Fréttatilkynning frá Vegagerðinni:

Vegna samnings Vegagerðarinnar við Björgun ehf. um viðhaldsdýpkun í Landeyjahöfn

16.Nóvember'18 | 11:48

Dýpkað í Landeyjahöfn. Mynd/úr safni.

Eftir opnun tilboða í viðhaldsdýpkun Landeyjahafnar fyrir árin 2019 til 2021 hafa Vegagerðinni borist athugasemdir og fyrirspurnir þar sem lýst er áhyggjum yfir því að samið verði við lægstbjóðanda Björgun ehf.

Gerðar hafa verið athugasemdir við það að í útboðinu gildi verð 65% og hæfi verktaka 35%. Að mati Vegagerðarinnar er ekkert óeðlilegt við þessar prósentuskiptingar, það að hæfi verktaka gildi 35% er nokkuð hátt, yfirleitt í útboðum vegur verðhlutinn enn þyngra. Afkastageta verktaka er metin í 35% hlutanum t.d. með rúmmáli lestar, tíma sem tekur að fylla skipið, sigla á losunarstað og tæma skipið.

Auðvitað má koma með stífari kröfur um afkastagetu en gert er í útboðsgögnum. En ef slíkt hefði verið gert þá hefðu verktakar verið útilokaðir og útboðið jafnvel verið kæranlegt á grundvelli þess. Það er líka spurning hvers konar kröfur hefðu verið settar fram. Reynslan af dýpkun í Landeyjahöfn sýnir að dýpkunarskip þess sem sér um dýpkunina í dag er tvöfalt eða þrefalt afkastameira en dýpkunarskip þess sem fékk verkið í þessu útboði. Það gildir hins vegar aðeins þegar alda er lág og vindur lítill.  Afkastageta lægstbjóðanda er hins vegar margfalt meiri í hárri öldu og vindi en þess sem nú dýpkar, því hann getur ekki dýpkað í þeim veðrum sem farið er fram á í útboðsgögnum.

Spurt hefur verið hvers vegna dýpkunartímabil í útboðinu séu óbreytt frá fyrri árum. Útboðið nær einungis til dýpkunar með skipum og vegna veðurs eins og reynslan sýnir þá er nær ógerlegt að dýpka með þeim í desember, janúar og febrúar. Varðandi lengingu á þeim tíma sem dýpi er nægjanlegt í höfninni  er vonast til þess að það náist vegna grunnristu nýs Herjólfs og með dælingu frá landi/garðsendum sem verður mögulegt þegar endurbótum á höfninni lýkur.

Ef veðurskilyrði eru góð utan skilgreindra dýpkunartímabila mun Vegagerðin óska eftir því að Björgun eða annar aðili vinni við dýpkun, slík tilfelli verða þó háð samþykki þess sem dýpkar.

Í tilboði Björgunar eru dýpkunarskipin Dísa og Sóley boðin til verksins. Auk þess er gröfupramminn Reynir og efnisflutningaskipið Pétur Mikli boðnir, en þessi tæki hafa ekki dýpkað í Landeyjahöfn. Með þessum tækjabúnaði verður afkastgeta Björgunar a.m.k. sambærileg og hins belgíska Jan De Nul. Að mati Vegagerðarinnar er verktakinn með nauðsynlegan tækjabúnað til að vinna verkið með viðunandi hætti og getu til að dýpka höfnina nægjanlega m.t.t. siglinga innan hæfilegs tímaramma.

Vegagerðin vill líka benda á að Landeyjahöfn hefur yfirleitt verið opin frá febrúar/apríl  til nóvember/desember frá árinu 2011. Munurinn á milli þeirra sem hafa dýpkað höfnina er ekki mikill en veðráttan ræður öllu.    

Verktakinn mun verða beittur dagsektum ef hann er ekki við vinnu þegar dýpi er ekki nægjanlegt í höfninni og veðurskilyrði eru til dýpkunar. Þetta á líka við ef verktaki getur ekki dýpkað vegna bilana, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.