Þrír heiðurskarlar, Vigdís skilvinda og Vigdís þingmaður

21.September'18 | 19:23
jonas_siggi_vsv

Jónas og Sigurður. Ljósmynd/vsv.is

Viðar Sigurbjörnsson starfsmaður Hafnareyrar lét af störfum vegna aldurs í sumar á sjötugasta og öðru aldursári eftir áratugastarf í Vinnslustöðinni og síðar dótturfélaginu Hafnareyri. 

Hann var sjötugur í mars 2017 en var ekki reiðubúinn að segja skilið þá við vinnustaðinn sinn heldur dró saman seglin í áföngum og kvaddi síðan vinnufélagana og fyrirtækið í júní 2018.

Viðar var framan af á sjó á skipum VSV en fór í land til að keyra vélar í mótorhúsinu og sinna viðhaldi véla og tækja. Hann fluttist frá VSV yfir í Hafnareyri 2015 ásamt öðrum iðnaðarmönnum og sinnti þar ýmsum verkefnum, viðhaldi og lagerumsjón.

Um svipað leyti létu félagarnir Sigurður Friðbjörnsson, verksmiðjustjóri fiskimjölsverksmiðju VSV, og Jónas Bergsteinsson, rafvirkjameistari og starfsmaður fiskimjölsverksmiðjunnar, samtímis af störfum. Báðir '48-módel og standa því á sjötugu.

Vinnslustöðin þakkar þremenningunum innilega fyrir starf þeirra og samskipti í áratugi og óskar þeim farsældar eftir kaflaskilin, segir í frétt á vefsíðu Vinnslustöðvarinnar.

Starfsferill Jónasar var ekki samfelldur í fiskimjölsverksmiðjunni. Hann var á olíukötlunum fjórar vertíðir frá 1967, kom aftur til starfa á gosárinu 1973 og vann til 1977, hvarf þá til annarra verka en skilaði sér „heim“ á nýjan leik 1983 og var þá í bræðslunni samfellt til 2018.

Sigurður og Jónas störfuðu saman í fiskimjölsframleiðslu Vinnslustöðvarinnar í samtals 81 ár. Þeir eru í toppformi og miklu yngri og sprækari á að líta og í anda en mætti ætla ef litið er á kennitölur þeirra einar og sér.

Framkvæmdastjórinn mætir í sviðaveisluna

„Ég sagði við Jónas fyrir þremur til fjórum árum að ég myndi hætta að vinna sjötugur og hann skyldi vera mér samferða. Svo var ekki talað meira um það en þegar upp kom að ég hugsaði til þess að hætta. Þá spurði Jónas hvort hann myndi ekki rétt að við hefðum ætlað að hætta samtímis? Ég staðfesti að hann myndi rétt og það varð úr,“ segir Siggi Friðbjörns. Hann er Vopnfirðingur að uppruna en flutti til Eyja og tók með sér sviðahúsamenningu Vopnfirðinga.

„Ég fékk nokkra poka af völdum sviðahausum að heiman á haustin, lét þá félaga mína hafa hausa sem kunnu gott meta en slógum svo upp sviðaveislu sem varð strax hefðbundinn viðburður í bræðslunni og er enn. Æðstu stjórnendur Vinnslustöðvarinnar voru ekki miklir sviðamenn og létu þessar samkomur fram hjá sér fara en öðru máli gegnir um Binna. Hann hefur dálæti á sviðum og þegar hann gaf strax út tilskipun sem framkvæmdastjóri um að ekki mætti efna til sviðaveislu í bræðslunni nema hann sjálfur hefði tök á að mæta.

