Hugleiðingar ritstjóra

Ákvarðanir stjórnar Herjólfs ohf. þurfa að endurspegla vilja eigandans

- annars væri um trúnaðarbrest að ræða og eðlilegt undir slíkum kringumstæðum að stjórn eða einstakir stjórnarmenn segi af sér störfum

6.Desember'18 | 11:02
herj_nyr_cr_sa_c

Tölvugerð mynd af nýrri Vestmannaeyjaferju.

Síðustu vikur hafa bæjaryfirvöld unnið að eigendastefnu fyrir nýstofnað hlutafélag Vestmannaeyjabæjar. Félagið ber nafnið Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf.

Enginn hreyfði andmælum í bæjarráði áður en stefnan var samþykkt

Þann 1. nóvember var eftirfarandi bókað um málið í bæjarráði:

„Drög að eigendastefnu fyrir Vestmannaeyjaferjuna Herjólf ohf. voru kynnt og rædd. Unnið verður að því að ljúka við gerð eigendastefnunnar milli funda og hún lögð fyrir næsta reglulega bæjarráðsfund til samþykktar.”

Enginn hreyfði andmælum í ráðinu. Á næsta fundi á eftir var eftirfarandi bókað um málið:

„Á fundi bæjarráðs sem haldinn var þann 1. nóvember sl., var ákveðið að ljúka við gerð eigendastefnu fyrir Vestmannaeyjaferjuna Herjólf ohf. milli funda og hún lögð fyrir næsta bæjarráðsfund til samþykktar.

Niðurstaða

Eigendastefna Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. rædd og samþykkt í bæjarráði.”

Enginn hreyfði andmælum heldur á þessum fundi sem haldinn var 20. nóvember. Á fundi bæjarráðs í gær varð hins vegar viðsnúningur hjá fulltrúa minnihlutans í ráðinu, og vísar hann þar til bréfs sem stjórnarformaður Herjólfs ohf. sendir fyrir hönd stjórnar til bæjarráðs og er dagsett 26. nóvember 2018.

Eyjar.net hefur umrætt bréf undir höndum og fer ritstjóri nú efnislega yfir það lið fyrir lið eins og það blasir við honum.

1.

Stjórn Herjólfs ohf. gerir athugasemdir og er ekki alveg ljóst hvernig eigandinn kemur að ákvarðanatöku um einstök málefni félagsins utan hluthafafunda.

Það er hins vegar augljóst að með framangreindri yfirlýsingu er eigandinn að benda á ábyrgð sína sem eiganda félagsins. Stjórn Herjólf ohf. hlýtur að vera það ljóst að ætlast er til þess að ákvarðanir stjórnar Herjólfs ohf. endurspegli vilja eigandans hverju sinni. Annars væri um trúnaðarbrest að ræða og eðlilegt undir slíkum kringumstæðum að stjórn eða einstakir stjórnarmenn segi af sér störfum. Framangreint atriði fjallar ekkert um stjórnunar- og ákvörðunarvald stjórnar skv. hlutafélagalögum og því óþarfi að vísa til þess.

 

2.

Þarna gerir stjórn Herjólfs ohf. athugasemdir við tilvísun til þess að fyrirtækið starfi samkvæmt sveitarstjórnarlögum, einkum VII kafla er varðar fjármál. 

Um þetta atriði vísast í ofangreind Sveitarstjórnarlög nr. 138/2011.  Í framangreindum kafla nr. VII. er m.a. vísað til fyrirtækja í meirihlutaeigu sveitarfélaga. Af því er ljóst að framangreind lög taka til Herjólfs ohf. og því eðlilegt að vísa til laganna. Herjólfur ohf. þarf því að taka tillit til sveitarstjórnarlaga eftir því sem lögin áskilja slíkt. Þessi athugasemd byggist því á misskilningi. 

 

2.

Af orðalagi eigandastefnunnar og tilgangi með rekstri Herjólfs virðist þessi athugasemd stjórnar Herjólfs ohf. vera hálfgerður útúrsnúningur.  Augljóst er að Herjólfur ohf. sinnir ferðaþjónustu en í eigandastefnu er verið að leggja áherslu á að um skilgreinda ferðaþjónustu er að ræða. Til að ekki gæti misskilnings um þetta þá væri hægt að bæta við orðalaginu „að öðru leyti“ eftir orðið samkeppnisrekstur.  Með þeim hætti ætti vart að vera hægt að misskilja þetta orðalag eigandastefnunnar.

 

3.

Undir þessu tölulið eru gerðar athugasemdir við stjórnarhætti og aðkomu eiganda félagsins. Mjög eðlilegt er þó að samskipti eiganda við stjórn félagsins séu í föstum skorðum. Aftur skal bent á það að ef stjórnarmenn telja tormerki á því að ákvarðanir stjórnar Herjólfs ohf. endurspegli vilja eiganda þá er eðlilegt að stjórnarmenn gefi eftir sæti sitt í stjórninni. Þá virðist einnig gæta ákveðins misskilnings að þarna sé verið að fjalla um formlega ákvarðanatöku skv. lögum um hlutafélög. Þá er sérstaklega tekið fram í bréfi stjórnar að skýra þurfi betur á hvaða lagagrunni ákvarðanir eiganda um félagið séu og hvort þær séu bindandi fyrir félagið eða leiðbeinandi. Þetta virðist vera hálfgerður útúrsnúningur en þó má velta því fyrir sér hvort að núverandi stjórnarmenn telji sig óbundna að fara eftir vilja eiganda félagsins við stjórn þess. Af framangreindu bréfi stjórnar Herjólfs ohf. má ráða að slíkar efasemdir eru uppi innan stjórnar.

 

4.

Óþarfi á að vera að kveða nánar um útfærslu á mælikvörðum og vinnulagi í eigandastefnu. Þetta atriði skýrist væntanlega við nánari útfærslu á þessum þáttum s.s. kostnaðarþátttaka o.fl.

 

5.

Þarna koma fram athugasemdir við orðalag eigandastefnunnar um ákvarðanir sem hljóta skulu samþykki eiganda. Þessi þáttur eigandastefnunnar skýrist væntanlega í framhaldi af því að rekstur hefjist.  Ef staða félagsins verður neikvæð þá er viðbúið að breyta þurfi rekstrinum. Þessi þáttur eigandastefnunnar miðar án efa að því að til þess komi ekki.

Þá virðist einnig verið að rugla saman heimildum stjórnar skv. hlutafélagalögum og markmiðum með eigandastefnu. Þó má sjá af athugasemdum stjórnar Herjólfs ohf. að nokkur tregða virðist vera í bréfi stjórnarinnar að fallast á að ákvarðanir stjórnar félagsins verði í samræmi við vilja eiganda þess. Það virðist vera nokkuð undirliggjandi í svari stjórnar, að mati undirritaðs.

 

Í niðurlagi bréfs stjórnar Herjólfs ohf. virðist sem að stjórninni skilgreini ábyrgð Vestmannaeyjabæjar mjög þröngt og þá aðeins útfrá hlutafélagalögum. Eigandi telur sína ábyrgð hins vegar greinilega vera aðra og víðtækari og líklega munu flestir taka undir það. Þessi athugasemd virðist því vera byggð á vanþekkingu á sjónarmiðum eiganda félagsins, Vestmannaeyjabæ.

 

Tryggvi Már Sæmundsson

 

Bréf stjórnar Herjólfs ohf. til bæjarráðs.

Eigendastefnan.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).