst ráðherra ekki skilja rök okkar í málinu

5.Mars'19 | 07:36
njall_r_litil

Njáll Ragnarsson

Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs Vestmannaeyja segir að bæjarstjóri hafi komist að því fyrir helbera tilviljun að til stæði að gera breytingar á yfirstjórn Sýslumannsembættisins í Eyjum. „Við vorum ekki spurð álits áður en þessar hugmyndir voru kynntar” segir Njáll.

Sjá einnig: Nýtt innlegg ríkisins í viðkvæmar kjaraviðræður

Aðspurður segir Njáll að bæjarráð hafi hitt dómsmálaráðherra á óformlegum fundi fyrir skemmstu þar sem farið var yfir málið. „Þar lýstum við okkar áhyggjum af stöðunni. Því miður er margt sem minnir á rökin sem notuð voru þegar sjúkrahúsið okkar var sett inn í sameinaða Heilbrigðisstofnun Suðurlands og síðan þá hefur, finnst manni að minnsta kosti, þjónustan minnkað og stöðuígildum fækkað. Nú er sýslumaðurinn settur á Selfoss og því margt sem minnir á sameiningu heilbrigðisstofnunarinnar.”

Standa vörð um þau opinberu störf sem eru hér

Nú stangast á það sem ráðherra heldur fram að fjármagn sé eyrnamerkt til að ráða annan löglærðan fulltrúa til embættisins og orð setts sýslumanns. Munu bæjaryfirvöld kalla eftir svörum frá ráðherra vegna þess?

Ég hef svosum ekki lagst ítarlega yfir fjármálahliðina á málinu. Aðal atriðið er að bæjarstjórn telur mikilvægt í svona málum að horft sé til sérstöðu okkar hér í Eyjum en því miður virðist það ekki ná til ráðherra eða ráðuneytis hennar. Við viljum fyrst og fremst tryggja að þjónusta þessa embættis skerðist ekki hér í Eyjum og standa vörð um þau opinberu störf sem eru hér. Við munum að sjálfsögðu halda áfram að berjast fyrir því og eigum eftir að þrýsta á um að þjónustan sé til staðar.

Er Njáll er spurður hvort hann skilji rök ráðherra í málinu, segir hann: „Mér finnst ráðherra ekki skilja rök okkar í málinu.”

Sjá einnig: Bæjarbúar eiga ekki að upplifa neina skerta þjónustu

Teljum mikilvægt að hér sé öflugt sýslumannsembætti

Er hann er spurður um framhaldið, hvort hann telji að í byrjun næsta árs verði skipaður nýr sýslumaður í embættið, sem búsettur verði í Vestmannaeyjum, segir hann að það verði að koma í ljós. „Við munum berjast fyrir því að svo verði og sættum okkur ekki við að þeim fáu opinberu störfum sem eru hér í bæ verði fækkað enn frekar og teljum mikilvægt að hér sé öflugt sýslumannsembætti. Það hlýtur að vera okkar krafa.”

Hafa bæjarfulltrúar rætt við þingmenn kjördæmisins um málið?

Ég hef viðrað áhyggjur mínar við nokkra þingmenn kjördæmisins. Ég veit að félagar mínir í meirihlutanum hafa gert það einnig og að ég tel allir bæjarfulltrúar. Við stöndum a.m.k. saman í hagsmunabaráttu gagnvart ríkinu!

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.