Kári Bjarnason skrifar:

Axel Einarsson, listamaðurinn í Safnahúsinu – málverk bætist við

14.September'18 | 13:59
fra_kara-001

Bræðurnir Jóhannes Bjarni og Guðmundur Gunnar Jóhannessynir með málverkið sem Kári Bjarnason veitti viðtöku.

Listvinir Safnahúss hafa undanfarin 7 ár staðið fyrir margháttuðum listsýningum í Einarsstofu. Einn er sá listamaður sem fyrir tilverknað hópsins varð vakinn úr sínu hundrað ára dái en sá er Axel Einarsson (1886-1974) frá Garðhúsum og Einarshöfn í Vestmannaeyjum. 

Á lýðveldisdeginum 2011 var haldin fyrsta einkasýning á verkum hans með þátttöku dóttur hans og dótturdóttur sem búsettar eru í Svíþjóð. Leitað var til bæjarbúa um lán á málverkum og svo mikið barst að flytja varð sýninguna í safnaðarheimili Landakirkju. Jafnframt auglýstu Listvinir eftir upplýsingum um  verk eftir Axel til skráningar.

Af einhverjum furðulegum ástæðum hefur þessi beiðni Listvina ekki orðið gleymsku alnetsins að bráð þar sem fá innslög lifa af heilan dag. Heita má að í hverjum mánuði fái undirritaður upplýsingar um málverk eftir Axel og í framhaldinu mynd af verkinu og helstu upplýsingar. Hafa á þann hátt safnast saman heimildir um á annað hundrað málverka eftir listamanninn. Jafnframt hefur komið fyrir að Listasafn Vestmannaeyja hefur verið boðið að gjöf málverk eftir Axel sem ævinlega hefur verið þegið þakksamlega enda eitt meginhlutverk Listasafnsins að byggja upp safn vestmannaeyskra listamanna.

Í gær, fimmtudaginn 13. september, komu bræðurnir Jóhannes Bjarni og Guðmundur Gunnar Jóhannessynir færandi hendi með málverk eftir Axel Einarsson. Gáfu þeir, ásamt bróður þeirra Sverri, verkið til minningar um foreldra sína, Jóhannes Björnsson og Steinunni Jóhannesdóttur en þau fengu málverkið í brúðkaupsgjöf árið 1943. Hefur verkið fylgt þeim alla tíð, síðast í fórum móður þeirra þar til hún lést 2014.

Aðspurðir sögðust þeir bræður hafa lesið „einhvers staðar“ að Vestmannaeyjabær safnaði heimildum um málverk eftir Axel og vildu gefa verkið til Eyja þar sem það ætti heima. Um leið og þakkað er fyrir þá ræktarsemi er því komið á framfæri að á næsta ári, 2019 er Vestmannaeyjabær fagnar 100 ára kaupstaðarafmæli mun verða efnt að nýju til sýningar á málverkum eftir Axel Einarsson og eru þeir bæjarbúar sem eiga verk hans og ekki hafa látið skrá þau niður hjá Listvinum að líta við í Safnahúsinu og leyfa undirrituðum að taka niður helstu upplýsingar til að fást megi sem heillegast yfirlit yfir þennan hæfileikaríka huldumann í íslenskri og vestmannaeyskri málaralist.

 

Kári Bjarnason

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.