Ég fór svo reyndar að slaka á kröfum og hef mörg undanfarin ekki gert að úrslitaatriði að sviðakjammarnir væru upprunnir í sauðfjárstofni Vopnfirðinga!“

Árum saman var líka slegið í veislu til að fagna vertíðarlokum, enda bræðslan fyrst og fremst vetrarstarfsemi. Nú eru hins vegar breyttir tímar. Fiskimjöl er framleitt árið um kring og eitt tekur við af öðru. Partí í vertíðarlok er því eiginlega ekki á dagskrá lengur, alla vega ekki sem fastbundinn hátíðarsamkoma á borð við sviðaveisluna.

Vigdís skilvinda og Vigdís alþingismaður

Siggi Friðbjörns er gegnheill framsóknarmaður og hefur alltaf verið. Hann segist samt hafa linast ofurlítið í trúnni en er sannfærður samt og verður.  Rétt eins og hann verður sviðamaður ævina á enda þótt hann hafi viðurkennt í seinni tíð að kjammar úr fleiri héruðum en Vopnafirði séu ætir.

Hann vildi á sínum kaupa lýsisskilvindu fyrir bræðsluna en Binni samþykkti ekki fjárfestinguna. Framkvæmdastjórinn hélt fast um pyngu Vinnslustöðvarinnar og reyndi að sannfæra bræðslustjórann með Excel-útreikningum um að best væri að gleyma skilvindukaupum. Alla vega um sinn.

Svo stefndi í alþingiskosningar og Binni hét á Sigga Friðbjörns. Ef Framsókn og íhaldið mynduðu ríkisstjórn handan kosninga fengi Siggi lýsiskilvindu.

„Ég var bara brattur og sagðist skyldu sjá um koma þessari stjórnarmyndun í höfn, eins og kom á daginn. Skilvindan var pöntuð og keypt og ég nefndi græjuna Vigdísi eftir Vigdísi Hauksdóttur, flokkssystur minni og formanni fjárlaganefndar Alþingis.

Vigdís fékk veður af þessu og þegar leið hennar lá til Eyja nokkru sínar kom hún í fiskimjölsverksmiðjuna og vildi heilsa upp á nöfnu sína. Hún var uppáklædd, að sjálfsögðu í grænum fötum, en mér leist ekkert á að fara með hana inn í salinn því við vorum einmitt að bræða þá stundina og ég vissi að lyktin myndi setjast í fötin, jafnvel í græn framsóknarföt líka. Vigdís lét sér fátt um finnast og sagðist vera sveitastelpa sem væri á engan hátt viðkvæm fyrir sterkri lykt sem tengdist atvinnustarfsemi.

Þarna hittust sem sagt Vigdís framsóknarkona og Vigdís skilvinda og fór vel á þeim. Myndun ríkisstjórnar getur því haft meiri áhrif í atvinnurekstri en margur hyggur.“

Hjólhýsi og heimastúss 

Siggi Friðbjörns hefur enn ekki upplifað almennilega breytta tíma í tilverunni en býr sig undir einhver fráhvarfseinkenni í vetur. Komi þau þá ef koma vilja.

„Við ferðuðumst víða um land í sumar í hjólhýsinu okkar og mér fannst sá tími frekar vera óvenjulangt sumarfrí en fyrstu mánuðir eftirlaunaskeiðs. Annars stússa ég talsvert heima og sinni viðhaldi og ýmsu sem setið hefur á hakanum.

Ég ákvað sjálfur að hætta sjötugur og bjó mig undir breytinguna með því að vinna einungis dagvinnu síðasta árið. Örugglega verður samt undarlegt í vetur að vakna ekki til vinnu líkt og undanfarna áratugi. Þetta er auðvitað breyting en ég er afar sáttur við hana. Svo held ég auðvitað sambandi við vinnustaðinn og félagana með því að líta inn í morgunkaffi annað slagið og ræða málin.“

 

Fleiri myndir má sjá hér á heimasíðu VSV.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Óska eftir leiguhúsnæði

10.Ágúst'19

Óska eftir að taka á leigu húsnæði fyrir minni útgerð, lágmarksstærð ca. 20 fm. Kaup koma líka til greina, skoða allt. Upplýsingar s: 869 3499, Georg