Íris Róbertsdóttir skrifar:

Engin svívirðing – engin árás

25.Október'18 | 11:01
iris_rob

Íris Róbertsdóttir

Endurkoma forvera míns í bæjarmálaumræðuna hér í Eyjum um síðustu helgi var nokkuð óvænt og sérkennileg, svo ekki sé nú meira sagt. Ég hafði staðfest, aðspurð, í samtali við blaðamann Stundarinnar þá skoðun mína að ég teldi óeðlilegt að Herjólfur ohf keypti lögfræðiþjónustu frá fyrirtæki í eigu stjórnarformanns félagsins. 

Þetta felur bara í sér almenna og eðlilega varðstöðu gegn hagsmunaárekstrum. Og það á líka að forðast þær aðstæður sem kveikja grun um slíkan árekstur. Þessu sjónarmiði hafði ég áður komið á framfæri við stjórnarformanninn sjálfan, þannig að ekki kom það honum á óvart. Það er líka rétt að geta þess að ég og oddviti Eyjalistans vorum, og erum, fullkomlega sammála í þessari afstöðu. 

Í öðru lagi svaraði svo fjármálastjóri bæjarins að sjálfsögðu fyrirspurnum tveggja fjölmiðla um upphæð þjónustukaupa af fyrrgreindri lögmannsstofu, enda í samræmi við þá stefnu núverandi bæjaryfirvalda að upplýsingar um öll slík viðskipti eigi að vera uppi á borðinu. Það kom mér reyndar nokkuð á óvart að forveri minn skyldi gefa til kynna þá skoðun að ekki hefði átt að veita þessar upplýsingar.

Mest á óvart komu þó orðin – eða öllu heldur orðalepparnir - sem forveri minn notaði um þennan framgang málsins; talaði um fordæmalausar árásir á stjórnarformanninn og að verið væri að svívirða saklausan mann. Eins og sést af ofangreindu voru þetta engar árásir og þaðan af síður svívirðingar. Ég var einfaldlega að benda á hið augljósa og í því fólst ekki einu sinni gagnrýni á stjórnarformanninn – hvað þá árásir eða svívirðingar. Enda situr formaðurinn í umboði og á ábyrgð núverandi meirihluta bæjarstjórnar en ekki fyrrverandi; þótt sumir virðist reyndar eiga erfitt með að átta sig á því.

Hvað forvera mínum gengur til með þessari innkomu í bæjarmálaumræðuna hér í Eyjum er mér óskiljanlegt – en fólk getur allavega núna hætt þeim samkvæmisleik að geta sér til um hvenær fyrstu hrópin muni heyrast úr Ölfusi til Eyja. Það er komin niðurstaða.

Í lokin vil ég svo nota tækifærið til að óska forvera mínum alls velfarnaðar í nýju starfi í Ölfusinu.

 

Íris Róbertsdóttir 

 

Höfundur er bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla.