Vegagerðin og forsvarsmenn Herjólfs ohf. svara fyrirspurn Eyjar.net

Reikna með 50-60 milljón króna aukningu á tekjum á ársgrundvelli

Ef hækkun gjaldskrárinnar verður að veruleika. - Hækkun fargjalda er 14,3% fyrir íbúa með lögheimili í Eyjum en 15,9% á almennu fargjaldi frá því sem kynnt var í samningum

1.Desember'18 | 09:53
herj_nyr_cr_sa_c

Búist er við að nýja ferjan hefji siglingar í byrjun apríl á milli lands og Eyja.

Eyjar.net sendi sex spurningar á annars vegar stjórnendur Vegagerðarinnar og hins vegar á forsvarsmenn Herjólfs ohf. Spurningarnar lúta að gjaldskrárhækkun nýrrar ferju frá því sem að samið var um í nýgerðum samning milli aðilana og kynnt var bæjarbúum í vor.

Er búið að samþykkja hækkun á gjaldskrá sem Herjólfur ohf. óskaði eftir?

Svar Herjólfs ohf: Stjórnin samþykkti gjaldskrá fyrir nokkru varðandi ferjuna með fyrirvara um samþykki Vegagerðarinnar eins og áskilið er í samningi ef um veruleg frávik frá fyrri ákvörðunum er að ræða. Vegagerðin er enn með málið til yfirferðar og skoðunar í tengslum við yfirferð áætlana um reksturinn.

Svar Vegagerðarinnar: Stjórn  Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. samþykkti gjaldskrá fyrir ferjuna með fyrirvara um samþykki Vegagerðarinnar.  Vegagerðin hefur bent á að gjaldskráin sé ekki í samræmi við forsendur sem lagðar voru til grundvallar við samningsgerð. Vegagerðin hefur til skoðunar fjárhagsáætlun vegna verkefnisins og er skoðun á gjaldskránni gerð samhliða þeirri vinnu. Gera má ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki innan skamms og í kjölfar þess verður tekin afstaða til þess hvort tilefni sé til að gera athugasemdir við gjaldskrána.  

 

Hver voru rök Herjólfs ohf. fyrir hækkuninni?

Svar Herjólfs ohf: Fyrst og fremst verðlagsþróun frá því að samningar voru gerðir, fyrirliggjandi spár um verðlagsþróun næsta árs.

Svar Vegagerðarinnar: Af hálfu Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. hafa komið fram þær skýringar að hækkunin sé nauðsynleg einkum vegna óvissu um verðlagsþróun framundan.

 

Hvað er þetta mikil hækkun í % sem farið var fram á frá því sem samið var um í vor?

Svar Herjólfs ohf: Munur á forsendum aðila við samningsgerð og ákvörðun stjórnar félagsins um gjaldskrá er mismikill eftir gjaldskrárliðum. Hvað varðar almennt fargjald fyrir íbúa með lögheimili í Vestmannaeyjum er munurinn 14,3% , þ.e. fer úr 700 kr. í 800 kr., en þeir greiða helming af almennu fargjaldi sem nemur 1600 krónum. Breytingin frá upphaflegum forsendum við samningsgerð hvað almenna fargjaldið varðar er 15,9%, eða úr 1400 kr. í 1600 kr.

Svar Vegagerðarinnar: Munur á gjaldskrá og forsendum aðila við samningsgerð er mismikill eftir því hvaða gjaldskrárliði um er að ræða. Hvað varðar almennt fargjald fyrir íbúa með lögheimili í Vestmannaeyjum er munurinn 14,3% en þeir greiða helming af fargjaldi sem aðrir þurfa að greiða eins og ráð var fyrir gert í samningi. Munurinn er 15,9% á almennu fargjaldi fyrir aðra farþega.

 

Hvað mun gjaldskrár hækkunin skila Herjólfi ohf. mikilli hækkun á tekjum á ársgrunni m.v. áætlaðan farþegafjölda?

Svar Herjólfs ohf: Gera má ráð fyrir 50-60 milljónum króna aukningu á tekjum á ársgrundvelli.

Svar Vegagerðarinnar: Varlega áætlað má gera ráð fyrir að tekjuaukningin kunni að nema ca. 50-60 milljónum króna á ársgrundvelli. 

 

Hvað mun þessi hækkun á tekjum Herjólfs ohf. lækka framlag ríkisins mikið á móti?

Svar Herjólfs ohf: Breyting á gjaldskrá hefur ekki bein áhrif á framlög ríkisins.

Svar Vegagerðarinnar: Engin ákvörðun hefur verið tekin  um breytingu á framlagi ríkisins.   

 

Hefur Vestmannaeyjabæ verið tilkynnt þessi hækkun og eru bæjaryfirvöld búin að samþykkja hækkunina fyrir sitt leyti?

Svar Herjólfs ohf: Stjórnin sendi Vestmannaeyjabæ tilkynningu um gjaldskrá um leið og hún lá fyrir. Það er stjórn félagsins að taka ákvörðun um gjaldskrá í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga og samning við ríkið um heimild Vestmannaeyjabæjar að fela ohf. félagi verkefnið.

Svar Vegagerðarinnar: Vegagerðin kemur ekki að samskiptum bæjaryfirvalda og félagsins og getur því ekki tjáð sig um þau. Á hinn bóginn er í samningi Vegagerðarinnar og Vestmannaeyjabæjar heimild til handa Vestmannaeyjabæ um að stofna ohf. félag til að sjá um rekstur ferjunnar.

 

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%