Ekki heimilt að gefa skýrslu í gegnum síma

13.Febrúar'19 | 15:52
vestm_kona_logr

Mynd/samsett

Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Suðurlands þess efnis að konu sem varð fyrir grófri líkamsárás í Vestmannaeyjum árið 2016 sé ekki heimilt að veita skýrslu í gegnum síma við aðalmeðferð. 

Konan glímir við andleg veikindi og dvelur nú erlendis. Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, segir fá úrræði í boði þegar brotaþoli sem ekki vill mæta fyrir dóm er í útlöndum. Aðalmeðferð málsins sem átti að hefjast í dag hefur verið frestað til 13. mars, segir í frétt á fréttavef RÚV.
 

Sóknaraðili vísaði dómi Héraðsdóms til Landsréttar þar sem þess var krafist að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi og fallist yrði á kröfu þess efnis að skýrsla yrði tekin af konunni í gegnum síma. Ákærði lagðist gegn því. Í dómnum segir að úrslit málsins geti ráðist af framburði konunnar og telur dómurinn þar með ekki efni til að gera undantekningu á meginreglu um milliliðalausa sönnunarfærslu. Því sé ekki fallist á kröfu sóknaraðila þess efnis að konunni verði gert heimilt að gera skýrslu í gegnum síma við aðalmeðferð málsins. 

Fannst köld og meðvitundarlítil í húsgarði í Vestmannaeyjum

Forsaga málsins er sú að konan fannst í húsgarði í Vestmannaeyjum 17. september 2016. Konan var flutt þungt haldin á Landspítalann í Fossvogi. Maður á þrítugsaldri var handtekinn skömmu síðar grunaður um að hafa beitt konuna hrottalegu ofbeldi. Á hann að hafa kýlt hana í andlitið við skemmtistaðinn Lundann þannig að hún féll við. Skömmu síðar hafi hann veist að konunni með ítrekuðum höggum og spörkum í andlit og búk, klætt hana úr öllum fötum og því næst yfirgefið hana þar sem hún lá nakin, mikið slösuð og án bjargar í götunni. Konan hlaut margvíslega áverka í andliti og aftan á hnakka, sár víðar á líkamanum og ofkælingu. 

Maðurinn er meðal annars ákærður fyrir brot á 2. málsgrein 218. greinar almennra hegningarlaga, þar sem kveðið er á um allt að sextán ára fangelsi við líkamsárás. Hann er líka ákærður fyrir blygðunarsemisbrot og að hafa komið konunni í það ástand að hún var án bjargar og fyrir að yfirgefa hana í því ástandi. Við því liggur allt að átta ára fangelsi.

Fréttir af árásinni vöktu mikinn óhug. Konan var meðvitundarlítil þegar hún fannst og svo köld að lögregla taldi að hefði hún ekki fengið aðstoð hefði hún getað látist. Hún var svo bólgin í andliti að hún gat ekki opnað augun. Fyrst þegar málið kom upp greindu fjölmiðlar frá því að maðurinn hefði verið grunaður um nauðgun. Hann er hins vegar ekki ákærður fyrir það.

Konan krefst átta milljóna króna í miskabætur auk vaxta og að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Maðurinn játar að hafa slegið konuna svo hún féll en neitar öðrum sökum. Ákæran gegn manninum var þingfest í Héraðsdómi Suðurlands í september á síðasta ári.

Konan fór úr landi fljótlega eftir að hún varð fyrir árásinni og hefur dvalið þar síðan. Fréttastofa hefur áður greint frá því að lögreglu hefur reynst erfitt að ná tali af konunni en lögreglumenn fóru utan til að taka af henni skýrslu. 

Greinir á um hvort úrslit ráðist af framburði konunnar

Í dómi Héraðsdóms kemur fram að við skýrslugjöf hjá lögreglu hafi konan ekki sagt annað um árásarmann sinn en að hann hafi verið dökkhærður karlmaður. Hún hafi sagst muna eftir tveimur höggum og muni síðan ekkert fyrr en hún vaknar á gjörgæsludeild í Reykjavík. Þá hafi hún ekki munað hvernig hún hafi farið úr fötunum. Þá sé það mat dómkvadds matsmanns að vegna ómeðhöndlaðs og alvarlegs geðsjúkdóms sé brotaþoli ekki hæf til að gefa skýrslu fyrir dómi. Samkvæmt því sé það mat sóknaraðila að framburður konunnar, sem segist ekkert muna, geti ekki verið slík þungamiðja málsins að úrslit geti ráðist af framburði hennar. Þá yrði það konunni þungbært að koma til landsins og gefa skýrslu fyrir dómi vegna andlegra veikinda. 

Ákærði vísar til þess að ekki sé hægt að fullyrða að vitni sem eigi að etja við persónuleikabresti geti ekki gefið skýrslu fyrir dómi þannig að það geti haft áhrif á niðurstöðu máls. Erfitt sé fyrir dómara að leggja mat á framburð sem ekki er gefinn í eigin persónu. Fyrir liggja skýrslur af nokkrum vitnum en ekkert þeirra ber að hafa séð atburðina sem maðurinn neitar sök fyrir. Þá liggja ekki fyrir neinar upptökur úr eftirlitsmyndavélum sem sýna þá atburði. Ákærði telur því líklegt að niðurstaða málsins geti ráðist af munnlegum framburði konunnar fyrir dómi. 

Fá úrræði í boði

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, segist ekki geta tjáð sig um þetta tiltekna mál en almennt sé erfitt að fá fólk fyrir dóm ef það er ekki statt á landinu. Einnig þurfi alltaf að meta hve hart er gengið að brotaþola í viðkvæmum málum sem þessum. Fá úrræði séu í boði ef vitni eða brotaþolar sem ekki vilja mæta fyrir dóm eru staddir erlendis. Fordæmi er fyrir svipuðu máli en ákæra þar hafi verið afturkölluð. 

Kolbrún segir að öllum íslenskum ríkisborgurum sem hafa náð 15 árum í aldri og lúta íslenskri lögsögu beri skylda til að koma og gefa skýrslu, sé viðkomandi aðili aftur á móti staddur erlendis flækjast málin. Í þessu tiltekna máli meti saksóknari málin og taki ákvörðun um framhaldið. Hugsanlegt sé að niðurstaðan verði sú að ekki verði tekin skýrsla af konunni en önnur úrræði séu þó möguleg. 

„Við getum verið með ótímabundna handtökuheimild á fólk, þ.e. ef það kemur til landsins er það handtekið og fært fyrir dóminn en þetta er almennt úrræði. Við höfum ekki forræði yfir fólki sem er statt erlendis. Einu heimildirnar sem við höfum til að óska eftir framsali er þegar fólk er grunað fyrir glæp. Við höfum því voða fá úrræði til þess að grípa til,“ segir Kolbrún. 

Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, fulltrúi ákæruvaldsins, segir að nú verði konunni gerð grein fyrir stöðu mála. Óljóst sé hvort konan komi til landsins eða ekki. Ef hún kýs að koma ekki verði málinu lokið án hennar aðkomu. Þá segist Dagmar ekki geta gefið upplýsingar um það hvort hægt sé að skylda konuna til að gefa skýrslu. „Þinghald málsins er lokað og lítið hægt að veita upplýsingar um þetta mál,“ bætir hún við. 

Aðalmeðferð málsins átti að hefjast í dag en hefur verið frestað til 13. mars. 

 

ruv.is

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).