Framtíðin liggur í öflugum samgöngum

- Herjólfur ohf. er ferðaþjónustufyrirtæki - Mikilvægt að félagið vinni náið með ferðaþjónustunni í Eyjum

17.September'18 | 11:15
herj_nyr_cr_sa_c

Nýtt félag, Herjólfur ohf. tekur við rekstri nýrrar Vestmannaeyjaferju. Mynd/Crist S.A

Á stjórnarfundi Herjólfs ohf. sem haldinn var um miðjan ágúst var til umræðu stefna félagsins sem ferðaþjónustufyrirtæki. Í fundargerðinni segir að Lúðvík Bergvinsson hafi gert grein fyrir stefnu félagsins sem ferðaþjónustufyrirtæki sem fyrri stjórn hafði mótað.

Þá segir að félagið stefni að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum enda sé Herjólfur dyrnar að Vestmannaeyjum og framtíðin liggi í ferðaþjónustu.

Grímur Gíslason kynnti einnig hugmynd um fyrirhugaða þjónustumiðstöð við afleggjarann að Landeyjahöfn fyrir stjórninni og voru stjórnarmenn sammála um að hugmyndin væri góð og væri vel til þess fallin að auka straum ferðamanna til Vestmannaeyja og styrkja ferðaþjónustuna hér í Eyjum.

Eyjar.net spurði Lúðvík Bergvinsson, stjórnarformann Herjólfs ohf. um hver stefna félagsins sé í þessum málum?

„Tilgangur félagsins er að tryggja góðar og öflugar samgöngur við Eyjar og eftir atvikum að gerast aðilar að öðrum félögum sem hafa þetta sama markmið. Herjólfur ohf. er í eðli sínu ferðaþjónustufyrirtæki. Stjórnin sjálf hefur ekki samþykkt nákvæma útfærsla á þessari stefnu – en áður en viðræður hófust við ríki um yfirtöku bæjarins (eiganda félagsins) á rekstri ferjusiglinga milli lands og Eyja fóru bæjaryfirvöld í greiningarvinnu og skilgreindu hvers vegna þau vildu taka rekstur skipsins yfir og hver væri tilgangurinn með yfirtökunni. Þau markmið og sá tilgangur eru í reynd sá heimanmundur sem félagið fékk við stofnun.

Samfélagsleg sjónarmið réðu ríkjum

Meginsjónarmið bæjarins var það að það væri stórkostlegt framfaramál fyrir samfélagið að hafa stjórn í siglingaleiðinni, lífæðinni, og geta þannig tekið þátt í því að skapa þær samgöngur sem hentuðu samfélaginu, taka þátt í markaðssetningu Vestmannaeyja umfram það sem verið hefur og byggja upp öflugt félag sem gæti sinnt þessu. Hugmyndin var því sú að stofna félag sem gæti tekið reksturinn yfir og leitt þessa vinnu. Það má því segja að samfélagsleg sjónarmið hafi ráðið ríkjum í þeirri stefnu sem sú bæjarstjórn sem þá sat markaði sér áður en hún tók þá ákvörðun að fara í viðræður við ríkið um yfirtöku rekstrarins og semja um það.

Nánar tiltekið voru helstu sjónarmið bæjarins á þeim tíma þau að ferjurekstur væri afar mikilvægur fyrir Vestmannaeyjar, reyndar svo mjög að ljóst má vera að án hans væri byggð í Vestmannaeyjum ekki möguleg. Góðar samgöngur væru forsenda blómlegrar byggðar og réðu miklu um mögulegan á vöxt hennar til framtíðar. Enn fremur lægi fyrir að samkeppnisstaða fyrirtækja í Eyjum og almenn lífsgæði íbúa ráðist að miklu leyti af gæðum þeirrar þjónustu sem veitt er á siglingaleiðinni milli lands og Eyja. Það hafði því lengi verið til umræðu að ráðast í enn frekari úrbætur á samgöngum til og frá Vestmannaeyjum.

Ríkar kröfur í samfélaginu um fjölgun ferða Herjólfs milli lands og Eyja

Fyrir lá sú afstaða bæjaryfirvalda að flutningsþörf hafi ekki verið fullnægt sem skildi. Bæjaryfirvöld bentu m.a. á máli sínu til stuðnings að ítrekað hafi komið upp tilvik þar sem biðlisti til að komast með bifreiðar til Vestmannaeyja hafi numið allt að fimm dögum, hráefni hafi skemmst þar sem það komst ekki á milli lands og Eyja, stórir ferðahópar hafa neyðst til að afpanta bókanir hjá ferðaþjónustufyrirtækjum vegna takmarkaðs framboðs ferða, o.s.frv. Því hafi verið uppi ríkar kröfur í samfélaginu um fjölgun ferða Herjólfs milli lands og Eyja, og almennt aukna þjónustu þannig að „þjóðvegurinn“ væri opinn þegar bæjarbúar og aðrir þurfa á honum að halda. Með þeim samningi sem tókst við ríkið var talið að þessum markmiðum hafi að mestu verið náð.

Þá lagði bærinn ríka áherslu á að siglingarnar væru mikið öryggismál fyrir íbúana í samtali sínu við ríkið.

