Fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar samþykkt samhljóða

11.Desember'18 | 05:10
baejarf_d

Frá fundi bæjarstjórnar. Ljósmynd/TMS

Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja fyrir helgi fór fram síðari umræða um fjárhagsáætlun næsta árs. Íris Róbertsdóttir gerði grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa á fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar 2019 frá fyrri umræðu. 

Bæði minni- og meirihlutinn bókuðu í tengslum við afgreiðslu á áætluninni,

Gripið til margháttaðra aðgerða til að bæta þjónustu við unga jafnt sem aldna

Í bókun frá bæjarfulltrúm E-lista og H-lista segir að vel rekið sveitarfélag sýni ábyrga fjármálastjórn og veiti íbúum eins góða og skilvirka þjónustu og kostur er fyrir þá fjármuni sem eru til ráðstöfunar á hverjum tíma. Jafnframt er þess gætt að stilla álögum á gjaldendur í hóf. Eins og fram kom í framsögu bæjarstjóra við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun lögðu fulltrúar E og H lista til að hlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði verði lækkað úr 0,35 í 0,33. Þetta er gert til að mæta þeim hækkunum sem orðið hafa á fasteignamati íbúðarhúsnæðis milli 2018 og 2019 þannig að álögur á gjaldendur hækki ekki á milli ára.

Í fjárhagsáætlun er sömuleiðis gripið til margháttaðra aðgerða til að bæta þjónustu við unga jafnt sem aldna í sveitarfélaginu. Má þar nefna hækkun á aldursviðmiði frístundastyrks í 18 ár; aukið fjármagn í stoðþjónustu leik- og grunnskóla; heilsueflingu eldri borgara; bætta akstursþjónustu fatlaðra; lengdan opnunartíma sundlaugar og útisvæðis; aukna áherslu á æskulýðs- og íþróttastarf m.a. með nýju stöðugildi og svona mætti áfram telja. Allt þetta miðar að því að bæta lífsgæði og auka ánægju þeirra sem hér búa og að nýta tekjur sveitarfélagsins á ábyrgan hátt til þjónustu við bæjarbúa. 

Lögðu til að áfram verði felldur niður fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði hjá ellilífeyrisþegum 70 ára og eldri

Tillaga kom fram frá bæjarfulltrúum D-lista um niðurfellingu fasteignaskatts á íbúðarhúsnæðihjá ellilífeyisþegum 70 ára og eldri. Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að áfram verði felldur niður fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði hjá ellilífeyrisþegum 70 ára og eldri líkt og gert hefur verið undanfarin ár. Niðurfellingin nær til alls fasteignaskatts en sem fyrr verða áfram greidd þjónustugjöld af eignunum. Ekki verður þörf á að sækja um niðurfellinguna heldur kemur hún sjálfvirkt inn við álagningu. Í samræmi við vilja hagsmunasamtaka eldri borgara fer Vestmannaeyjabær ofangreinda leið með það að markmiði að auðvelda eldri borgurum að búa sem lengst í eigin húsnæði. Þá er með þessu einnig reynt að mæta að hluta þeirri tekjuskerðingu sem eldri borgarar verða fyrir við starfslok. Það er mat Sjálfstæðisflokksins að í þessu sé bæði falin mannvirðing og aukið valfrelsi í húsnæðismálum auk ákveðinnar hagræðingar þar sem aðgerðin dregur úr þörf fyrir önnur mjög kostnaðarfrek húsnæðisúrræði.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum bæjarfulltrúum H-lista og E-lista gegn þremur atkvæðum bæjarfulltrúum D-lista. 

Leitað verði leiða til að veita afslátt sem nýtast öllum eldri borgurum 67 ára og eldri með löglegum hætti

Bæjarfulltrúar meirihluta ítreka fyrri bókanir sínu um þetta mál úr bæjarráði og bæjarstjórn og vill að sveitarfélagið fari ávallt að lögum um afslátt af skattheimtu. Leitað verði leiða til að veita afslátt sem nýtast öllum eldri borgurum 67 ára og eldri með löglegum hætti. Sú vinna er í gangi hjá starfsmönnum Vestmannaeyjabæjar, segir í bókun fulltrúa E- og H-lista.

