Ásmundur Friðriksson skrifar:

Sjómannasambandið á móti veiðigjöldum

21.Október'18 | 21:45

Ljósmynd/úr safni

Ég hef áður skrifað um skoðanir mínar á veiðigjöldum sem nú eru enn á ný í kastljósi umræðunnar eftir að sjávarútvegsráðherra lagði fram nýtt veiðigjaldafrumvarp á dögunum. 

Samkvæmt þeim umsögnum sem þegar liggja fyrir hjá Atvinnuveganefnd á vef Alþingis má sjá ábendingar um þann vandrataða og þrönga stíg sem liggur á milli hagsmuna sjómanna og útgerðar þegar kemur að verðmyndun á fiski. Í umsögnum kemur fram að vaxandi óánægja sjómanna um verðmyndun á fiski dýpkar með óbreyttu frumvarpinu. Þar er bent á þá staðreynd að veiðigjaldið er ekki lengur byggt á Hagtíðindum heldur verði það einvörðungu byggt á á skattframtölum útgerða fiskiskipa. En í kjarasamningum sjómanna við útgerðina um lágmarksverð eru gögn frá Hagstofu forsenda til að sjá breytingar afurðaverðs erlendis m.a. notuð til að grundvalla verðlagningu á fiski til sjómanna. Í núgildandi lögum eru hagtölur nýttar til ákvörðunar veiðigjalds en í framlögðu frumvarpi er Veiðigjaldanefnd lögð niður og Ríkisskattstjóri sér um álagningu veiðigjalds auk þess sem hagnaður vinnslunnar er tekinn út úr grunninum.

Sjómenn á móti veiðigjaldi

Þá kemur fram í umsögn Félags skipstjórnarmanna að ríkisvaldið ætti að beina sjónum sínum til annarra atvinnuvega sem afla tekna með nýtingu auðlinda í eigu þjóðarinnar og allt of lengi hafi verið einblínt á sjávarútveginn einan í þessu samhengi. Þessi málflutningur er í samræmi við mínar skoðanir og hafa þær komið fram í ræðum mínum á Alþingi og umræðum í Atvinnuveganefnd. Ég fagna því þessari skoðun en upphaflega þegar auðlindagjald var sett á var hugmyndin að byrja á sjávarútvegi og síðar átti að fara í aðrar greinar sem nýta auðlindina sér til tekna. Það hefur ekki gerst og á meðan sitja fyrirtæki sem nýta auðlindir þjóðarinnar ekki við sama borð. Það er því mikilvægt að finna leið sem er aðgangsgjald að nýtingu náttúrunnar. Þá kemur fram í umsögn Sjómannasambandsins andstaða við veiðigjaldi á útgerðina og benda samtökin jafnframt á að 33% reiknistofn hvers nytjastofns í frumvarpinu ætti að vera mun lægri til að geta talist hóflegur. Samtök sjómanna sem hafa sent inn umsögn um frumvarpið eru á móti því að hagnaður af vinnslu sé tekin út úr gjaldinu og benda á að það geti leitt til flutnings á hagnaði frá veiðum til vinnslu með þeim afleiðingum að það skerði kjör þeirra vegna lægra fiskverðs. 

Villandi umræða

Á sama tíma og fram fer umræða um breytingu á veiðigjaldinu er afkoma fyrirtækja í sjávarútvegi að versna. Þrátt fyrir það er góður jarðvegur hjá minnihlutanum að hækka veiðigjöldin og merkilegt að fylgjast með þingmönnum minnihlutans sífellt kalla eftir hærri veiðigjöldum. Þessir stjórnmálamenn ættu að hlusta á sjómenn sem vilja lækka veiðigjöld eða afnema þau. Þeir hafa áhyggjur af eigin afkomu, afkomu fyrirtækjanna og heimilanna í sjávarplássunum sem flest hafa afkomu sína af sterkum sjávarútvegi. Þingheimur ætti einnig að standa undir þeirri eðlilegu ábyrgð að allar greinar sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar eins og fiskinn í sjónum, orkuna í fallvötnunum, og náttúru landsins sitji við sama borð.

Það sem ekki er fréttnæmt

Það eru margir uggandi yfir því að ferðamönnum fjölgar minna á næsta ári en áður var gert ráð fyrir en þeim hefur fjölgað úr tæplega 600 þúsund árið 2011, í rúmlega 2.4 milljónir í ár og eðlilega leitar sú fjölgun jafnvægis.

En það eru ekki margir fréttatímar undirlagðir af því að nýliðun í loðnustofninum hafi verið slök síðustu 15 árin. Hækkun hitastigs sjávar, breytingar á útbreyðslu loðnunnar og í auknu mæli er loðnan farin að hrygna fyrir norðan land. Eins og staðan er núna verður ekki gefin út loðnukvóti á næstu vertíð sem byrjar í. Þessu til viðbótar finnst lítið af ungloðnu sem varpar óvissu á vertíðina 2020. Þá eru ýmis merki um að makrílafli gæti minnkað um 40% á næsta ári en áður hafði verðmætið hans lækkað um 35%. Þetta mun hafa gríðarleg áhrif á afkomu sjávarútvegsins gangi spár eftir. Jafnvel ný lög um veiðigjald sem er nær rauntíma munu ekki koma í veg fyrir að ef slíkt alda skellur á afkomu útgerðar og þjóðarbús verður fátt um varnir.  Það er því spurning hvort minnihlutinn í þinginu brýni ekki kutana og  undirbúi sig fyrir afkomubrest í uppsjávarveiðum og verði þá klár með tillögur um frekari hækkun veiðigjalda við þær aðstæður. Það kæmi ekki á óvart miðað við málflutningin eins og hann er í dag.

 

Ásmundur Friðriksson alþingismaður.

 

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.