Njáll Ragnarsson í viðtali um stöðu heilbrigðismála í Eyjum

Höldum áfram að berjast fyrir sjúkrahúsinu okkar

24.Nóvember'18 | 09:37
IMG_1202-001

Njáll Ragnarsson

Í vikunni fundaði bæjarráð Vestmannaeyja með Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra um stöðu heilbrigðismála í Vestmannaeyjum. Ritstjóri Eyjar.net ræddi við Njál Ragnarsson, formann bæjarráðs um fundinn og hvort einhver von sé til þess að heilbrigðisþjónustan aukist hér í Eyjum.

Hvernig gekk fundurinn með ráðherra?

Fundurinn með ráðherra gekk vel og sömuleiðis fundur sem við áttum með nokkrum þingmönnum kjördæmisins. Ráðherra hlustaði á þær áhyggjur sem við höfum, af löngum biðtíma eftir sjúkraflugi, óviðunandi ástandi er varðar fæðingarþjónustu, skorti á bráðalækni, lokun skurðstofu o.s.frv. Ég hef látið hafa það eftir mér bæði við forstjóra HSU, þingmenn og fleiri að mín upplifun sé sú að búið sé að breyta sjúkrahúsinu okkar í heilsugæslustöð og sú þróun haldi áfram þangað til ákvörðun verður tekin um snúa henni við. Þetta snýst ekki um annað en viljann til þess að skipta um kúrs.

Hvað lögðuð þið áherslu á?

Við lögðum áherslu á nokkur atriði. Í fyrsta lagi þurfi að leita allra leiða til þess að tryggja öryggi sjúklinga í Vestmannaeyjum, staðan í dag sé algerlega óviðunandi. Lokun skurðstofunnar á sínum tíma var réttlætt með því að sjúkraflug væri til staðar í eyjum og útkallstíminn því í algjöru lágmarki. Síðan var ákvörðun tekin að færa sjúkraflugið til Akureyrar án þess að skurðstofan væri þá opnuð aftur. Þetta náttúrulega gengur ekki upp.

Í öðru lagi viljum við fara í þá vinnu að hlutverk og starfsemi sjúkrahússins verði skilgreind þannig að við vitum þá hvernig þjónusta verður veitt í Vestmannaeyjum til framtíðar. Og við lögðum mikla áherslu á að hafa fulltrúa bæjarins í þeirri vinnu. Síðan ræddum við að koma þurfi til móts við verðandi mæður sem þurfa að dvelja í Reykjavík í langan tíma fyrir fæðingu og það þurfi að gera strax. Gríðarlega kostnaðarsamt er að vera í burtu frá heimili og vinnu o.s.frv. Á meðan fæðingarþjónusta er ekki veitt í eyjum þá þurfi að huga að þessum málum.

Að lokum lýstum við eindregnum vilja til þess að fara í það verkefni að fá sjúkraþyrlu til þess að sinna sjúkraflugi á Suðurlandi. Og það er krafa okkar að þyrlan verði staðsett í Vestmannaeyjum en það myndi stytta útkallstímann hér auk þess sem bráðalæknir og hans teymi yrði þá staðsett á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum. Við njótum stuðnings annarra sveitarfélaga á suðurlandi í þessu verkefni en SASS hefur ályktað um mikilvægi þess að fara í þetta. Við horfum líka til þess að frá eyjum er stutt upp á þjóðvegi á fastalandinu og því væri kjörið að staðsetja þyrluna hér.

Hver eru næstu skref?

Nú er boltinn hjá ráðherra og þingmönnum okkar. Við viljum vinna með ráðuneytinu, þingmönnum, framkvæmdastjórn HSU og öllum sem eru tilbúnir til að fara í þetta verkefni. Bæjarstjórn er algerlega einhuga í þessu og við verðum að fara að fá jákvæðar fréttir af sjúkrahúsinu okkar. Þróunin hefur bara verið niðurávið undanfarin ár og við verðum í sameiningu að snúa því við.

Nú eru bæjaryfirvöld búin að hitta ráðherra heilbrigðismála mjög reglulega síðasta áratuginn, og allir hafa þeir sýnt ástandinu mikinn skilning án þess að nokkuð hafi batnað. Eru einhverjar líkur til þess að eitthvað annað verði uppá teningnum núna?

Við skulum sjá til. Páll Magnússon tók málið samdægurs upp í pontu Alþingis. Bæjarstjóri hefur sent ráðherra póst til að fylgja fundinum eftir og ítreka okkar kröfur og áhyggjur. Ég hef verið í sambandi við þá þingmenn sem ég hef aðgang að og það er mikill samhugur í öllu bæjarráðinu og allri bæjarstjórn í þessum málum. Fjárlagavinnan er í gangi í þinginu og því var þessi tímapunktur góður hvað það varðar. Svo þurfum við bara að sjá hvað gerist. Ég er bjartsýnn að eðlisfari og trúi því að þetta sé að minnsta kosti skref í rétta átt. Við munum að minnsta kosti halda áfram að berjast fyrir sjúkrahúsinu okkar, sagði Njáll enn fremur.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.