Ásmundur Friðriksson skrifar:

Ekki fyrir hálfdrættinga

29.September'18 | 12:59
20180916_102529

Ljósmyndir/aðsendar

Göngur á Landmannaafrétti eru í senn manndómsraun og 6 daga ferð um ævintýraheima fegurðar og áskoranna sem ekki eru fyrir hvern sem er. Þar rísa snarbrattar ógnarfallegar sandöldur, gular, bleikar og svartar upp í 300 metra af sléttu hálendisins og líta út fyrir að vera sakleysið eitt upp málað.

Ég slóst í för með Landmönnum í göngur, græjaði mig upp, fékk mér galla og vettlinga hjá Zo-On og tók til gönguskóna, stafina og bakpokann. Skottið á bílnum var fullt af græjum, orkudrykkjum, harðfiski og ómissandi heimtilbúin sviðasulta að hætti góðra matmanna.  Það var þungbúið veður þegar gangnamenn og fylgdarlið fór ríðandi og akandi inn Jökulgilið ægifagurt þar sem göngurnar hefjast í 600 metra hæð.

Og þó ég geti ekki nefnt ekki öll kennileiti og fegurðina með nafni þá skiptir það ekki máli því hún er svo yfirþyrmandi. Jafnvel í þungbúnu veðri, roki og rigningu eins og var þennan dag. Við erum að týja okkur til, ég kominn í gallann, bakpokinn hangir á bakinu út troðinn af fötum og mat til margra daga þó gangan væri aðeins 6 tímar. Ég stend keikur og styð mig við göngustafina sem ég fékk í fínni búð í Reykjavík. Þar kemur Olgeir í Nefsholti sem var í sinni 57. gangnaferð og segir mér að svona pjáturstafir virki ekki við þessar aðstæður.

Þú verður að geta lagt allan þinn þunga á stafinn í brekkunni, væni og mér sýnist á burðum þínum að svona fínt montprik dugi skammt þegar þú leggst á það 200 metrum ofar á snarbröttum sandhryggjunum sem eru svo hvassir að þeir gætu skorist upp í rassgatið á þér við það eitt að setjast á þá. Ég pakkaði pjátrinu niður og lét ekki sjá í það meir það sem eftir lifði ferðarinnar. Við Markús lögðum í´ann, ég eins og ég væri að fara á tískusýningu með veitingahús á bakinu en hann í ullinni og góðum hlífðarfatnaði með plastbúsa með appelsínudjús til að svala þorstanum og göngustaf í hendi.   

Ég komst að lokum upp brekkuna með hjartað í buxunum og búinn að týna Markúsi og öðrum göngumönnum sem voru komnir í féð en ég villtur og týndur. Það fólk var í hlýjum heimaprjónuðum lopafatnaði sem þoldi rigningu og rok og hélt hlýju á kroppi, höndum og fótum. Tískufatnaður og pjátur eru fyrir rölt í vernduðu umhverfi ekki í göngum á miðhálendinu í snjókomu, roki og rignigarslyddu. Ég komst við illan leik til manna.

Ég fór ekki aftur á fjöllin en í rekstrinum næsta dag var ég kominn með tvenn pör af vettlingum á hendurnar loppinn og ræfilslegur. Þá reið Kristinn fjallkóngur um og hélt berhentur í tauminn allan daginn sama hvernig viðraði, peyjarnir sem fengu frí í skólanum snéru klárunum í hringinn í kringum safnið með hnúfana bera um tauminn. Þetta fólk þolir íslenska veðráttu. Þeir voru líka mannalegir eins og fjallkóngurinn og ég hugsaði til baka og mundi vel hvað ég leit upp til Bergs bónda í Steinum þegar ég var hjá honum í sveit. Við peyjarnir gerðum allt eins og hann, drukkum kaffi, notuðum molasykur og lögðum okkur allir eftir matinn og töluðum eins og fyrirmyndin og hermdum eftir. Þetta hefur ekki breyst í sveitinni og ég sakna þess í fjölmenninu að slík virðing sé borin fyrir eldra fólki og dugnaður og hlýðni sé dyggð.

Skilaboðin eru að við eigum að halda í mannlífið í sveitinni sem er svo dýrmætt og okkur til eftirbreytni. Pjátur og prjál nútímans nær ekki inn fyrir notagildi afurða sauðkindarinnar í mat og klæði. Af einhverju lifði þetta fólk af í sveitinni og gerir enn og þess vegna er ekki nóg að vera í tískuklæðnaði með pjáturstafi þegar farið er í efriðar göngur á fjöll og heiðar sem eru ekki fyrir hálfdrættinga.

 

Ásmundur Friðriksson.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).