Halldór Bjarnason skrifar:

Lygaheimur Vegagerðarinnar

21.Nóvember'18 | 09:05

Landeyjahöfn

Manni er eiginlega orðið orða vant er maður les yfirlýsingar Vegagerðarinnar varðandi tilboðin í dýpkun Landeyjahafnar og einnig varðandi smíðina á nýja Herjólfi.

Það ætti svo sem ekki að koma á óvart enda ætti að veita þeim Nóbels verðlaunin í sagnfræði (lygasögum) því nóg er af lyginni hjá þeim seinust 12 árin. Já, það eru 12 ár frá því að lygavefurinn hófst hjá þeim og við stöndum í þeim sporum í dag að úrtöluraddirnar sem þeir kölluðu mennina sem vöruðu við þessari framkvæmd í upphafi hafa haft rétt fyrir sér í einu og öllu. Voru þeir jafnvel ekki eins svartsýnir og raunin hefur orðið.

Eins og Vestmannaeyingar vita hefur Vegagerðin verið margsaga varðandi Landeyjahöfn og smíðina á Herjólfi. Við skulum fara yfir nokkur atriði.

1. Vegagerðin segir núna varðandi nýja Herjólf  “Með ferju sem ristir um 1,5 m minna en núverandi ferja þá þarf að sjálfsögðu ekki að dýpka eins mikið, segir í svari Vegagerðarinnar við spurningum Eyjar.net."

Þarna er farið með ósannindi því eftir seinustu lenginguna á nýja Herjólfi var farið með líkanið til prufu við aðstæður Landeyjahafnar miðað við 3,5 m öldu þá tók hann niður. Kom þá í ljós að það þarf nánast sama dýpi (eða 6m í hafnarmynni og 6,5m á rifinu miðað við 3,5m öldu) og er nú við innsiglinguna. Hvar er nú sannleikurinn hjá þeim?

2. Þá skulum við líta á skýringar Vegagerðarinnar á ferjunni. “Við hönnun ferjunnar þá átti að miða við að hún þyrfti 5 m vatnsdýpi til að sigla í 3,5 m ölduhæð en ákveðið var í smíðaferlinu að víkja frá því til að gera ferjuna að betra sjóskipi vegna siglinga til Þorlákshafnar.”

Þetta er með ólíkindum að lesa þetta. Það á að telja okkur í trú um að þeir hafi breytt ferjunni til að hún væri betra sjóskip til Þorlákshafnar. Þetta er kjaftæði. Þeir eru búnir að lengja hana tvisvar eingöngu til að hún rysti ekki meira en 2,8 m og nú síðast að breyttu þeir stefninu til að ferjan nái hönnunarhraða. Hvað með fullyrðingar þeirra áður en smíðin hófst að hún mætti alls ekki vera lengri en 66m, því þá myndi það bitna á stjórnhæfni (rásfestu) hennar til siglinga við erfiðar aðstæður við Landeyjahöfn? Núna var allt í einu í lagi að fórna stjórnhæfninni (þá hljóta að bætast við meiri frátafir) til að gera ferjuna að betra sjóskipi. Enn og aftur ljúga þessir menn að okkur.

3. Þá skulum við fara yfir væntanlegar breytingar á hafnargarðsendunum eða mótsagnir þeirra varðandi allar breytingar á hafnarmannvirkjunum. Þegar verið var að tala um að lengja garðana þá sögðu vitringarnir að það þyrfti margra ára rannsóknir áður hægt væri að fara í breytingar. En svo poppar allt í einu hugmynd hjá þeim að setja tunnur á garðsendana og minnka hafnaropið úr 90 m í 76 m og það án margra ára rannsókna. Það er alveg magnað ef þeim dettur eitthvað í hug þá er hægt að framkvæma það. Það er gaman að segja frá því að Sveinn Rúnar Valgeirsson lagði til á sínum tíma að breikka nýju ferjuna til að auka flutningsgetuna og stöðuleikann. Honum var hins vegar bent á að hafnaropið í Landeyjarhöfn vær 90 m og hannað fyrir 15 m breytt skip. Þannig að það væri ekki hægt af öryggisástæðum. Hönnuðurinn sagði: Hversvegna eigum við að vera breyta ferjunni, þegar við teljum okkur vera komnir með það besta sem völ er á). Þeir ætla núna að mjókka hafnaropið um 14 m en skipið er ennþá 15 m breitt. Hvar er öryggisþátturinn núna? Þarna er enn ein lygin.