Falla frá áralangri hefð

Í bókun frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins segir að þeir harmi að tillaga þeirra um niðurfellingu fasteignagjalda á eldriborgara hafi verið felld og auka eigi álögur á eldri borgara samkvæmt fjárhagsáætlun þar sem meirihluti H- og E- lista hefur einhliða fallið frá áralangri hefð niðurfellingu fasteignagjalda á íbúa 70 ára og eldri. 

Þá segir í annari bókun minnihlutans að ábyrg fjármálastjórnun hafi verið aðalsmerki Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum og er að mati bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins án efa forsenda að framþróun og vexti samfélagsins. Skynsamar ákvarðanir m.a. við sölu á hlut bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja, uppgreiðslu erlendra lána og sífelldu aðhaldi í rekstri hafa skapað forsendur til möguleika á bættri þjónustu, að draga úr álögum á íbúa og stofna til nýframkvæmda sem eru til þess fallnar að bæta aðstöðu og upplifun íbúa og gesta Vestmannaeyjabæjar. Mikil óvissa ríkir um þjóðarbúskapinn fyrir árið 2019. Hagstofa Íslands hefur uppfært verðbólguspá sína úr 2,9% í 3,6% og er það í takt við spár greiningardeilda bankanna. Að auki gætir töluverðrar óvissu í sjávarútvegi, grunnatvinnuvegi samfélagsins sem getur haft gríðarleg áhrif á tekjur sveitarsjóðs.

Mikill titringur er á hinum almenna vinnumarkaði og óljóst hvernig það mun hafa áhrif á samninga við opinbera starfsmenn í framhaldinu. Dæmin sanna jafnframt að það getur tekið skamman tíma að snúa hagfelldri rekstrarlegri stöðu bæjarfélags við og þurrausa sjóði þess og því ítreka bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mikilvægi þess að stíga varlega til jarðar og að við upptöku nýrra stöðugilda og aukningu útgjalda séu fundnar hagræðingarleiðir á móti til að koma í veg fyrir þenslu og útgjaldaaukningu samfélagsins sem að endingu er tekin beint úr vösum skattgreiðenda. 

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að tillögur þeirra

 1. Lækkun fasteignaskatts
 2. Skoðun á fýsileika við stækkun Hamarsskóla
 3. Að frístundastyrkur verði veittur til 18 ára aldurs hafi náð fram að ganga og að mörg þau góðu verk sem Sjálfstæðisflokkurinn í góðu samstarfi við Eyjalistann kom á laggirnar á síðasta kjörtímabili fái áfram að dafna. 

 

Elís Jónsson forseti bæjarstjórnar bar upp lykiltölur í fjárhagsáætlun ársins 2019:

Fjárhagsáætlun sveitarsjóðs Vestmannaeyja 2019:

 • Tekjur alls: 3.984.814.000
 • Gjöld alls fyrir fjármagnsliði: 4.017.022.000
 • Rekstrarniðurstaða, jákvæð: 76.729.000
 • Veltufé frá rekstri: 545.591.000
 • Afborganir langtímalána: 25.177.000
 • Handbært fé í árslok: 548.110.000

Fjárhagsáætlun B-hluta bæjarsjóðs Vestmannaeyja 2019:

 • Rekstarniðurstaða Hafnasjóðs, jákvæð: 54.672.000
 • Rekstrarniðurstaða Fráveitu, jákvæð: 31.417.000
 • Rekstarniðurstaða Félagslegra íbúða: 0
 • Rekstarniðurstaða Vatnsveitu: 0
 • Rekstrarniðurstaða Hraunbúða: 0
 • Rekstarniðustaða Vetm.ferj. Herjólfs ofh: 26.472.000
 • Veltufé frá rekstri: 235.207.000
 • Afborganir langtímalána: 30.179.000

Fjárhagsáætlun samstæðu Vestmannaeyja 2019:

 • Tekjur alls: 6.282.826.000
 • Gjöld alls: 6.190.717.000
 • Rekstarniðurstaða, jákvæð: 189.290.000
 • Veltufé frá rekstri: 780.798.000
 • Afborganir langtímalána: 55.356.000
 • Handbærtfé í árslok: 548.110.000

 

Fjárhagsáætlun 2019 var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%