Ferðaþjónustan og skoska leiðin

15.Febrúar'19 | 05:35
ernir_vestmannaeyjaflugvollur

Vestmannaeyjaflugvöllur. Ljósmynd/TMS

„Á meðan öll athygli okkar Eyjamanna hefur verið á Herjólfi og Landeyjahöfn síðustu ár þá eru tölurnar sláandi hvað varðar minni flugumferð til Eyja.” segir Berglind Sigmarsdóttir, formaður Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja í samtali við Eyjar.net.

„Á árunum 2003-2009 var meðalfjöldi flugfarþega til Eyja 74.980 á ári, þegar Landeyjahöfn kemur til sögunnar hætti ríkið að niðurgreiða flugið og þessar tölur hrynja niður í um 19.000 farþega á ári. Þetta er gríðarlegur munur. Það má líka geta þess að farþegafjöldi fór vaxandi um 1% á milli ára alveg til 2010 og því getur maður alveg séð það fyrir sér að ef þessi niðurgreiðsla hefði ekki verið tekin af hefði farþegum fjölgað áfram, svo ég tali nú ekki um ferðapsrengjuna sem kemur aðeins síðar.” segir Berglind.

Ferðamaðurinn stendur ennþá frammi fyrir of háu flugfargjaldi

Á dögunum fundaði Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins hér í Eyjum og var yfirskrift fundarins „Uppbygging flugvallakerfis og efling innanlandsflugs”. Þar var m.a farið yfir útfærsluna á skosku leiðinni svokölluðu.

Berglind segir að skoska leiðin sé góð leið til þess að koma til móts við íbúa í jaðarbyggð með 50% afslætti, en það á við 4 ferðir fram og til baka, samtals 8 flugleggi á mann. „En athugið, þetta virkar bara aðra leið, það er að segja fyrir landsbyggðarfólk til höfuðborgarsvæðisins, ekki öfugt. Margir eru að nýta svipaða afslætti í gegnum stéttarfélögin sín svo ég veit ekki hversu mikil bylting þetta verður en a.m.k ekki mikil bót eða breyting fyrir ferðaþjónustuna þar sem ferðamaðurinn stendur ennþá frammi fyrir of háu flugfargjaldi, jafnvel hærra en það sem að hann borgaði til að koma í millilandaflugi til landsins.”

Væri frábært ef skoska leiðin virkaði í báðar áttir

Hún segir ennfremur að ef Eyjamenn fara að nýta sér flugið meira við þetta, gæti það haft einhver góð áhrif á að við fengjum fleiri ferðir og stærri vélar og þá kannski ýtt undir að einhverjir ferðamenn komi. „Þó svo að þakka megi fyrir viðleitnina varðandi skosku leiðina þá því miður er það mín skoðun að þetta sé ekki að fara að gera það sama fyrir okkur og niðurgreiðslan var hér áður. Það hefur verið margumrætt í ferðaþjónustunni að það sé mikilvægt að fá ferðamanninn meira útá landsbyggðina þar sem langstærsti hluti ferðamanna er aðeins á höfuðborgarsvæðinu og svo rétt að Gullna hringnum og til baka.

Þessi leið myndi aðeins auka á umferð til höfuðborgarinnar þar sem landsbyggðarfólk færi þá meira til Reykjavíkur en það væri svo frábært ef skoska leiðin virkaði í báðar áttir og við fengjum þá höfuðborgarbúa til þess að fara meira útá land eða að allt flug á milli yrði niðurgreitt eins og áður, þá værum við að tala um veruleg bót fyrir landsbyggðina þar sem við öll vitum um jákvæð áhrif þess fyrir bæjarfélög að fá ferðamenn í heimsókn.”

 

 

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.