4. Þeir sögðu að það þyrfti sérhannað skip fyrir Landeyjahöfn og fengu það í gegn. Þeir héldu því fram að þá yrði hún heilsárshöfn. Frátafir yrðu einungis 5 dagar. Þannig lugu þeir að fjárlaganefnd og þingheimi sem að samþykkti smíðina, verkið boðið út það var varla þornað blekið þegar þeir fóru að draga í land með frátafirnar. Sögðu að þær gætu orðið 10 dagar, svo 30 dagar, svo 10% svo núna er það komið í 90 - 110 dagar. Er ekki komið nóg af lygi?

5. Meðan ég var að hripa niður þessar línur þá kom yfirlýsing frá Vegagerðinni varðandi útboðið á dýpkun Landeyjahafnar. Enn og aftur reyna þessir menn að telja okkur í trú um frábæran árangur Björgunar á árum áður. Ég bendi á grein frá árinu 2015 þar sem framkvæmdarstjórinn þeirra telur ógerlegt að dýpka við aðstæður sem farið er fram á í útboðinu 2015.

Maður hefur það á tilfinningunni eftir lesturinn að þeir séu að telja okkur í trú um að tækjakostur Björgunar sé margfalt betri núna en hann var árið 2015 og mun betri en hjá núverandi aðila. Reynið þið að segja Vestmannaeyingum þetta. Það getur verið að aðrir landsmenn trúi þessu en ekki við að fenginni reynslu. Vegagerðin segir að dýpið eigi að vera 1,5 m minna fyrir nýja Herjólf. Fara úr 7 m niður í 5,5 m. Samkvæmt samningi Vegagerðarinnar og Vestmanneyjabæjar kemur fram að dýpið þurfið að vera 6m í hafnarmynni og 6,5 á rifi fyrir 3,5m öldu eins og hefur komið fram annarsstaðar í þessari grein. Þá segi ég hvernig á Sóley að dýpka þarna hún ristir 6 m en dýpið á að vera 5,5 m? Enn og aftur ljúga þeir að okkur.

Svo eiga þeir að geta dýpkað í allt að 2 m ölduhæð og enn ljúga þeir. Við höfum heyrt þetta allt áður. Og reyna svo að telja okkur í trú um að Dísan (sem var keypt á sínum tíma og átti þá að fara í brotajárn) sé orðin eitt besta dýpkunarskip sem völ er á er enn og aftur ein lygin.

Það er af svo miklu að taka varðandi Landeyjahöfn og alla lygina sem þessir menn hafa verið uppvísir að. Þetta er bara brotabrot af öllu saman. Þeir halda kannski eins og svo margir að ef þú lýgur sama hlutnum nógu oft þá fara menn að trúa lyginni og það er enn grátlegra að þeir skuli komast upp með það og engin skuli hafa kjark í sér og koma Vegagerðinni frá þessu verkefni stofnun sem hinn almenni Vestmannaeyingur bera sáralítið traust til samkvæmt skoðannakönnun Eyjar.net.

Það er sorglegt að örfáir menn skuli hafa samgöngur okkar Eyjamanna í heljargreipum. Landeyjarhöfn er byggð á lygum frá upphafi. Rannsóknir voru nánast engar og enn halda þessir sömu menn okkur í gíslingu það er svo magnað að það virðist enginn taka í taumana. Bæjarstjórn Vestmannaeyja, alþingismenn sunnlendinga, og ráðherra samgöngumála gaba upp í þessa menn en það hefur engin bein í nefinu að segja það er komið nóg, “Ykkar starfskrafta er ekki lengur óskað“. Og í kjölfarið að fá óháða aðila að verkinu. Ég segi bara við ráðherra samgöngumála - þú hlýtur að vera vanur að moka flór, mokaðu flórinn í Vegagerðinni.

Þar sem mörgum þykir ég taka sterkt til orða vil ég benda á merkingu orðsins  lygi samkvæmt Wikipedia er “Lygi” fullyrðing sögð viljandi af einhverjum sem veit að hún er ósönn eða villandi. Lygarar kunna að nota lygar sér til framdráttar, til dæmis til að ráðskast með aðra til að öðlast eitthvað efnislegt eða tilfinningalegt. Almennt ber orðið „lygi“ neikvæða merkingu, og þeim sem mælir lygi gæti verið refsað á samfélagslegan hátt eða í alvarlegum tilvikum með lögsókn. Í öðrum tilfellum er þó heimilt eða jafnvel æskilegt að ljúga. Vegna þess að afleiðingar lyga geta verið alvarlegar hafa fræðimenn unnið misvel heppnaðir að aðferðum til að greina lygar frá sannleikanum. “

 

Halldór Bjarnason

Íbúi í Vestmannaeyjum og félagi í hópnum Horft til framtíðar.

 

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).