Vestmannaeyjabær:

Niðurstaða loks komin um fyrirkomulag afsláttar til handa elli- og örorkulífeyrisþegum á fasteignaskatti

og öðrum fasteignagjöldum

20.Desember'18 | 16:44
Eyjar 1

Vestmannaeyjar. Ljósmynd/Gunnar Ingi

Í fundi bæjarráðs Vestmannaeyja í dag var lagt fram minnisblað um breytt fyrirkomulag afsláttar til handa elli- og örorkulífeyrisþegum á fasteignaskatti og öðrum fasteignagjöldum. 

Ráðuneytið beindi því til bæjarstjórnar að breyta fyrirkomulaginu

Bæjarráð ákvað á fundi sínum þann 17. október sl., að fela framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að móta tillögu um breytingu á reglum um afslátt af fasteignaskatti hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum hjá Vestmannaeyjabæ, þannig að þær komi til móts við örorku- og ellilífeyrisþega eins og unnt er (m.a. í gegnum viðmiðunartekjur) innan þeirra heimilda sem kveðið er á um í lögum um tekjustofna sveitarfélaga (m.a. að slíkur afsláttur nái til 67 ára og eldri, en ekki eingöngu 70 ára og eldri).

Ákvörðun bæjarráðs þessa efnis er komin til af áliti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, sem barst Vestmannaeyjabæ þann 15. október sl., þar sem bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa, að mati ráðuneytisins allt frá árinu 2012, tekið tvær samhliða en ósamrýmanlegar ákvarðanir um afslátt og niðurfellingu fasteignaskatts. Annars vegar samþykkt reglur um lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða sem samræmst hafa 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995. Hins vegar almenna niðurfellingu fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði í eigu íbúa sveitarfélagsins 70 ára og eldri sem ekki rúmast innan lagaheimildanna. Ráðuneytið beindi því til bæjarstjórnar að breyta fyrirkomulaginu með þeim hætti að afslátturinn rúmist innan lagaheimilda. 

Tillagan felur í sér að bæjarráð samþykki þrjár sjálfstæðar ákvarðanir um breytt fyrirkomulag

Minnisblaðið sem lagt var fram á bæjarráðsfundinum í dag inniheldur tillögu um breytt fyrirkomulag á afslætti til handa elli- og örorkulífeyrisþega til samræmis við fyrrgreinda ákvörðun bæjarráðs. Tillagan felur í sér að bæjarráð samþykki þrjár sjálfstæðar ákvarðanir um breytt fyrirkomulag.

  • Í fyrsta lagi að viðmiðunartekjur einstaklinga hækki úr tæpum 4,4 m.kr. í 5,5 m.kr. fyrir fullan afslátt og afsláttur lækki í þrepum eftir hækkun tekna upp í 6,0 m.kr. Fyrir hjón hækki viðmiðunartekjur úr tæpum 5,7 m.kr. í 7,5 m.kr. fyrir fullan afslátt sem lækkar í þrepum eftir hækkun tekna upp í 8,5 m.kr. Með þessu móti gefst fleiri elli- og örorkulífeyrisþegum kostur á afslætti en verið hefur.
  • Í öðru lagi er lagt til að sérstök ákvörðun um afslátt íbúðareigenda 70 ára og eldri af niðurfellingu fasteignaskatts verði ekki endurnýjuð fyrir árið 2019. Með þessu eru virt ákvæði laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, sem nær einungis til afsláttar af fasteignaskatti tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega.
  • Í þriðja lagi er lagt til að samþykkt verði ný ákvörðun um flatan 85% afslátt af sorpeyðingargjöldum og lóðaleigugjaldi til handa öllum þeim sem náð hafa ellilífeyrisaldri 67 ára og eldri. Ekki er gert ráð fyrir að fráveitugjald verði lækkað með þessum hætti þar sem í lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 er að finna ákvæði að einungis sé heimilt að veita tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum afslátt af fráveitugjaldi, sambærilegt við ákvæði laga um tekjustofna sveitarfélaga um fasteignaskatt. 

