Lúðvík Bergvinsson skrifar:

Minningarorð: Bergvin Oddsson

6.Október'18 | 10:57

Það er mjög snúið að reyna að setja saman fátækleg orð í því skyni að kveðja þig elsku pabbi nú á þessum erfiðu tímamótum. Kveðjustundin kom alltof snemma. Hvorki þú né við vorum tilbúin að kveðja þegar stundin rann upp. Við réðum þó ekki för. 

Það var nefnilega þannig að það má segja að þú hafir ekki elst í eiginlegum skilningi þess orðs; það var bara árunum sem skráð voru á kennitöluna í þjóðskrá sem fjölgaði. Annað breyttist ekki. Það var enginn munur á eldmóði dagsins og þeim sem var til staðar fyrir 50 árum. Lífsneistinn, ástríðan fyrir lífinu, fjölskyldunni og sjónum var hinn sami síðustu vikur lífs þíns líktog þegar þú varst yngri, enda vorum við rétt í þann mund að ljúka við smíði á nýjum bát sem gera átti út frá Eyjum næstu áratugina þegar þú féllst frá. Það er mikil sorg sem fylgir því að þurfa að sætta sig við að þú munt ekki stýra því fleyi.

Það er þó eitt lítið ráð sem mig langar til að gefa þér á þessum tímamótum. Þú skalt ekki reyna að halda því fram að þú hafi alltaf verið auðveldur þegar þú mætir á þinn fyrsta fund með almættinu. Hann mun sjá í gegnum það. Skoðanir þínar voru sterkar og fúsk var sem eitur í þínum beinum. Þú gerðir ríkar kröfur til þeirra sem með vald fóru meðan þeir sem minna máttu sín áttu alltaf skjól. Þú sást til að mynda aldrei nokkurn mun á Kommunum á Neskaupsstað, sem réðu ríkjum meðan þú ólst þar upp og síðar á íhaldinu í Eyjum, þegar hóparnir að þínu mati mökuðu krókinn hvor á sínum stað í þágu vina og kunningja. Þú taldir þetta aðeins sitthvort nafnið á sama fyrirbærinu. Þú vildir reyndar alltaf að fleiri en einn flokkur kæmu að stjórn samfélagsins. Þá varstu líka alltaf jafn undrandi á hverju ári þegar sérfræðingar Hafró kynntu almenningi á sannfærandi hátt í fjölmiðlum um niðurstöður sínar varðandi stöðu fiskistofna við Ísland þannig að fjöldi fiska væri tilgreindur; enda taldir þú, m.a. í ljósi þess að Eyjarnar á Breiðafirði væri illteljanlegar líktog Vatnsdalshólarnir sem væru þó á þurru landi, að það væri útilokað að hægt væri að gefa út með nokkurri vissu opinbera tilkynningu um fjölda fiska í sjónum. Það gætu aldrei legið merk vísindi á bak við slíka yfirlýsingu. Á hinn bóginn viðurkenndir þú á sama tíma að sökum takmarkaðrar þekkingar mannsins á náttúrunni og sjónum væri líklega rétt að fylgja leiðbeiningum sérfræðinganna. En mikill var efinn. Þá voru sérfræðingarnir á Veðurstofunni eilítið hissa þegar þú hafðir samband við þá eitt sinn af sjónum, í brjáluðu veðri suður af Stórhöfða vegna veðurlýsingar í útvarpi um að mikillar veðurblíðu gætti við Höfðann einmitt á sama tíma, og spurðir þá um hvort nokkuð væri búið væri að flytja Stórhöfða til því ef svo væri værir þú sennilega rammvilltur. Það var lítið um svör það sinnið. Þú varst oft þeirrar skoðunar að veðurfræðingar ættu að einbeita sér að skammtímaspám og vinna þær vel; hitt væri of erfitt.

Þú kenndir okkur krökkunum mikið, þó þú hafir aldrei í reynd reynt eða þóst vera mikill kennari. Þú kenndir okkur mikilvægi þess að vera traustur og heiðarlegur og varst sjálfur okkur akkeri í lífsins ólgusjó. Þú taldir líka alltaf mikilvægara að gefa en þiggja. Það var okkur krökkunum því alveg einstök ánægja að upplifa viðhorf bæjarbúa til ykkar mömmu þegar við komum ykkur sannanlega á óvart með því að bjóða til stórveislu nú í vor þegar þið mamma náðuð því að verða samanlgt 150 ára gömul.  

Ég get sagt að sá orðstýr sem þú þú skópst þér í lifanda lífi, með verkum þínum og framkomu, er þess eðlis að mikill sómi er af. Lífsverk þitt er okkur öllum fyrirmynd. Á sumum sviðum var lífið fyrir þér hvítt eða svart. Þú skuldaðir engum neitt og baðst engan um neitt. Það er því óhætt að segja að það var okkur öllum fyrirkvíðanlegt ef þú hefðir komið þannig útúr þeim erfiðu veikindum sem við var að etja með þeim hætti að þú hefðir orðið ósjálfbjarga. Þá hefðir þú orðið okkur erfiður þar sem það var einfaldlega ekki þinn stíll að vera upp á aðra kominn. Það var ekki þitt. Það kom okkur heldur ekki á óvart að þú valdir aðra leið.

Kveðjuorðin til þín pabbi á þessum tímamótum verða alltaf fátækleg hversu mörg og/eða fá þau orð verða. Þú varst þannig persóna. Líklega er verið að tala um einstakt eintak, enda ber vinafjöldinn þess nokkurt merki. Okkar mesta huggun á þessum erfiðu tímum er líklega sú að reyna að horfa til þess og þakka fyrir þann tíma sem við fengum notið með þér, í stað þess að syrgja þann tíma sem við ella hefðum getað fengið til viðbótar, þ.e. hefði tilveran skilað þeirri niðurstöðu. Hún gerði það bara ekki. Við það verðum við að sætta okkur.

 

Lúlli

 

Vegna mistaka birtist ofangreind grein ekki í Morgunblaðinu í dag.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Vilt þú ná til Eyjamanna?

28.Júní'17

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.