Fyrsta mjaldraverndarsvæði heims í Eyjum

10.Febrúar'19 | 21:37
klettsvi

Little Grey og Little White fara út í Klettsvík í byrjun sumars. Ljósmynd/TMS

Fyrsta mjaldraverndarsvæði heims verður að veruleika í Vestmannaeyjum í vor. Undirbúningur komu tveggja mjaldrasystra frá Kína er langt kominn. Framkvæmdir við risastóra hvalalaug eiga að klárast í lok mars. Vonir standa til að fleiri mjöldrum verði bjargað úr ómannúðlegum aðstæðum, en það er pláss fyrir 12 hvali í kvínni.

Veiddar ungar við Rússland

Árið 2016 spurðu forsvarsmenn Merlin Entertainment, næststærsta afþreyingarfyrirtækis heims, yfirvöld í Vestmannaeyjum hvort vilji væri til að taka á móti mjöldrum úr kínversku sædýrasafni, og leyfa þeim að búa í Klettsvík, þar sem Keikó heitinn dvaldi. Merlin rekur meðal annars Legoland og vaxmyndasöfn Madame Tussaud og er í samstarfi við góðgerðarsamtökin Sea Life Trust, sem bjarga mjöldrum úr óviðunandi aðstæðum. Eyjamenn sögðu já. 

„Þær voru veiddar við Rússland fyrir mörgum árum og síðan sendar í sædýrasafnið í Kína,” segir Michel Torres, framkvæmdastjóri Sea Life Trust Beluga Whale Sanctuary. Rúv.is greindi frá.

Risastór einkalaug

Little Grey og Little White eru nærri tonn að þyngd og um fjórir og hálfrir metrar að lengd. Þær eru systur, rúmlega 11 ára gamlar og geta orðið fimmtíu ára í góðum aðstæðum. Í apríl verður þeim flogið í 35 klukkutíma til Keflavíkur, fluttar í Herjólf og þaðan til Vestmannaeyja. Þær verða í fjórar vikur í sóttkví í glænýrri, risastórri einkalaug. 

„Svo fara þær út í Klettsvík. En þessi laug þarf alltaf að vera til staðar, ef það verður mjög vont veður eða þeir verða veikir eða eitthvað slíkt,” segir Páll Marvin Jónsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja. 

Einnig verður fiskasafn á staðnum og lundaathvarf, en mjaldralaugin er langstærsta framkvæmdin og kostar hátt í tvo milljarða króna. Hún er á stærð við þrjár meðalstórar sundlaugar, og það á að fylla hana af sjó í mars.  

„Það er ýmislegt eftir. En það eru margar hendur að vinna hérna af krafti.”

Miklar félagsverur og háðar þjálfurum sínum

Mjaldrar eru miklar félagsverur og eru systurnar mjög háðar þjálfurum sínum, sem fylgja þeim frá Kína og verða með þeim í eitt ár. Páll segir að Íslendingar, vonandi heimamenn, fái þjálfun í að sjá um mjaldrana og geta síðan tekið við. 

„Þetta er í fyrsta sinn sem við opnum sérstakt mjaldraathvarf. Og Vestmannaeyjar eru fullkominn staður. Þetta var það besta sem við gátum gert fyrir þá,” segir Torres.  

Vilja bjarga fleiri mjöldrum til Eyja

Talið er að um 300 mjaldrar séu í haldi um allan heim við mjög misjafnar aðstæður. Og forsvarsmenn verkefnisins hér í Vestmannaeyjum vonast til þess að það sýni einhvers konar fordæmisgildi, en það er pláss fyrir 12 mjaldra í kvínni eins og hún er núna og það er hægt að stækka hana enn meira og þá komast enn fleiri hvalir fyrir.

„Í víkinni munu þessi dýr kynnast nýjum félögum. Kröbbum, þorski og fiskum. Um daginn var til dæmis allt fullt af sel þarna í Klettsvíkinni,” segir Páll. 

 

Ruv.is

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).