Jafnframt var lögð fram tillaga að breytingum á "Reglum um afslátt af fasteignagjöldum hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum með lögheimili í Vestmannaeyjum", sem m.a. inniheldur hækkun viðmiðunartekna sbr. fyrrgreinda tillögu.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokks á móti ákvörðununum

Í niðurstöðu ráðsins segir að bæjarráð samþykki eftirfarandi þrjár ákvarðanir: 

  1. Viðmiðunartekjur einstaklinga verði 5,5 m.kr. fyrir fullan afslátt og afsláttur lækki í þrepum eftir hækkun tekna upp í 6,0 m.kr. Fyrir hjón nemi viðmiðunartekjur 7,5 m.kr. fyrir fullan afslátt sem lækkar í þrepum eftir hækkun tekna upp í 8,5 m.kr. 
  2. Ákvörðun um afslátt íbúðareigenda 70 ára og eldri af niðurfellingu fasteignaskatts verði ekki endurnýjuð fyrir árið 2019. 
  3. Veittur verði flatur 85% afsláttur af sorpeyðingargjöldum og lóðaleigugjaldi til handa öllum þeim sem náð hafa ellilífeyrisaldri 67 ára og eldri. 


Jafnframt samþykkir bæjarráð framlagða tillögu að breytingum á reglum um afslátt af fasteignagjöldum hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum með lögheimili í Vestmannaeyjum, sem m.a. inniheldur viðmiðunarfjárhæðir sbr. 1. tl. hér að ofan. 

Samþykkt með tveimur atkvæðum H- og E-lista gegn einu atkvæði D-lista. 
 

Ráðuneytið er ekki dómstóll

Í bókun frá Trausta Hjaltasyni segir að fulltrúi Sjálfstæðisflokks harmi að verið sé að falla frá fyrri ákvörðun D og E lista að fella niður fasteignaskatt á alla 70 ára og eldri. Til að setja þetta í samhengi þá þýðir þetta að hjón sem eru bæði með tekjur uppá 355.000 kr. fyrir skatt ca. 277.700 kr. eftir skatt, fá enga niðurfellingu á fasteignaskatti í stað þess að hafa fengið fulla niðurfellingu áður. Þetta getur verið fjárhæð uppá um ein mánaðarlaun á ári sem viðkomandi hjón þurfa nú að greiða vegna þessara aðgerða H og E lista. 70 ára einstaklingur sem býr einn og er með um 370.000 kr. eftir skatt í tekjur greiðir nú fullan fasteignaskatt í stað fullrar niðurfellingar áður. Þetta eru fjárhæðir sem geta skipt sköpum á efri árum. Samkvæmt minnisblaðinum sem lagt er fram eru nú 109 aðilar sem fá ekki fulla niðurfellingu fasteignaskatts líkt og áður. Hér er verið að beygja sig undir hótanir ráðuneytis í staðin fyrir að láta reyna á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga fyrir dómstólum. Ráðuneytið er ekki dómstóll.

Að veita afslátt af sorpeyðingargjaldi og öðrum gjaldskrám í staðinn bitnar á öðrum íbúum til framtíðar. Samkvæmt lögum á sorpeyðingargjaldið að nægja fyrir öllum kostnaði við förgun úrgangs. Að fella gjaldið niður á hluta hópsins bitnar því eðlilega á öðrum sem greiða gjaldið að fullu. Þetta átti ekki við um fasteignaskattinn sem var ekki gjald heldur skattur, segir í bókun minnihlutans. 

Fagna því að hægt sé að koma til móts við fleiri eldri borgara

Í bókun meirihlutans segir að fulltrúar E- og H- lista fagni því að hægt sé að koma á móts við eldri borgara 67 ára og eldri með því að veita afslátt af fasteignagjöldum með löglegum hætti. Afslátturinn nýtist nú 384 aðilum en hefði með því fyrirkomulagi sem var í gildi nýst 308 aðilum. Það hljóta allir kjörnir fulltrúar að fagna því að hægt sé að koma til móts við fleiri eldri borgara og létta undir með þeim, segir í bókun Njáls Ragnarssonar og Jónu Sigríðar Guðmundsdóttur. 

Virðist eingöngu sett fram til að koma til móts við andstöðu Sjálfstæðisflokksins

Trausti Hjaltason bókaði að þessi gjörningur virðist vera settur fram eingöngu til að koma til móts við andstöðu Sjálfstæðisflokksins við þá aðgerð E- og H-lista að hætta að fella niður fasteignaskatt á 70 ára og eldri. 

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).