Tjaldsvæðin við Áshamar:
Meirihlutinn fer rangt með
20.Nóvember'18 | 06:59Á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs var áfram rætt um tjaldsvæði fyrir Þjóðhátíð. Bæði fulltrúi meiri- og minnihluta í ráðinu hafa svo tjáð sig um málið í greinum hér á Eyjar.net. Ýmsar rangfærslur birtust í bókun meirihlutans um málið.
Í bókun meirihlutans segir að fulltrúar E og H listans telji mikilvægt að koma á framtíðarlausn fyrir tjöldun í tengslum við Þjóðhátíð þar sem tjaldsvæði fyrir Þjóðhátíð hefur verið til bráðabirgða til 5 ára á byggingareiti við Áshamar. Sú ákvörðun var aldrei grenndarkynnt enda fór hún ekki formlega inn í ráðið og því engin gögn til um ákvörðunina.
Skipulagt tjaldsvæði í níu ár á þessum stað
Ekki er rétt að tjaldsvæðið hafi aðeins verið til 5 ára á byggingareiti við Áshamar. Hið rétta er að síðastliðið sumar var níunda árið sem skipulagt tjaldsvæði var á túninu. Ekki er heldur rétt að ekki hafi verið formlega rætt um málið í ráðinu. Á fundi umhverfis og skipulagsráðs nr. 121 þann 13. júlí 2010 var málið tekið fyrir og afgreitt af ráðinu.
Í fundargerðinni segir:
„Tjaldsvæði í Vestmannaeyjum.
Bæjarstjóri gerði grein fyrir undirbúningi starfshóps Þjóðhátíðar er varðar fyrirkomulag tjaldsvæða og bílastæða á komandi Þjóðhátíð. Í afgreiðslu ráðsins segir að ráðið leggi áherslu á að tjaldsvæðin verðið afgirt eins og kostur er og komið verði fyrir ruslagámum og salernisaðstöðu við hvert svæði.”
Stýrihópur starfandi frá árinu 2008
Að lokinni Þjóðhátíð 2008 var skipaður stýrihópur um Þjóðhátíð, til að bregðast við mikilli aukningu í aðsókn á Þjóðhátíð. Tilgangur stýrihópsins var heildarstefnumótun fyrir Þjóðhátíð. Þróun hátíðarsvæðisins, öryggi, samgöngur, markaðsmál, þjónusta við gesti, starf sjálfboðaliða og starfsmanna, undirbúningur og frágangur sem og þróun Þjóðhátíðar. Miðvikudaginn 21.okt. 2009 var málið til umræðu. Í fundargerð stýrihópsins var m.a bókað: „Tjaldsvæði utan hátíðarsvæðis. Kortleggja hvar á að afmarka tjaldsvæði fyrir gesti fyrir utan hátíðarsvæðið.”
Í júlí 2010, var eftirfarandi ákveðið af stýrihópnum og kynnt í umhverfis- og skipulagsráði: Tjaldsvæði: Við Þórsheimili, Samskipavöll, Áshamarstún og til vara í botni Friðarhafnar.
Yfirlitsmynd frá 2010
Hér að neðan má sjá yfirlitsmynd sem kynnt var fyrir Þjóðhátíð 2010. (T merkir tjaldsvæði, B merki bílastæði).
Það er mikilvægt og reyndar lágmarkskrafa að kjörnir fulltrúar kynni sér vel söguna áður en að farið er af stað með bókun sem líkt og í þessu tilviki stenst ekki skoðun.

Mannlíf og saga - hlaðvarp
2.Mars'21Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fréttaskot - Eyjar.net
31.Janúar'18Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð
10.September'18Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.