Nýta tækifærið vel til þess að efla markaðssetningu á bænum

Auk þeirra sjónarmiða sem að framan eru rakin lagði bærinn ríka áherslu á að nýta tækifæri sem yrðu til með því að taka reksturinn yfir og bæta þjónustuna. Þá var það mat þáverandi bæjaryfirvalda að nýta tækifærið vel til þess að efla markaðssetningu á bænum, ef mögulegt væri, með það að leiðarljósi að fá fleiri ferðamenn til að koma til Eyja. Þetta vildu bæjaryfirvöld gera í góðu samstarfi við ferðaþjónustufyrirtæki í gegnum félag sem þau vildu stofna. Það var mat bæjaryfirvalda að þetta samstarf gæti orðið öllum til góðs.

Vestmannaeyjabær verði áberandi upp við þjóðveg nr. 1

Herjólfur ohf. er í eðli sínu ferðaþjónustufyrirtæki, þ.e. það sér um að flytja farþega. Félagið er stærsta ferðaþjónustufyrirtækið í Eyjum. Það er afar mikilvægt að félagið starfi náið með öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum í Eyjum að uppbyggingu ferðaþjónustunnar í heild. Tekjur félagsins koma til af flutningum á farþegum, bifreiðum og vörum. Eftir því sem flutningarnir eru meiri, þeim mun meiri tekjur skapar félagið fyrir sig og samfélagið í heild. Félagið er líka með þjónustu um borð í skipinu og telur afar mikilvægt að sinna henni vel. Það er því almennt markmið félagsins að veita öfluga almenna þjónustu og hækka þjónustustig frá því sem nú er. Af þessum sökum hefur félagið skilgreint sig sem ferðaþjónustufyrirtæki í samræmi við þau sjónarmið og markmið sem bæjaryfirvöld lögðu upp með í upphafi þegar þau hófu viðræður við ríkið um yfirtöku á rekstrinum. Ein þeirra hugmynda sem hafa verið ræddar og hafa enn fremur verið kynntar fyrir forsvarsmönnum félagsins er sú að Vestmannaeyjabær verði mun meira áberandi upp við þjóðveg nr. 1 en nú er til að auka sýnileika bæjarins og bæta markaðssetningu hans. Þetta er því möguleiki sem kann að vera vel þess virði að skoða.

Kannanir endurspegla að íbúar Vestmannaeyja telja brýna þörf á úrbótum í samgöngumálum

Við mörkun stefnu bæjaryfirvalda, sem rakin er hér að framan, höfðu bæjaryfirvöld enn fremur til hliðsjónar að rekstrar- og samkeppnisaðstæður fyrirtækja í Eyjum, m.a. sjávarútvegsfyrirtækja sem eru stór á landsvísu, ráðast að miklu leyti af gæðum samgangna milli lands og Eyja. Þá hafði afstaða bæjarbúa til samgöngumála verið könnuð sérstaklega. Þannig má nefna að MMR vann t.a.m. könnun fyrir ET miðla ehf. „Samgöngur til Vestmannaeyja“ og niðurstöðurnar lágu fyrir í febrúar 2015. Úrtakið voru íbúar Vestmannaeyja 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr þjóðskrá. Helstu niðurstöður umræddar könnunar sýndu að 88,1% íbúanna eru mjög eða frekar óánægðir með núverandi fyrirkomulag sjósamgangna en aðeins 3,9% voru mjög eða frekar ánægðir. Þá töldu 83,9% að núverandi fyrirkomulag sjósamgangna milli lands og Vestmannaeyja hefði mjög eða frekar neikvæð áhrif á íbúaþróun í Vestmannaeyjum. Þessi könnun endurspeglar að íbúar Vestmannaeyja telja brýna þörf á úrbótum í samgöngumálum. Sambærileg könnun sem Háskólinn á Akureyri vann síðar fyrir Vestmannaeyjabæ skilaði nánast sömu niðurstöðum. Niðurstöðurnar voru því skýrar um að hávær krafa var um það í samfélaginu að breytingar yrðu gerðar á því samgangna við Eyjar.

Stjórnin vinnur í samræmi við hagsmuni samfélagsins í heild um öflugar samgöngur, góða þjónustu og öflugt atvinnulíf

Þá horfðu bæjaryfirvöld einnig til þess að forsvarsmenn atvinnulífsins í Eyjum töldu, líkt og bæjaryfirvöld á þeim tíma, að núverandi staða í samgöngum á sjó milli lands og Eyja skaði rekstur þeirra, hindri mögulegan vöxt, og eftir atvikum geri þeim illmögulegt að reka áfram sín fyrirtæki í Vestmannaeyjum.  Á fundi forsvarsmanna fyrirtækja í Eyjum, sem haldinn var þann 7. júlí 2017., sagði m.a. í áskorun til samgönguyfirvalda: „...allar greinar sjávarútvegs í Vestmannaeyjum líða nú fyrir ónógar samgöngur. Álagið á samgöngutækið er slíkt að þær fáu ferðir sem farnar eru á hverjum degi duga hvergi til að anna ferðaþjónustu, hvað þá sjávarútvegi eða almennum íbúum.  Á meðan tapast tækifæri, hráefni skemmist og fyrirtæki víða um land verða fyrir miklum skaða.“…

Á grundvelli stefnumótunar þáverandi bæjarstjórnar við undirbúning og í viðræðum við ríkið hefur stjórn Herjólfs ohf. unnið fram til þessa með þau markmið að leiðarljósi. Engin umræða hefur farið fram um að hverfa frá þessari áður skýrt mörkuðu stefnu um tilganginn með yfirtöku rekstrarins, enda engin ástæða til þess að mínu viti þar sem hún er skýr og skynsöm, enda er hún mörkuð af því að hafa hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi, en ekki hagsmuni einstakra hagsmunaaðila.“ segir Lúðvík Bergvinsson.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).