Settur sýslumaður í Vestmannaeyjum:

Bæjarbúar eiga ekki að upplifa neina skerta þjónustu

3.Mars'19 | 07:45
kristin_th

Kristín Þórðardóttir

Settur sýslumaður í Vestmannaeyjum, Kristín Þórðardóttir er tekin til starfa við embættið. Ritstjóri Eyjar.net ræddi við Kristínu um fjölskyldutengsl sín til Eyja, starfið og embættið í Eyjum.

Kristín er dóttir hjónanna Ingibjargar Jóhannesdóttur og Þórðar Þórðarsonar, eða Þórðar rakara eins og hann var ávallt kallaður. Hann flutti frá Eyjum í gosinu. Kristín er búsett á Hvolsvelli og tók þátt í bæjarpólitíkinni þar áður en hún var settur sýslumaður.

Kristín sem verður fertug á árinu var skipuð sýslumaður á Suðurlandi í fyrra. Hún lauk lögfræðiprófi frá lagadeild Háskóla Íslands í júní 2006. Kristín starfaði eftir útskrift sem fulltrúi og staðgengill sýslumanns og lögreglustjóra á Hvolsvelli en frá árinu 2015 hefur hún gegnt starfi á sameinuðu embætti sýslumanns á Suðurlandi. Hún var hinsvegar settur sýslumaður á Suðurlandi frá 1. maí 2017.

Reyna að finna ný verkefni

Kristín er settur sýslumaður í Vestmannaeyjum til næstu áramóta. Aðspurð segir hún að hún kunni vel við sig í starfinu. ,,Þetta er bæði skemmtilegt og krefjandi og það er vel hægt að vera skapandi í þessu starfi”. Þegar talið berst að embættinu hér segir hún að það sé alveg ljóst að ekki sé verið að fara að skerða þjónustuna við þegnana á nokkurn hátt.

,,Ég horfi til þess að reyna að finna ný verkefni sem hægt sé að vinna hér. Þá horfum við til rafrænnar stjórnsýslu og innleiðingar hennar á embættunum í auknum mæli.

Ekki fjárheimildir til að ráða annan lögfræðing til embættisins

Kristín mun koma til Eyja þegar þörf er á og að jafnaði einu sinni í mánuði. Eftir að Lára Huld fráfarandi sýslumaður fór, er aðeins einn lögfræðingur eftir við embættið í Eyjum. Kristín svarar því til að auk hennar starfi á embættinu á Suðurlandi fjórir löglærðir fulltrúar, sem möguleiki sé á að samnýta sé um mikið álag að ræða. Því sé í raun um breiðara bakland að ræða fyrir fulltrúann í Eyjum.

Aðspurð segir Kristín varðandi hvort ekki sé eðlilegt að þar sem hún hafi ekki fasta búsetu hér að ráðinn yrði annar fulltrúi segir hún að til þess að hægt væri að réttlæta það þyrftu að koma til ný verkefni sem fjármagn fylgdi. Hún segir enn fremur að hún hafi ekki fjárheimildir til að ráða annan lögfræðing til embættisins miðað við óbreytta stöðu.

Settur sýslumaður fær hálf laun sýslumanns

Hún segist finna fyrir miklum áhuga Eyjamanna á embættinu og fagnar því. Hyggjast þeir leggjast á árarnar og koma með hugmyndir að nýjum verkefnum. ,,Það er alltaf gott að fá ábendingar og málefnalegan stuðning”.

Nú hefur fækkun embætta verið nokkuð í umræðunni. Kristín segir að þegar verið sé að tala um það verði að horfa á hvern stað fyrir sig og verkefnastöðu. Hún telur til að mynda að ekki sé hyggilegt að fækka embættum um of. Það gæti að hennar mati leitt til fjölgunar millistjórnenda og efast hún um að það verði hagræði af því þegar uppi er staðið.

Er Kristín er spurð um hvort að það muni hafa áhrif á hennar launakjör að bæta við sig embættinu í Eyjum segir hún að vissulega geri það það. ,,Settur sýslumaður fær hálf laun sýslumanns.” segir hún.

Hefur miklar taugar til Eyja

Nú kemur Kristín úr pólitíkinni. En er hún alveg hætt á þeim vettvangi? ”Sveitastjórnarmál hafa lengi verið mér hugleikin og ég sat í sveitarstjórn í tæp tvö kjörtímabil í Rangárþingi eystra. Það var mikil og góð reynsla, ekki síst í mannlegum samskiptum, að komast að niðurstöðu í erfiðum málum og fá breiða yfirsýn yfir stór og flókin málefni. Öll þessi reynsla nýtist mér afar vel í starfi mínu núna og hefur ekkert að gera með pólitík, sem má aldrei þvælast inn í störf sýslumanns. Embættið verður fullkomlega að vera hafið yfir slíkt, enda fyrst og fremst þjónustustofnun á jafnræðisgrunni fyrir einstaklinga og fyrirtæki í samfélaginu” segir Kristín.

Kristín vill að endingu ítreka það að bæjarbúar eiga ekki að upplifa neina skerta þjónustu hjá embættinu.. Hún hefur miklar taugar til Eyja og vill að embættið leggi sitt af mörkum við að styrkja samfélagið.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%