Guðjón Hjörleifsson skrifar:

Bergvin Oddsson - minning

5.Október'18 | 16:18

Einn af bestu sonum Eyjanna, Beddi á Gófaxa er látinn, eftir stutt veikindi. Það er skarð höggvið hjá fjölskyldunni þegar að foringinn fellur svo skyndilega frá.

Það var skrýtin tilfinning á mánudeginum eftir andlát hans, þegar að stóllinn hans Bedda á kaffistofunni í Heimaey stóð auður, og við minntumst hans með stuttri þögn. Hann hafði verið fastagestur hjá mér 3-5 sinnum í viku í kaffi sl. 10 ár. Það var alltaf líf og fjör í umræðunni, og hafði hann gaman að því að láta menn heyra það, hvort sem það var pólitíkin, enski boltinn og eða hvað eina sem honum datt í hug.  

Við kaffistofufélagarnir höfum haft þá reglu að mæla blóðþrýsting þrisvar sinnum í viku, en það höfum við gert í tæp 5 ár og allt fært til bókar. 5 einstaklingar hafa lent hjá lækni uppi á spítala eftir mælingu, og einn fór í sjúkraflug. Beddi sagði alltaf að þetta væri eina fyrirtækið í Eyjum sem væri að bregðast við fækkun lækna og fækka komutímum á Heilbrigðisstofnunina. 

Sá sem þetta ritar var nú alltaf í efri kantinum í mælingunni og fékk ég oft skondnar athugasemdir við niðurstöðuna frá okkar manni. En einn daginn, var ég með þvílíkt góða mælingu. Þá segir kappinn, mælirinn er bilaður, fyrst þú ert svona góður. Hann tölti síðan út í Apótek, kom með nýjan mæli, og tók þann gamla úr umferð. Við skulum svo sjá hvernig þú verður í fyrramálið. Höfðu allir gaman af þessu uppátæki.

Hann var fyrsti útgerðarmaðurinn sem fór í tryggingar hjá VERÐI tryggingum, sem ég var síðar umboðsmaður fyrir.  Hann var sennilega duglegri en ég að stækka stofninn í Eyjum. Ég sagði oft við hann að hann væri eini ólaunaði starfsmaðurinn hjá tryggingarfyrirtækinu.

Árið 1997 var tekin stór og umdeild ákvörðun í Eyjum. Þá var það ákveðið að sameina Þór og Týr, íþróttafélögin okkar í ÍBV. Við sem harðastir vorum í þessu, ákváðum að stofna skilanefnd, sem hefði það verkefni að útvega peninga til þess að greiða upp skuldir félaganna.  Ætli þessi upphæð sem við söfnuðum á verðlagi dagsins í dag sé ekki nálægt 160 milljónum. Beddi þekkti marga, og gekk að öðrum ólöstuðum hart fram í þessu og sagði: “Við hættum ekki fyrr en við lokum þessu máli og látum nýja ÍBV byrja skuldlaust” og það gekk eftir.

ÍBV hjartað hjá honum, Dúllu konu hans og krökkum var mjög stórt. Einu sinni kom hann heim til Dúllu og sagði að hann hafi verið að hjálpa ÍBV og hafi fjárfesti í erlendri knattspyrnukonu í ÍBV liðið. Borgaðir þú bara einn, spyr Dúlla. Beddi játti því. Þá segir Dúlla, sem oft átti gullkorn í tilsvörun. Getur þú ekki látið hana þrífa hjá mér einu sinni í viku.

Ekki má gleyma síldarævintýrinu mikla þegar Beddi, Guðmundur Huginn og undrritaður fengum þá hugmynd, þegar að mikil síld kom í höfnina í Eyjum, hvort ekki væri hægt að veiða þessa síld, sem var sýkt að hluta og gera úr henni verðmæti og styrkja íþróttahreyfinguna. Við fengum öfluga menn með okkur, og svo mikill var áhuginn meðal sjómanna, og það kom fyrir að það voru 30 manns í kaffi á skrifstofunni hjá mér, á svokölluðum síldarmorgunfundi.

Þetta gekk allt eftir með dyggum stuðningi Vinnslustöðvarinnar, sem útvegaði skip og tilheyrandi. Við vorum stoltir þegar við gátum stutt öll íþróttafélögin í Eyjum, þegar að uppgjöri var lokið.

Beddi var einstaklega hnyttinn í tilsvörun. Einu sinni setti hann auglýsingu í gluggann í Eyjabúð. Háseta vantar á Glófaxa Ve. Upplýsingar gefur Bergvin Oddsson. Flótlega kom góður Eyjapeyi til Bedda, en nafn hans er Zóphónías, en þekktastur undir nafninu Sófi. Hann spyr Bedda um hásetaplássið. Beddi horfir á hann og segir. Heldur þú að þetta geti gengið Sófi minn. Af hverju ekki svarar Sófi. “ Því þá erum við bæði með Bedda og Sófa um borð”. Heldur þú að Glófaxinn fái ekki nafnið “Húsgagnahöllin” á sig. Já, hverjum öðrum en Bedda hefði dottið í hug að leggja þetta upp með þessum hætti.

Þessi fátæklegu orð eru bara sýnishorn af þessum öðlingi. Það væri létt mál að skrifa bók um kappann á þessum nótum. Hann var með stórt Eyjahjarta og einstakur maður. Hann vildi öllum vel og voru hann og Dúlla konan hans rómuð fyrir  fyrir aðkomu þeirra að íþrótta- og félagsmálum. Einhverjir bestu bakhjarlar íþróttahreyfingarinnar í Eyjum og voru oft með í ráðabruggi þegar kom að því að byggja upp sterkara ÍBV lið.

Dúlla hans Bedda hefur verið bakhjarlinn hans og staðið með honum í blíðu og stríðu.  Oft kom hann til mín rétt fyrir hádegi til að segja mér hvað yrði í hádegismat hjá Dúllunni sinni, því hún var einstakur kokkur, og það kom oft fyrir að barnabörnin birtust á matmálstíma og sögðu, amma hvað er í matinn. Eitt það frægasta í matarmenningu þeirra hjóna, var þegar að Norðlendingaþorrablótin voru haldin, og hver hópur kom með sín þorratrog, en þá mættu þau með lambalæri með tilheyrandi meðlæti og alvöru sveppasósu.

Beddi var mikill söngmaður, var í sönghópnum BRÆLUBELLIR, og síðar í kór eldri borgara. Á góðri stundu á skemmtunum átti hann það til að fara upp á svið og leysa söngvarann af, og tók þá sígild lög eins og óbyggðirnar kalla, kóngur einn dag ofl. En Beddi var öfugt við lagið kóngur einn dag, hann var kóngur alla daga.

Kæri vinur, með þessum fátæklegu orðum kveð ég þig og við Rósa sendum  Dúllu , börnum, tengdabörnum, barnabörnum og öðrum aðstandendum og vinum, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Minningin um einstakan mann lifir.

 

Guðjón Hjörleifsson

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is